18.10.2020 | 10:19
Hvernig ferðalag?
Venjulegt ferðalag þegar engin farsótt er í gangi felst oftast í því að koma á staði þar sem ferðafólk og aðrir eru í mikilli nálægð hvert við annað og snertir á sömu hlutunum, svo sem á bensínstöðvum og veitingastöðum.
Bara það eitt að fara á snyrtingu eða afgreiða sig sjálfan við að kaupa eldnseyti þýðir snertingar þar sem sprittun þarf að vera pottþétt og enginn öndunarúði í loftinu.
Það er hins vegar mögulegt að fara í stutta ferð rétt út fyrir skilgreint höfuðborgarsvæði án þess að nein smithætta sé í gangi.
Slík ferð var prófuð í fyrradag frá Reykjavík upp á Borgarnesflugvöll.
Raunar eru áhöld um það hvort Borgarnes sé ekki innan höfuðborgarsvæðisins, enda á sama atvinnusvæði og fellur því undir alþjóðlega skilgreiningu innan borgar á "Skilgreindu borgarsvæði" "SBS", "Functional urban area, - "FUA".
Farið var á rafknúnu léttbifhjóli til þess að viðhalda réttindum til að fljúga flugvél í atvinnuskyni samkvæmt kröfum þar um.
Í ferðinni var ekki einasta ferðast með lokaðan hlífðarhjálm, heldur einnig með grímu.
Stansað var þremur stöðum til myndatöku utan húss án þess að taka af sér grímu eða hjálm.
Myndirnar hér á síðunni eru afrakstur þess.
Þetta var það stutt ferð, að aldrei þurfti að fara inn á neinn stað til að létta á sér, ekki þarf að kaupa eldneyti á hinn rafknúna farkost.
Flugskýlið, sem vélin er í, er tæpa fjóra kílómetra frá Borgarnesi, á víðavangi.
Meðan flogið var, var til öryggis hlaðið lítillega á rafgeyma hjólsins inni í horni skýlisins, því hjólið hefur 132ja kílómetra drægi, en leiðin að heiman og til baka er 140 kílómetrar.
Á flugvellinum var aðeins einn maður, annar eigandi vélarinnar, og kom hvergi nálægt þessari hleðslutengingu enda rafhlöðurnar útskiptanlegar og meðfærilegar.
Og við vorum báðir með grímur auk þess að leitast við að halda svo rækilegri fjarlægð samkvæmt tveggja metra reglunni með því að ýta vélinni þannig út úr skýli, að tíu metrar voru á milli okkar, því að flugvélar eru miklu umfangsmeiri en bílar.
Neðsta myndin er tekin við flugskýlið og er horft yfir spegilsléttan Borgarfjörðinn þar sem Hvanneyri nýtur sín í síðdegissólinni og speglar sig í haffletinum.
Þetta dæmi er rakið hér til þess að varpa ljósi á það, að það er hugsanlegt við vissar aðstæður að búa svo um hnúta að smit sé útilokað.
Engin önnur ferð út fyrir höfuðborgarsvæðið er áformuð næstu tvær vikur.
Það er síðan áhugavert hvernig sumir ásaka sóttvarnaryfirvöld nú harðlega fyrir að hafa ekki slakað meira á hömlum en gert var í sumar þegar hvatt var til ferðalaga innanlands og áframhaldandi slökunar á aðgerðum fyrir erlenda ferðamenn allt fram á þennan dag.
Afleiðingin varð ný bylgja, mest vegna nýs afbrigðis utan frá, og nú erum við komin upp fyrir Spánverja og erum í hópi þeirra þjóða sem eru með langflest smit, sem þýðir einfaldlega að erlendis hefur fólk verið varað við að ferðast hingað, hvað sem við viljum.
Og í þeim löndum, þar sem smitin eru útbreiddust er ekki annað að sjá en að sóttvarnaraðgerðir séu mun strangari en hér.
Fólk haldi sig innan höfuðborgarsvæðisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.