Vantar helming fyrirsagnar.

Stundum eru fyrirsagnir frétta þannig, að ef lesandinn les ekki meira en þær, þá getur hann fengið alranga mynd af efni hennar. 

Fyrirsögnin "Faraldrinum er að ljúka" bendir sterklega til, ein og sér, að átt sé við Ísland, enda mest lesin. 

En aðeins tvö orð til viðbótar í fyrirsögninni hefðu getað komið í veg fyrir þennan misskilning: "...í Svíþjóð." 

Fyrirsögnin: "Faraldrinum er að ljúka í Svíþjóð"; það var nú allt, sem þurfti. 

Síðan verður að lesa alla fréttina til enda til að fá að vita, að í fjölmörgum mun fjölmennari löndum í Evrópu og víðar er bylgja faraldursins í fullum gangi og ástandið hið alvarlegasta.   

Frægt varð hér um árið þegar fyrirsögn í DV var: "Bubbi fallinn."  

En það, sem var verst, var, að mynd af þessari stóru fyrirsögn var birt á forsíðu Fréttablaðsins, sem var margfalt útbreiddara blað, án nokkurrar útskýringar, nema að blaðið væri keypt og lesið.  

Á þessum tíma var það stutt frá því að Bubbi fór í meðferð, að fyrirsögnin gaf þá hugmynd, að hann væri fallinn hvað meðferðina varðaði.  

Hið rétta var, að hann var ekki hættur að reykja, sem var auðvitað allt annar handleggur. 

Bubbu fór í mál út af þessari málsmeðferð og vann það að sjálfsögðu. 

Stundum getur svona ágalli í framsetningu fréttar verið brosleg.

Einu sinni var þessi fyrirsögn á einni af íþróttasíðum blaðanna: "Boltinn sprakk og Fram vann."

Svo las maður fréttina og í henni var hvergi minnst á að boltinn hefði sprungið. 

Spurningunni um það atriði hefur ekki verið svarað enn í dag. 


mbl.is Faraldrinum er að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er ákaflega ánægjulegt að faraldrinum sé að ljúka í Svíþjóð. Kannski getum við nú farið að reyna að læra eitthvað af þessum ágætu, en það skal viðurkennt, frekar leiðinlegu, frændum okkar.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.9.2020 kl. 23:53

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það má leyfa sér að efast um gildi þeirrar miklu fórnar, sem felst í tuttugu eða þrjátíu sinnum fleiri dauðsföllum en hjá okkur. 

Ómar Ragnarsson, 6.9.2020 kl. 09:33

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Tilgangurinn helgar meðalið hvað varðar þennan fréttaflutning, með illu ætlar ritstjórn Morgunblaðsins að grafa undan sóttvörnum við landamærin.

Hins vegar má alveg velt því fyrir sér af hverju faraldurinn varð ekki stjórnlaus í Svíþjóð, dánarhlutfall þar er svipað og á Ítalíu, en lægra en á hamfarasvæðum Norður Ítalíu.  Sóttvarnir í Svíþjóð eru samt um margt keimlíkar og var á Norður Ítalíu í upphafi faraldursins, tilmæli og upplýsingar, reynt að verja sjúkrahús og dvalarheimili, en lítið um bein inngrip í samfélagið. 

Þetta segja menn skýra að það gekk svona vel hjá Svíunum, að hafa ekki drepið fleiri en þó voru drepnir, en þá hefði þetta líka átt að virka á Norður Ítalíu, Bretlandi og víðar þar sem svipaðri nálgun var beitt í upphafi.

En Svíþjóð er eiginlega eina dæmið í Evrópu um land þar sem fjaraði undan faraldrinum án þess að það þyrfti að grípa til harkalegra aðgerða, svo skýringin hlýtur að vera önnur en vægar sóttvarnir eða hið sterka sænska gen líkt og maður hefur séð örla á í umræðunni þar í landi (fylgist með feisbókarsíðu Íslandssvía.

Það er þekkt úr sögunni að farsótti leika landsvæði misgrátt, og sum jafnvel sleppa með öllu líkt og reyndin virðist hafa verið með mýrar og fenjasvæði í Austur Evrópu, teygist frá austurhluta Brandenborgar inní Litháen, þegar Svarti Dauði herjaði á Evrópu í þremur bylgjum.  Svæði sem voru byggð Slövum og baltneskum þjóðum, enginn Svíi og enginn Tegnell, en hugsanleg þrifust bara flærnar ekki í rakanum.

Kórónuveiran barst frekar seint til Svíþjóðar og landið lokaðist mjög fljótlega, líkt og önnur lönd vegna þess að ferðir milli landa lögðust að mestu af.  Veirusmit þeirra líkt og það sem grasseraði hérna, var frekar veiklað út frá stuðlinum sem Kári talar um og metur styrk veirunnar. Sú veira varð eiginlega sjálfdauð eftir að hún barst út frá Stokkhólmssvæðinu og hætti að smita, líkt og raunin varð með SAR veiruna sem gufaði eiginlega upp áður en bóluefni var þróað. 

Í þessu lá lán Svíanna og það er ekkert sem segir að þeir geti ekki fengið nýtt og öflugra smit inní landið.  Þú getur ímyndað þér nafni, ef sömu öfl og núna grafa undan sóttvörnum, hefðu verið til staðar í upphafi Spænsku veikinnar, þá hefðu svona fyrirsagnir oft verið prentaðar, eða alveg þar til seinni bylgjan sprakk út af fítonskrafti og tók líf milljóna, aðallega fólks á besta aldri.

Það er heldur ekkert sem segir að þeir geti ekki sloppið, að þróun kórónuveirunnar verði ekki svipuð og með SAR veiruna, málið er að þetta er ekki vitað.

Blekkingin byrjar þegar menn segjast vita.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.9.2020 kl. 11:15

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Faraldrinum er langt í frá lokið hjá okkur Ómar Ragnarsson. Við vitum því ekki hversu dauðsföllin verða mörg þegar öll kurl eru komin til grafar. Ef 16% hafa náð ónæmi þar, og 1% hér, mætti að öðru óbreyttu ætla að 160 manns látist úr pestinni hér þegar sömu stöðu hefur verið náð og í Svíþjóð. Hlutfallið yrði þá ekki ósvipað á endanum.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.9.2020 kl. 12:17

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Faraldrinum er heldur ekki lokið í Svíþjóð. Þrátt fyrir dauðaaðferðina þar, mælist aðeins 16% ónæmi í heljarins úrtaki. Það er ekki það sem dauðalæknir þeirra Svía, Tegnell, gerði ráð fyrir í spám sínum. Tilraun hans lauk með fjöldadauða gamalmenna og óásættanlegum árangri. Mikið er nú gott að Íslendingar löptu ekki "vísdóminn" eftir Svíum í þetta sinn.

FORNLEIFUR, 12.9.2020 kl. 05:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband