12.10.2020 | 17:29
Nauðsynlegt að vanda til verka varðandi lagaumverfi léttra bifhjóla.
Í ljósi hraðrar þróunar í notkun léttra bifhjóla og rafknúinna reiðhjóla hér á landi, er óhjákvæmileg nauðsyn að fara vel yfir öll ákvæði skráningar og trygginga sem um þau gilda.
Í því efni þarf ekki aðeins að hafa hliðsjón af reynslu og löggjöf annarra þjóða, heldur líka að skoða hvaða ákvæðum geti verið rétt að breyta miðað við okkar aðstæður.
Nokkur lönd í Evrópu hafa þegar leyft aðrar vélarstærðir og hámarkshraða en gilda í grunngerðinni frá Brussel, svo sem 350 eða jafnvel 500 vatta rafhreyfla í rafreiðhjólum í stað 250 vatta, 30 km/klst hámarkshraða í stað 25 eins og Danir hafa gert, og leyft handstýrðar aflgjafir í viðbót við fótahjálp.
Margt fleira mætti nefna og skrifa um þetta allt drjúglangan pistil. Sum meginákvæði, sem gilda hér á landi, eins og til dæmis um hand aflgjafir, eru fáránleg.
Eða hvers vegna ætti að banna handgjöf á 25 kílóa þungu 250 vatta rafreiðhjóli en leyfa hins vegar handgjöf á bensínknúnu hjóli sem er 90 kílóa með 1500 vatta afl?
En svona er þetta hér á landi.
Á efstu myndinni hér á síðunni eru þrjú létt bifhjól.
Fremst er 125 cc bensínknúið hjól með 96 km/klst hámarkshraða og 250 km drægi með 2,5 lítra eyðslu á hundraðið.
Miðjumyndin er af rafreiðhjólinu Sörla á Öxnadalsheiði í ágúst 2015 á leið til Reykjavíkur um Hvalfjörð í tæplega tveggja daga ferð, hámarksdrægi 159 km og orkukostnaður Akureyri - Reykjavík 115 krónur, sem svarar 0,2 lítrum af bensíni á hundrað ekna kílómetra.
Siðan eru fimm ár og neðsta myndin hér á síðunni gefur til kynna hraða þróun í rafknúnum hjólum hér á landi, þrjár mismunandi stærðir við Kringluna. Og samt erum við á eftir öðrum þjóðum á þessu sviði.
Fremsta hjólið er með 25km/klst hámarkshraða, 250 watta mótor og til nota einkum á hjólastígum, í miðjunni er rafhlaupahjól, og aftast er rafknúið léttbifhjól sem hægt er að fá í tveimur flokkum fyrir götur og vegi, skráningar og tryggingaskylt, annars vegar með 45km/klst hámarkshraða og hins vegar með 64 km/klst hámarkshraða, drægi án hleðslu 132 km og orkueyðsla 100 krónur á 100 kílómetra, eða sem svarar 0,5 bensínlítrar á hundraðið.
Nú hægt að skrá bifhjól á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.