Það eru hundrað hektarar í ferkílómetranum.

Merkilegt er að sjá hvernig fjölmiðlar gera ekki hina minnstu tilraun til þess að nota þær mælieiningar í fréttum, sem fólk skilur. 

Gott dæmi er tengd frétt, þar sem fyrst er talað um 400 þúsund hektara, en síðan um milljón ekrur, sem er enn verri tala og segir venjulegu fólki ekki nokkurn skapaðan hlut. 

Það eina, sem þarf, er að vita, að í einum ferkílómetra eru 100 hektarar.

Þá það þarf hvorki snjallan reiknimeistara, tölvu, snjallsía né reiknistokk til að sjá í hendi sér á tveimur sekúndum, að 400 þúsund hektarar eru 4 þúsund ferkílómetrar, af því að í einum ferkílómetra eru eitt hundrað hektarar. 

Klippt tvö núll af tölunni, sem blasir við, og útkoman er ljós.  

Og fólk skilur frekar ferkílómetra en hektara. 4000 ferkílómetrar jafngilda svæði, sem er 200 kílómetra langt og 20 kílómetrar á breidd. 

Vestfirðir eru um 7000 ferkílómetrar og Vatnajökull rúmlega 8000. Eldasvæðið í Kaliforníu er því álíka stórt og hálfur Vestfjarðakjálkinn, hálfur Vatnajökull eða allt Suðurlandsundirlendið. 

Hvort skilst betur; Suðurlandsundirlendið eða milljón ekrur?


mbl.is Skógareldarnir ná yfir 400 þúsund hektara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dagslátta er skemmtileg eining, ca. 6000 fermetrar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.9.2020 kl. 14:31

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Var upp á sitt besta þegar notast varð við orf og ljá. 

Ómar Ragnarsson, 8.9.2020 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband