4.8.2020 | 10:54
Athyglisverður bíll. Fjórhjóladrif; húrra!
Suzuki Across vekur forvitni. Ef talan 75 kílómetrar í drægni á rafaflinu einu er rétt, er það talsvert meira en gengur og gerist. En helsti galli tengiltvinnbíla hefur verið tengdur því, að framleiðendurnir hafa ekki tímt að fórna miklum hluta af þyngd bílanna í rafhlöðurnar, svo að þær hafa flestar aðeins verið á bilinu 8 til 13 kwst, sem í raun hefur aðeins dugað í um 30 kílómetra akstur við íslenskar aðstæður (1 prósent fall fyrir hvert hitastig).
13 kwst rafhlaða er ekki meira en það, að hinn 760 kílóa þungi smælkisrafbíll Tazzari þarf á allri slíkri rafhlöðu að halda til að komast sína 90 kílómetra.
Hátt í tveggja tonna þungur tengiltvinnbíll kemst að sama skapi miklu skemmri vegalengd á svo lítilli raforku.
Eigendur tengiltvinnbíla láta því oft hrekjast í þær aðstæður að láta bensínvélina viðhalda rafaflinu, en vegna aukaþunga rafhlaðnanna og driflínu þeirra er sú bensíneyðsla oft ansi mikil.
Því meiri raforka, sem hægt er að setja á rafhlöður tengiltvinnbíla úr hleðslustöð eða heimarafmagni, því sjaldnar þarf að hlaða eða láta bensínvélina um það.
Langflestir svonefndir "jeppar", sem nú eru seldir undir þeirri oft vafasömu skilgreiningu, eru ekki með fjórhjóladrif og því síður með hátt og lágt drif eða almennilega veghæð og litla skögun að framan.
Sumir þeirra eru auglýstir þannig, að þeir séu með óvenjulega mikið farangursrými miðað við aðra "jeppa", en hins ekki getið, að þegar ekkert afturdrif er undir viðkomandi "jeppa", losnar þar rými fyrir stærra farangursrými!
Þess vegna er óhætt að hrópa húrra fyrir hinum nýja Suzuki Across ef rétt er, að hann fáist aðeins fjórhjóladrifinn.
Þess má geta að ódýrasti fjórhjóladrifni bíllinn hjá Suzuki umboðinu hér á landi er Ignis, og er aðeins boðinn með fjórhjóladrifinu hér, þótt hann sé líka framleiddur með framdrifinu einu yfir ákveðna markaði, svo sem í Danmörku.
Ignis er afar vel hannaður bíll hvað varðar rými, léttleika og sparneytni, og fjórhjóladrifsgerðin dýrari en hin, en það er líklega rétt hjá umboðinu íslenska að halda fram ákveðinni sérstöðu varðandi áhersluna á fjórhjóladrifnu bílana og ekki síður þá staðreynd, að Suzuki Jimny er einn af afar fáum "ekta" jeppum með hásingar að framan og aftan, hátt og lágt drif og mikla og örugga veghæð og litla skögun að framan og aftan.
Athyglisvert er að hann er ekki nefndur í upptalningu mbl.is fréttarinnar á þeim bílum, sem eru á boðstólum hjá umboðinu hér á landi.
Eftir að Landrover Defender kom með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum og Mercedes Benz G wagen með sjálfstæða fjöðrun að framan, eru Jeep Wrangler og Suzuki Jimny einu fjöldaframleiddu jepparnir á vestrænum markaði, sem enn halda sig við þetta upprunalega fyrirkomulag.
En Jimnyinn er meira en helmingi ódýrari en Wranglerinn.
Suzuki kynnir nýjan jeppa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Til hvers er þetta rafmagnspíp, byggt á barnaþrælkun í námunum. Miklu dýrari bíll. Halda sig bara við dísilinn hann losar bara það sem maður setur á hann og gengur fínt.
Halldór Jónsson, 4.8.2020 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.