Það getur verið lífshættulegt að festa fót eða fætur í sandbleytu, sem er innan við metri í þvermál og myndbandið, sem náðist af björgun manns við Sandvatn, er ekki aðeins magnað, heldur mjög lærdómsríkt.
Í júníbyrjun í vor lenti síðuhafi í því að festa báða fætur í pínulitlum kviksyndispytti, sem engin leið var að sjá fyrirfram, rétt við einn af brautarendum Sauðárflugvallar á Brúaröræfum og var erfitt að trúa því hve viðsjárvert þetta fyrirbæri var.
Ætlunin var að ganga aðeins nokkur hundruð metra vegalengd út fyrir völlinn og til baka aftur, en völlurinn var þá orðinn skraufþurr og harður eftir vorleysingu, en ganga þurfti yfir mjóa og afar grunna, en vota lænu, aðeins nokkurra sentimetra djúpa að því er séð varð.
Það gekk að óskum á lágum skóm á leiðinni út fyrir brautarendann eftir bílförum svonefndrar Brúardalaleiðar, sem hefur legið þarna endilangt eftir einni af flugbrautum vallarins.
En á leiðinni baka gerðust þau mistök að ganga ekki alveg nákvæmlega í sömu fótsporin, og á einum stað sökk annar fóturinn niður í deigan blett og það var eins og sogskál hefði gripið í hann, svo fastur var skórinn.
Þegar reynt var að kippa fætinum upp, var ekki stigið á nákvæmlega réttan stað á hinum fætinum, og festist hann líka.
Nokkrir gestir, sem höfðu komið fljúgandi á völlinn, voru nýfarnir og voru nú góð ráð dýr.
Hófst nú um það bil 20 mínútna barátta við að losa skóna, sem nú voru alveg sokknir, og hefði hún verið vonlaus, ef ekki hefði verið handbær vasahnífur, sem hægt var að nota til þess að kraka burtu sandleirnum og komast að skóreimunum til þess að losa um þær, svo að hægt væri að smokra sér upp úr skónum, sem voru eins og límdir í leirinn.
Þetta var afar vandasamt og seinlegt, því að við hverja hreyfingu eða átak í gegnum fæturna festust fæturnirnir meira.
Að lokum tókst að losa annan fótinn upp úr skónum og finna honum stað aðeins utan við þennan fáránlega litla kviksyndisblett, þar sem hann sökk ekki niður.
Þá var bara eftir að nota vasahnífinn og fingurna áfram til þess að losa síðari fótinn upp, ganga að flugvélinni og finna vatn til að skola límkenndan leirinn af fótunum, fara síðan aftur til baka og brúka nothæfan blett, alveg við kviksyndisblettinn til þess að standa á og grafa skóna upp úr leðjunni.
Farsímasamband er á þessum stað, en þó blindir blettir innan um. En svona atvik sýnir, að sé það ekki fyrir hendi getur voðinn verið vís ef sandbleytan er í líkingu við það, sem hún var greinilega við Sandvatn.
Og ofangreint atvik sýndi gagnsemi þess að ganga ævinlega með vasahníf á sér.
Lítið áhald, en oft mikið í húfi.
Magnað björgunarafrek - myndskeið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.