"Eitt líf, hvílíkt undur!"

Heitið Lífsvirðing á samtökum áhugafólks um dánaraðstoð er réttnefni.

Ljóð og lag undir heitinu "Eitt líf, hvílíkt undur!" er dæmi um afsprengi þeirrar hugsunar og vitundarvakningar í þessum efnum. Þess má geta að ljóðlínan "Ein tvö..." er í raun hið sama og að snúa orðunum við og segja "Tvö ein..."

 

EITT LÍF, HVÍLÍKT UNDUR! 

 

Eitt líf, hvílíkt undur! 

Ein sál, einstæð perla! 

Ein ást, andans tundur! 

Ein tvö: Geislar merla!

 

Ei neinn endurgerður! 

Ein ævi, sem líður! 

Einn dauði, sem verður

ein eilífð, sem bíður!

 

Hver ævi er einstakt undur; engar tvær eru eins! 

 

Ein jörð; ekki fleiri!

Ein lausn: Kærleiksvegur! 

Einn Guð; enginn meiri!

Einn! Hæst! Dásamlegur! 

 

Hver stund undur merk er

í lífshlaupi snjöllu! 

Hvert líf kraftaverk er!

Hvert líf ofar öllu! 

 

Hver sál er einstakt undur; engar tvær eru eins!  

 

Eitt líf, hvílíkt undur! 

Ein sál, hvílík perla! 

Ein ást, andans tundur!

Ein tvö: Geislar merla! 

 

Ei neinn endurgerður! 

Ein ævi, sem líður! 

Einn dauði, sem verður 

ein eilífð, sem bíður. 

 

Hvert líf er einstakt undur! Engin tvö eru eins! 


mbl.is Vitundarvakning um dánaraðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Sæll Ómar.

Það er og hefur aldrei verið neitt virðingarvert við dauðann.
Menn liggja í eigin saur og þvagi
og það er alltof sumt.

Að kenna líknardráp við virðingu
eru einhver verstu öfugmæli sem ég hef séð í seinni tíð.

Hitt kann að vera að sá kostur eigi að vera fyrir hendi
að menn geti stytt sér stundir með þessum hætti en mér hefur þó
skilist að oftast snúi það að aðstandendum um að taka þá ákvörðun.

Það getur verið varhugavert.

Húsari. (IP-tala skráð) 12.10.2020 kl. 11:24

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fordómafull alhæfingin um dauðann og líknaraðstoð í þessari athugasemd dæmir sig sjálf. 

Ómar Ragnarsson, 12.10.2020 kl. 13:59

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er ákaflega flókið og viðkvæmt viðfangsefni. Þarna tekst á sú skylda að viðhalda lífinu annars vegar og sú skylda að lágmarka þjáningar hins vegar. Ég hef ekki séð neina einhlíta lausn á þessari þversögn og efast um að hún sé til.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.10.2020 kl. 14:48

4 identicon

Eins og Þorsteinn segir er þetta "viðkvæmt viðfangsefni", en kannski ekki svo flókið. Að mínu mati náskylt umræðunni um fóstureyðingar. Vilji þess sem í hlut á skal vera afgerandi. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.10.2020 kl. 15:24

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, ég er nú reyndar ekki viss um að það auðveldi viðfangsefnið að líkja því við fóstureyðingar. Fóstrið, sem er sá sem í hlut á, er nefnilega ekki spurt.

En aftur að þessu: Ef vilji þess sem í hlut á er það eina sem skiptir máli væri það skylda lækna að aðstoða fólk til að deyja við hvaða aðstæður sem er. En ég efast stórlega um að nokkur læknir myndi fallast á það og ég hugsa raunar að fæst fólk almennt myndi fallast á það. Það er með öðrum orðum fleira sem skiptir máli en vilji þess sem í hlut á, það er líka ástand hans, bæði hvort og hversu miklar þjáningar hann líður, og einnig sálrænt ástand.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.10.2020 kl. 16:05

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nógu er ég gamall til að þekkja ótal dæmi um það, að læknar og hjúkrunarfólk hefur ekki átt neitt val í þeim aðstæðum, sem nútíma tækni kalla oft fram;  það hefur neyðst til að stytta lífshlaup hins þjáða með því að hætta vonlausri baráttu fyrir jarðlífi hans. 

