17.10.2020 | 14:47
Gagnlegt við sóttvarnir að ímynda sér reykingar?
Það er ekki víst að fjarlægðin ein ráði úrslitum um COVID-19 smit utanhúss. Frá tímum mikilla reykinga má rifja upp, hvernig tóbaksreykur gat borist furðu langt undan vindi frá viðmælendum, jafnvel marga metra, en ekki einasta sást úðinn oft vel, til dæmis í hægri golu, heldur fannst lyktin greinilega af honum.
Veirusmitúði er hins vegar lyktarlaus og ósýnilegur. Því þarf hugsanlega að hafa fjarlægðina jafnvel marga metra ef staðið er þannig, að vindur eða gola berist í milli manna.
Í gær mætti síðuhafi hundruðum fólks á leið sinni á rafknúnu léttbifhjóli upp í Borgarfjörð.
En ferðin var skipulögð þannig, að á leiðinni var bæði verið með grímu og lokaðan hlífðarhjálm og engin þörf var að fara á bensínstöð eða í sjoppu, heldur aðeins verið með grímuna í nægri fjarlægð frá eina manninum, sem komið var nálægt við að ýta flugvél út úr skýli og inn aftur með grímur og minnst tveggja metra fjarlægð.
Við flugum síðan flugvélinni sitt í hvoru lagi í einliðaflugi tli þess að njóta blíðunnar bæði á jörðu niðri og í lofti og taka myndir af "blíðunni og bæjunum í kring," til dæmis af Hvanneyri handan við spegilsléttan Borgarfjörðinn.
Hittir fólk utandyra og er hætt að knúsa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einhversstaðar sá ég að þeir sem reyktu væru talsvert ólíklegri til að smitast. Sel það ekki dýrara en ég keypti.
Þorsteinn Siglaugsson, 17.10.2020 kl. 15:53
Sæll Ómar,
"hundruðum fólks" skrifar þú. Mér finnst þetta stinga svolítið í augun.
Mér finnst þetta ganga illa upp.
Kv, Egill
Egill Thorfinnsson (IP-tala skráð) 17.10.2020 kl. 16:22
Sæll Ómar.
Orðið hundruð er aðeins til í fleirtölu og og tekur beygingum
en orðið fólk er einungis til í eintölu en tekur beygingum.
Breytir engu þó Vestfirðingar töluð um fólkagreyið!
Sýnist þetta ósköp venjuleg eignarfalleinkunn
nema hvað orðið manna er oftar notað sem einkunn en breytir svo sem engu.
Ómar hefur alltaf rétt fyrir sér, það verður bara að sætta sig við það!
Húsari. (IP-tala skráð) 17.10.2020 kl. 17:01
Það var furðu mikil umferð um sexleytið í gær á milli Borgarness og Reykjavíkur og líka þegar farið var um eittleytið uppeftir. Þetta eru alls 140 eknir kílómetrar og þarf ekki nema tvo bíla á hvern kílómetra til þess þeir verði fleiri en tvö hundruð og fólkið í þeim enn fleira.
Hvað eftir annað voru bílarnir í röðum.
Hefði kannski átt að giska betur, en var ekkert að hafa fyrir því, enda þetta atriði ekkert stórmál.
Ómar Ragnarsson, 17.10.2020 kl. 17:03
Þetta er alveg punktur. Þetta er oft notað svona, en málfræðilega er það auðvitað ekki kórrétt. Maður ætti kannski fremur að segja "hundruðum manna".
Þorsteinn Siglaugsson, 17.10.2020 kl. 17:04
Hundruð, um hundruð, frá hundruðum til hundraða.
Svona er orðið í orðabók Sigfúsar Blöndals.
Hins vegar segja æ fleiri: Hundruðir, um hundruðir, sem er málvilla.
Í orðabók Sigfúsar ere nefnt dæmið: Fólk kom hundruðum saman.
Ómar Ragnarsson, 17.10.2020 kl. 20:37
Já, fólk kom hundruðum saman, en það er aðeins annað en hundruð fólks.
Annars eigum við ekki að vera að standa í þessu bulli, þetta skiptir engu máli.
Eitt fólk, eða mörg fólk, who cares, eins og kaninn segir.
Spurning hvað hundurinn segir um þetta ...
En svona er vitleysan
Þorsteinn Siglaugsson, 17.10.2020 kl. 23:38
Hundruðir fólks eru sannarlega mörg fólk. Maður lifandi. Eftir öll þessi skrif og öll þessi ár....
Jón Steinar Ragnarsson, 18.10.2020 kl. 18:42
Annars er sú misþyrming á hinu ágæta orði "fólk" sem fer mest í taugarnar á mér þegar notað er persónufornafnið þau um fólkið. Þetta er orðin landlæg málvilla. Maður segir það, fólkið, ekki þau, fólkið.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.10.2020 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.