1.10.2020 | 09:35
Egilsstaðaflugvöllur - klára málið - koma svo!
Flugvallarstæði Egilsstaðaflugvallar hefur flest það til að bera sem getur gert hann að boðlegum og öruggum varaflugvelli fyrir millilandaflug.
Brýnt er að útbúa fullkomnar aðstæður til stæða og akstursbrauta, en eitt er það sem vill oft gleymast í umræðunni, að það er löngu kominn tími til að lengja flugbrautina með því annað hvort að færa þjóðveginn frá brautarendanum og hafa hann miklu sunnar, eða að láta veginn liggja undir brautina.
Síðuhafi fékk einu sinni að vera "á prikinu" í aðflugi Boeing 757 til norðurs með smekkfulla vél.
Það var logn, en sló í 5-10 hnúta sitt á hvað.
Svo óheppilega vildi til að á stuttri lokastefnu lagðist golan undan flugstefnunni og vegna hinna hlálegu hindrana af ljósastaurum við brautarendann "flaut" þotan talsvert langt inn yfir brautinni.
Og seint var að hætta við, en lendingin varð þannig, að þotan þurfti gervalla brautina alveg út á enda.
Með fullri virðingu fyrir íslensku kúnni og mjólkurframleiðslu er það fráleitt að nokkrir tugir hektara fyrir tún séu látnir hafa forgang yfir jafn bráðnauðsynlegt mannvirki og almennilegur alþjóðaflugvöllur er.
Ekkert annað land í Evrópu er þannig staðsett, að þaðan séu 1330 kílómetrar til næsta lands.
Vaxandi eldsumbrot í iðrum jarðar í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli sýna, að þörfin fyrir fullkominn varaflugvöll á öðru veðursvæði og utan umbrotasvæðis Reykjanesskaga er of mikil til þess að lengur verði undan því vikist að klára þetta alltof langdregna mál, stækkun og endurbætur á Egilsstaðaflugvelli og nauðsynlegum þjónustumöguleikum í sambandi við hann.
Klára þetta! Koma svo!
Vilja byggja flugvöllinn upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Spyr sá sem ekki veit. Hvaða kosti hefur BIEG fram yfir BIHU (Húsavíkurflugvöllur)? Fjarlægðin frá BIHU til meginlandsins er nær sú sama. Hef lent á báðum flugvöllunum og aðstæður í Aðaldalshrauninu eru ekki verri, gott ef ekki betri. Þá eru aðeins 80km frá BIHU til Akureyri, höfuðstað Norðurlandsins.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.10.2020 kl. 10:12
Vel mælt, Ómar. Vonandi færðu sem flesta í stjórnkerfinu til þess að sjá nauðsyn þess að bæta Egilsstaðaflugvöll hið fyrsta. Keflavík var nálægt því að detta út í Eyjafjallajökulsgosinu, en í og eftir Kötlugos þarf sannarlega að vera annar kostur til, auk allra annarra atvika sem upp geta komið.
Ívar Pálsson, 1.10.2020 kl. 11:18
Það yrði mun dýrara að byggja Húsavíkurflugvöll upp endurbæta hann heldur en Egilsstaðaflugvöll og hin háu fjöll fyrir suðvestan BIHU skapa mikla ókyrrð í hvössum suðvestan- og vestanáttum. BIEG er utan umbrotasvæðis en skammt norðan við BIHU er verið að vara menn við stórskjálfta upp á 6,5 stig.
Ómar Ragnarsson, 1.10.2020 kl. 17:43
Er ekki svo fróður um þetta. Samt ólíklegt að kostnaður sé stór liður í jöfnunni. Held einnig að "ókyrrðin" frá Kinnafjöllum sé orðum aukin. Að þú sért að tala um hluti sem þú hefur litla þekkingu á. En kannski vantar Húsvíkinga "lobbyisma."
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.10.2020 kl. 20:05
Hér gleyma menn algerlega eina alvöruflugvallarstæðinu á Norðurlandi; Skagafirðinum.
Alexandersflugvöllur hefur allt til að bera að verða varaflugvöllurinn, með ákveðnum greini.
Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 3.10.2020 kl. 14:10
Mig langar að nefna það að vestan áttir yfir Húsavíkurflugvelli er með því skelfilegasta sem ég hef lent í. Það sama á að mörgu leiti við um Sauðárkróksvöll.
Kolbeinn I Arason (IP-tala skráð) 4.10.2020 kl. 23:23
Flugvöllurinn á Egilsstöðum er tilbúinn fyrir að vera fyrsti varavallarkostur við Keflavíkurflugvöll og ef ekki væri virir slæglegt viðhald á brautinni sjálfri væri hann nú þegar klár í allt millilandaflug nema Boeing 747 og stærri vélar, burðarlega séð.
Þrátt fyrir fögur loforð Sigurðar Inga Jóhannssonar fer eitthvað lítið fyrir framkvæmdafé í Egilsstaðaflugvöll á samgönguáætlun, sem nú er í vinnslu á Alþingi.
Fjármagnið í viðhald, sem Egilsstaðaflugvöllur þarfnast, er langt um lægri upphæð en færi í að byggja upp aðra valkosti, sem nefndir eru hér að ofan.
Akureyrarflugvöllur er svo sér kapituli. Þar virðist vera ryksugubarki tengdur beint í ríkisfjárhyrlsuna og í framkvæmdiahítina Akureyrar megin, þó áviningurinn sé enginn. Ekkert millilandaflug. Enginn fiskútflutningur. Engin hreyfing sem afsakar það mikla fjárstreymi í hann. Jafnframt er farið þvert á álit sérfræðinga um ávinninginn í þeim framkvæmdum öllum.
Veðurfarslega og landfræðilega er hann vel staðsettur og aðflug að flugvellinum eitt það besta á landinu og samkvæmt úttekt sérfræðinga er hann besti kostur á móti Keflavíkurflugvelli, þar sem andstæður í veðurfari eru mestar milli flugvalla og áreiðanleiki áætlunarflugs á Egilsstaðaflugvöll nær 99%.
Sauðárkróksflugvöllur fylgir Keflavíkurflugvelli oft veðurfarslega séð og yrði því afar erfiður sem varaflugvöllur fyrir Keflavík vegan þess að báðir eru að jafnaði ófærir á sama tíma.
Benedikt V. Warén, 7.10.2020 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.