Ómar Ragnarsson, 12.10.2020 kl. 17:15

7 identicon

Þ.S. 16:05. Auðvitað er ég að tala um vilja móðurinnar, en ekki fóstursins, sem hefur engan vilja. Móðurin, sem og hinn þjáði sem mundi vilja flýta fyrir sínum endalokum, þurfa á aðstoð að halda, vissulega. Sálfræðingar, aðstandendur etc. Hinsvegar ólíklegt að innbyggjar muni geta rætt þetta án þess að úr verði tuð og kjánaskapur. Eða í stíl við ísl.umræðu sem þessi Þorsteinn Siglaugsson presenterar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.10.2020 kl. 18:07

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nákvæmlega, eins og þú segir Ómar, þá er það ástand sjúklingsins og vilji hans sem þarna skiptir máli. Ég benti á í fyrri athugasemd að vilji sjúklingsins réði ekki einn. Ég sé að þessi Haukur Kristinsson tekur þá ábendingu óstinnt upp, sem ekki kemur á óvart enda hefur reynslan sýnt að honum hugnast ekki rökræður. Ég get lítið gert við því.

Ég hef í sjálfu sér lítinn áhuga á að fara að ræða fóstureyðingar í þessu samhengi. Mér finnst þó ekki úr vegi að benda á að nýfætt barn hefur í sjálfu sér engan vilja, neitt frekar en fóstur. Það sýnir kannski aðeins betur að viljinn er ekki það eina sem máli skiptir í þessari umræðu.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.10.2020 kl. 20:25

9 identicon

Mig grunar, Ómar,
að þú þekkir lítið til þessara mála
ef þú ætlar að virða mér þinn eigin
þekkingarskort til fordóma.

Ég vil þakka þeim Hauki og Þorsteini
fyrir athugasemdir þeirra í upphafi máls þeirra.

Húsari. (IP-tala skráð) 12.10.2020 kl. 22:55

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn skýtur Húsari úr launsátri sínu og nú á það að vera ég sem viti lítið um þessi mál. 

Ég hef fylgst náið með umræðunni og öllum frásögnum sem hér heima hafa birst, setið á fundum kunnáttufólks um þetta mál um það hvernig líknaraðstoð við deyjandi fólk eru meðhöndluð erlendis, þar sem skilyrðin fyrir líknaraðstoð eru mjög ströng og margítrekaður og eindreginn vilji hins deyjandi til þess að fá að kveðja með reisn er forsenda fyrir meðferð.  

Þegar Húsari talar niður til fólks á banabeði "liggjandi í eigin saur og þvagi" væri fróðlegt að vita hvaða augum hann lítur nýfædd börn, eins og hann sjálfur var, "liggjandi í eigin saur og þvagi. 

Ómar Ragnarsson, 12.10.2020 kl. 23:51

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að ágæt leið til að öðlast skilning á þessum málum, fyrir utan það sem þú hefur gert Ómar, sé að beita ímyndunaraflinu og setja sjálfan sig í þau spor að vera bjargarlaus og kvalinn á banabeði. Og síðan að setja sig líka í spor læknisins sem hefur svarið þess eið að halda lífi í sjúklingum sínum. Þá áttar maður sig á vandanum sem við er að etja. Og ég endurtek aðeins það sem ég hef áður sagt. Þetta er flókið mál og á því er engin einföld lausn. En fyrsta skrefið er að hefja umræðuna.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.10.2020 kl. 00:11

12 identicon

Sæll Ómar.

Skelfing fer það þér illa að leika þetta píslarvætti allt! (launsátri!!)

Þú virðist sjá sjálfan þig sem miðju allra hluta
og færð svo ærlegt frekjukast þegar svo er ekki.

Stundum trompa málefnin allt annað
og með sneiðingu (-a í sögnum fellur brott) getur þú svo myndað heiti þess manns
sem þú minnir mig stundum á en munurinn er sá að hann virðist
standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar og þolir auk þess
að hlutirnir séu nefndir sínum réttu nöfnum en þurfi ekki að pakka því inn
í bómull eða umbúðir.

Nú snýst þetta allt um þig svo þú ættir
að geta tekið gleði þína aftur!

Húsari. (IP-tala skráð) 13.10.2020 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband