4.10.2020 | 20:30
Exelskjalið með "ótímabæru" dauðsföllunum.
Margt getur verið sérkennilegt varðandi jafn alvarlegt málefni og dauðföll.
Fyrir fjórum árum lenti síðuhafi í umferðarslysi, árekstri, þar sem tryggingarfélagi gagnaðilans var gert að greiða slysabætur.
Lögmaðurinn, sem tók málið að sér fyrir mig, byrjaði málareksturinn á að upplýsa um eðli málsins, og sagði, að í kerfinu væri í gangi fyrirbrigði, sem líkja mætti við ósýnilegt exelskjal þess efnis, að við 75 ára aldur stórversnaði hagur hvers þess, sem næði þeim aldri.
Það þýddi, að í rekstri þessa máls yrði það afar stórt atriði að við 75 ára aldur færi fólk í hrakvirðisflokk, hvað varðaði upphæð bóta.
"Þú meinar ruslflokk?" spurði ég.
"Ja, við kunnum nú ekki við að nota það orð" var svarið. "En þetta þýðir að það verður hrun í upphæð bótanna hjá þér."
Hann setti skjal á borðið sem sýndi með línuriti þetta hrun, og línan var þverbrött niður á við við 75 ára aldur.
Um svipað leyti og þetta mál var í meðferð birtist frétt í fjölmiðlum þess efnis, að í alþjóðlegri könnun varðandi tíðni "ótímabærra dauðsfalla" hefðu Íslendingar verið með næstfæst ótímabær dauðsföll, og mátti skilja á fréttinni að þetta væri mikill heiður og viðurkenning fyrir íslenskt heilbrigðis- og velferðarkerfi.
En, viti menn, þegar farið var að lesa nánar útlistunina á þessu máli, kom þá ekki ljós hið ósýnilega exelskjal slysabótalögfræðingsins varðandi 75 ára aldursmarkið.
Það aldursmark var sett sem sú aldurstala, sem skildi að ótímabær dauðsföll hjá Íslendingum.
Til nánari skýringar skalt hér nefnt tilbúið dæmi, sem vel gæti staðist.
Maður nokkur við góða heilsu, sem er fæddur 1. janúar, ákveður að halda glæsilega afmælisveislu að kvöld þess dags.
En síðan gerist það, öllum á óvart, að hann fellur örendur fram á kvöldverðarborðið kvöldið áður, á gamlárskvöld.
Fyrir orðstír Íslendinga er þetta sviplega dauðsfall þó að einu leyti góð tíðindi: Hann er ennþá 74 ára og þetta telst því "ótímabært dauðsfall" og fer inn í alþjóðlegt bókhald, Íslandi til upphefðar.
Verra hefði verið ef hann hefði dottið fram á kvöldverðarborðið daginn eftir, því að þá hefði hann verið orðinn 75 ára og þetta því ekki talist ótímabært dauðsfall.
Nei, að hefði verið skráð sem tímabært dauðfall, og það jafnvel vel tímabært!
Veruleg fjölgun óútskýrðra dauðsfalla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður pistill um súran sannleik.
Gunnar Heiðarsson, 4.10.2020 kl. 23:38
Kannski ætti bara að snúa þessu við. Hætta að tala um ótímabær dauðsföll sem hlutfall dauðsfalla, en tala frekar um tímabær dauðsföll sem væri þá öfugt hlutfall. Það væri vitanlega svolítið kuldalegra að tala þannig, en merkingin er nákvæmlega sú sama.
Þorsteinn Siglaugsson, 5.10.2020 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.