Hæg en jöfn framþróun í framtíðardraumaflugi Baldurs Bjarnasen.

Enn er mörgum í minni hrifning drengjanna á sunnudagsfundi í KFUM fyrir rúmum 70 árum, þegar hann flutti okkur innblásinn fyrirlestur um framtíðarsýn sína í flugmálum. 

Baldur var flugvélstjóri hjá Loftleiðum og þannig ævintýramaður í okkar augum á þeim árum þar sem "Loftleiðaævintýrið" var í uppsiglingu. 

Tugþúsundir flugmanna í Seinni heimsstyrjöldinni voru þá komnir heim úr stríðinu og á tímabili var afar lífleg framleiðsla einkaflugvéla í gangi vestra og meðal annars kominn fram flugbíllinn Aerocar. 

Svo fór, að stórt atriði gleymdist í málinu, konurnar sem biðu ungu mannanna og gerðu það að verkum að aðal viðfangsefni þeirra varð að kvænast og eignast heimili og börn. 

Baldur Bjarnasen var einna hrifnastur af þróuninni í þyrlusmíði og spáði því að í framtíðinni yrði mikil umferð einkaþyrlna í borgum heimsins. 

Sú draumsýn rættist heldur ekki meðan Baldur lifði. Því olli margt, svo sem það hve dýrar þyrlur eru í rekstri og hve erfitt yrði að tryggja flugumferðaröryggi. 

Baldur sé eðlilega hvorki fyrir sér byltingu í tölvu- og fjarskiptatækni og þaðan af síður tilkomu rafmagns og nýrrar uppsetningar í drónum framtíðarinnar. 

Nú er hins vegar í gangi jöfn og hæg en nokkuð örugg þróun í þessum efnum á öllum helstu sviðum. 

Að vísu er aðal dragbíturinn hin mikla þyngd rafgeymanna miðað við þyngd eldsneytistgeyma, en á móti kemur furðu hröð framför í gerð rafgeyma, bæði með þróun líthíums en einnig tilkomu geyma með öðrum efnum, svosem graphene. 

Það er hins vegar afar langur vegur framundan, en þó ljóst að heillandi möguleikar opnist í flugi á styttri leiðum, einmitt á því sviði sem heillaði hinn trúaða og yndislega skemmtilega Baldurs Bjarnasen mest. 

Eins og er, gera þungir rafgeymar það að verkum að flugdrægi rafknúinna flugvéla í farþegaflugi er varla meira en 160 kílómetrar og farþegar aðeins níu í ferð. 

Tveir eiginleikar driflínu rafaflsins hafa mest að segja og vinna hvor á móti öðrum. 

Annars vegar yfirburða eiginleikar, einfaldleiki og nýtni rafhreyfla, en hins vegar hin gríðarlega þyngd rafgeymanna og viðkvæmni orkugjafanna gagnvart miklum kulda.  

 


mbl.is Fljúgandi leigubílar næsta vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband