16.8.2020 | 16:20
Hlýindin ein skapa flóðin.
Það var nokkuð óvenjulegt að fljúga í fyrradag eftir endilöngum Vatnajökli í árlegum hálendisleiðangri, og geta opnað hliðarglugga vélarinnar, sem er býsna stór, án þess að vera í neinni yfirhöfn. Enda hefur hitinn þarna uppi í 1700 metra hæð verið allt að átta stig í plús!
Og í dag hefur líklega verið enn hlýrra.
Hitinn á Sauðárflugvelli, sem er skammt norður af Brúarjökli í 660 metra hæð yfir sjó var 20 stig í dag, 21 stig við Upptyppinga og 24 stig á Grímsstöðum, sannkallaður hnjúkaþeyr.
Þessi þeyr er skraufþurr þannig að það er ör bráðnun stóru skriðjöklanna í norðanverðum jöklinum, sem skapar hin miklu flóð.
Herðubreiðarlindir eru rétt fyrir neðan ármót Jökulsár á Fjöllum og Kreppu, og vatnavextir í þessum tveimur ám skapa því flóð, sem fer yfir bakkana við lindirnar og skapa þar vandræði að því er heyra má í fréttum.
Efri myndin er af Jökulsá á Fjöllum með Herðubreið í baksýn, en myndin þar fyrir neðan var tekin af Grímsvötnum í fyrradag.
Bráðnun íss í Grímsvötnum af völdum lofthita yfir frostmarki er lítil miðað við þá bráðnun, sem á sér stað af völdum jarðvarma undir Grímsvatnadaldinni fyrir norðan Grímsfjall og Svíahnjúka.
Búast má við að mikil bráðnun muni hraða fyllingu Hálslóns, sem er skammt frá Sauðárflugvellik, þannig að það geti farið á yfirfall fyrr en ella.
Þjóðvegur opnaður og staðan endurmetin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.