Björn Bjarnason: "Stjórnmálamenn stjórni fjölmiðlum og fréttaflutningi."

Nú er mikið rætt um fjölmiðlun bæði hér á landi og erlendis, eins og tengd frétt á mbl.is er dæmi um.  Einnig er mikið skeggrætt um þá fjölmiðlun, sem birst hefur síðustu daga í Samherjamálinu.

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra skrifar merkan bloggpistil á síðu sína um það sem hann kallar "fjörbrot hefðbundinna fjölmiðla."

Sem þýðir á mæltu máli, að þeir séu deyjandi fyrirbrigði, en fjölmiðla- og fréttastjórn stjórnmálamanna hafi komið í staðinn. Og það séu góð skipti.  

Í pistlinum lýsir hann fyrst því frumkvæði, sem hann sjálfur hefði ekið fyrir 25 árum með því "að halda upplýsingum milliliðialaust að almenningi."  

Nú hafi orðið gjörbylting, sem "Donald Trump "hafi rekið rekið smiðshöggið á, með því að stjórna fjölmiðlun með stuttum yfirlýsingum á Twitter og samhliða því að taka að sér þessa fréttastjórn. sagt hefðbundnum fjölmiðlum stríð á hendur."   

Ekki er hægt að lesa neitt annað út úr þessum pistli en mikla ánægju Björns með þróun mála í þessum efnum, og lýsir hann velþóknun á grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar um Samherjamálið í Morgunblaðinu í dag. 

Sem leiðir aftur hugann að  því hvort einnig sé í gangi velþóknanleg bylting í fjölmiðlum þess efnis að best sé að stór fyrirtæki og valdahópar "taki að sér" alfarið "að stjórna fjölmiðlum, taka að sér fréttastjórn og segja hefðbundnum fjölmiðlum stríð á hendur," svo að notað sé orðalag í þessum merkilega pistli Björns. 


mbl.is Hundruð létust vegna rangra upplýsinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Þetta eru afar umhugsunarverðar
athugasemdir ykkar beggja um
kjarna þessa máls,

"hvort mikils sé misst
þó maður að lokum lendi í annarri vist,"

milliliðalausum tjáskiptum á Twitter
í stað þess að hlusta á í beinni útsendingu

[að] "vitleysingur hafi verið kosinn
til forseta í Bandaríkjunum," -

svo dæmi sé tekið.

Húsari. (IP-tala skráð) 13.8.2020 kl. 21:56

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Ómar.

Þú sérð hlutina líklega í ljósi umhverfisskaða frá veru þinni á DDRÚV. 

Björn er að segja að menn (og þar með fyrirtæki líka) geti talað bent við almenning (og þar með fjölmiðla líka) og þannig komið skilaboðum milliliðalaust til skila. Að skilaboðin þurfi ekki fyrst að fara í gegnum höfuð frétta/blaðamanns og þaðan út til viðtakandans. Ergo: maður stjórnar sjálfur því sem sagt er og hvenær. Maður stjórnar fréttaflutningum.

Þetta er sama þróun og hefur verið hjá til dæmis stétt verðbréfamiðlara. Lifibrauð þeirra var það, að þeir og bara þeir einir höfðu tengingu við markaðinn. Það hafði almenningur ekki. En núna hefur almenningur að minnsta kosti jafn góða tengingu við markaðinn og miðlarar einir höfðu áður, þannig að starfstétt miðlara hefur þurrkast út. Allir geta miðlað fréttum af sjálfum sér beint og allir geta tekið á móti þeim, beint.

Þetta er þróunin og fréttamenn eru náttúrlega ekkert sérlega hressir með þessa þróun, ekki frekar en verðbréfamiðlarar voru ánægðir með að þurrkast næstum út sem starfsstétt. 

En fréttamenn geta líka kennt sjálfum sér um, því þeir eyðilögðu til dæmis "viðtalið við stjórnmálamenn" með því að verða helteknir af því að eyðileggja stjórnmálamenn, frekar en að miðla því sem þeir höfðu að segja.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 14.8.2020 kl. 03:09

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Geti talað beint til fjölmiðla" segir þú í öðru orðinu  en samsinnir því í hinu að "stjórnmálamenn og stórfyrirtæki eigi að stjórna fréttum og fjölmiðlum". 

Hefðbundnir fjölmiðlar, sem eru óháðir og frjálsir og ástunda eftir föngum faglega og nauðsynlega blaðamennsku virðast eitur í beinum þeirra, sem hafa mest völd og áhrif, þar með talin stórfyrirtæki þar sem peningar eru einn hluti valdanna.   

Hefðibundnir og óháðir fjölmiðlar eru ævinlega það fyrirbæri, sem upprennandi einvaldar ráðast fyrst og mest á á leið sinni til valda. 

Það er umhugsunarefni hve margir mæla slíku bót í hástert á síðustu tímum. 

Ómar Ragnarsson, 14.8.2020 kl. 07:32

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ómar minn.

Varla dettur nokkrum manni í hug að þeir sem stjórni sjálfir því sem þeir segja og skrifa og hvar þeir segja og skrifa það, séu um leið að reyna að stjórna "fjölmiðlum". Enginn bannar fjölmiðlum að fjalla um það sem sagt er.

En þú þarft hins vegar ekki lengur að vera háður þeim þegar það kemur að því að koma skilaboðum og fréttum beint til notandans. Það er einmitt það sem þú ert að gera hér á þinni bloggsíðu.

Fjölmiðlar hafa ekki lengur það stalíníska hreðjatak á því hvað kemst á framfæri og hvað ekki. Sá tími er liðinn, eins og tími verðbréfamiðlara er að mestu liðinn. Það eina sem þeir höfðu var telex, telefax, x.25, ISDN eða álíka og sem almenningur hafði ekki.  Almenningur er kominn með TCP/IP og talar beint við markaðinn.

Þess utan hefur DDRÚV ekki einu sinni stjórn á sjálfu sér. Það er stórlaust hrúgald vinstrimanna á ríkisjötunni og sem mestan áhuga hefur á að eyðileggja þá stjórnmálamenn sem því þóknast ekki. Og fyrirtæki að því er virðist líka. Það gat til dæmis næstum aldrei talað við Davíð Oddsson án þess að tryllast og tapa sér. Við höfum ekkert með þannig ríkisfjölmiðil að gera, svo við minnumst ekki á nýlega aðför vinstrimanna DDRÚV að SDG.

Gunnar Rögnvaldsson, 14.8.2020 kl. 08:12

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nú eru aðeins örfáir dagar síðan megnið af fréttatíma RÚV var tekið undir þá "frétt" að fólk sem fengið hefði Covid-19 gæti allt eins smitast aftur. Var fréttin höfð eftir einhverjum kvenmanni sem hafði smitast og áleit að þetta væri raunin. Ekki var fagmennskan meiri en svo að fréttamanni hafði greinilega ekki hugkvæmst að taka fimm mínútur í að kanna sannleiksgildið. Svo mikill var æsingurinn að koma þessari æsifrétt til skila.

Daginn eftir leiðréttu læknar þessa vitleysu og sögðu ekkert hæft í þessu.

Hefði þessi "frétt" birst á samfélagsmiðlum hefði hún vafalítið verið talin falla undir hið gagnmerka hugtak upplýsingaóreiða. En hvað þegar "faglegir" fréttamenn á "vönduðum" fréttamiðli bera svona vitleysu á borð og valda þannig fjölda fólks algerlega óþörfum áhyggjum? Er það líka upplýsingaóreiða?

Þorsteinn Siglaugsson, 14.8.2020 kl. 09:05

6 identicon

Lastaranum líkar ei neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
þá fordæmir hann skóginn.

SH (IP-tala skráð) 14.8.2020 kl. 11:20

7 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"Hefðbundnir fjölmiðlar, sem eru óháðir og frjálsir og ástunda eftir föngum faglega og nauðsynlega blaðamennsku"

Nú segirðu fréttir.  Hvaða miðlar eru þetta sem þú talar um, og hvar heyri ég í þeim?

Ásgrímur Hartmannsson, 14.8.2020 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband