Kári: "Ógnvekjandi". "Háski um páska" í haust? "Verum öll hraust að hausti! "

Kári Stefánsson sagði í gær, að staðan í COVID-19 málinu væri "ógnvekjandi." Sóttvarnalæknir kvartar undan kæruleysi yngra fólksins; les "skyldudjammið"; í fjölbreyttri merkingu, sem ástandið er þrungið af. 

Línur talnanna, sem segja mest, líkjast nú óþyrmilega svipuðum línum í upphafi 1.bylgju faraldursins. 

Við erum stödd í jaðri vítahrings þar sem tölur um fjðlgandi smit og sóttkví hafa svipuð áhrif á straum erlendra ferðamanna til landsins og hertar reglur, og valið stendur að því leyti til á milli þessara kosta eða blöndu af þeim. 

Það er til mikils að vinna að komast hjá svipuðu ástandi og var í vor. 

Þá söng Bjarni Atlason á facebook lagið "Gegn háska um páska." Nú væri tilefni til að syngja sama lag, þar sem í stað línunnar "andæfum háska´um páska" væri sungið "Verum öll hraust að hausti." 

 

:,: Verum öll hraust að hausti :,: 

 

Þegar að hættu´að höndum ber 

í hatrammri sótt og elli

æðrulaust samt við ætlum hér

ógnina´að leggja´að velli. 

 

Hret að hausti hafa fyrr

herjað og barið þungt á dyr. 

Um aldir þó stóðu menn óbeygðir

andspænis miklum felli

en unnu svo bug á hrelli. 

 

Í takti við göngum, öll sem eitt

við illskeyttan vanda´að stríða.

Við þurfum ekki´að óttast neitt

nema óttann sjálfan og kvíða. 

 

Að hausti, sem helgist von og trú

halda við skulum, ég og þú. 

Í einhug til sigurs allir nú

ætla Víði´að hlýða

og horf til betri tíða. 

 

Að hausti, sem helgist von og trú

halda við skulum, ég og þú, 

með bjartsýni heitum hér og nú

að horfa til betri tíða, 

og skynsemi´og hugdirfð hlýða. 

 

Örkum gegn fumi´og flaustri

og finnum lausn, hraust að hausti! 


mbl.is 31 brot á sóttvarnareglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Ég man hvernig ég lærði að spenna beltin, það er að gera það á þann hátt að það var ósjálfráð hreyfing, og ég ennþá næstum spilað í höfði mér fréttainnskot þitt þar sem þú sýndir að þetta væri því sem næst sama hreyfingin og að setjast inní bílinn.

Og ég fullyrði að ég var ekki einn um að tileinka mér þessa hreyfingu, og hinn beinskeytti áróður í Ruv var skýring þess að maður hætti öllu kæruleysi, maður fattaði líka að maður væri fyrirmynd fyrir þá yngstui.

Núna virðist vera erfiðara að ná til þeirra yngri, og ekki víst að það dugi að fá Bjarna Ara til að syngja, þó það hefði dugað seint á síðustu öld.

Ég vil samt minna á að eftir höfðinu dansa limirnir og ég gat ekki séð að ungi ráðherrann í ríkisstjórninni væri eitthvað svo stressaður, talaði um að byggja á því góða sem gert hefði verið.

Nú það góða endaði í faraldri, það var viðurkennt í dag.  Og sá faraldur mun verða okkur sú blessun að önnur lönd munu loka á ferðamannstraum til Íslands með kröfunni um sóttkví við heimkomuna.

En það fer ekki saman að hvetja almenning til að gæta að sér og að á sama tíma hleypi fólki, sem gæti verið smitað, inní landið

Þá upplifir almenningur sig alltaf sem fórnarlömb og spyr sig; Til hvers?, er þá ekki bara betra að leyfa faraldrinum að ganga yfir??

Því ef stjórnvöld taka þetta ekki alvarlega, þá tekur almenningur þetta ekki alvarlega.

Raunveruleikinn sannaði að sóttkví við komuna til landsins dugði, var forsenda þess að veirunni var útrýmt snemma í vor.  Raunveruleikinn sagði líka að skimun við landamæri er ófullkominn og leiðir til faraldurs.

Unga fólkið er ekki heimskt, hlýðir ekki í blindni.

Tilgangurinn þarf að vera skýr ef það er nokkur von til að fá það með sér.

Í því liggur vandinn að mínu dómi.

En að sjálfsögðu eigum við að hlýða Víði, það er ekkert annað í boði.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.8.2020 kl. 14:22

2 identicon

Ello (IP-tala skráð) 7.8.2020 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband