20.10.2020 | 09:45
"Eyðist það sem af er tekið og fyllist það sem fyllt er í."
Æ skal þessu eftir tekið,
sem ógnar lífi´ef beitt er því,
að eyðist það sem af er tekið
og fyllist það, sem fyllt er í.
Þetta hefur heiminn skekið.
Hrannast upp hin myrku ský.
Þegar helstu og gjöfulustu olíulindir heims fundust og voru gerðar að helstu undirstöðu efnahagslífs jarðarbúa á síðustu öld, varð til rányrkjuhugsun í tegnslum við orkulindir, sem er yfirþyrmandi tákn stefnu sóunar, bruðls og skammgræðgi sem stefnir öllu lífi á jörðinni og þar með jarðarbúum sjálfum í mestu ógöngur mannkynssögunnar.
Um þessa stefnu gildir orðtakið að "eyðist, það sem af er tekið."
Síðuhafi minnist þess þegar maður einn bókstaflega gekk af göflunum á fundi einum um orkumál og öskraði aftur og aftur yfir salinn: "Þetta eru þúsund megavött! Þetta eru þúsund megavött! Þetta eru þúsund megavött!" þangað til hann var orðinn blár í framan.
Með þessu öskri sínu átti hann við það, hvernig þessi gríðarlega orka á svæðinu norður af Mývatni gæti staðið undir álveri á Bakka sem yrði miklu stærra en núverandi stærsta álver landsins.
Honum var vorkunn því að nýbúið var að reisa 300 megavatta gufuaflsvirkjun á Hellisheiði á svæði, sem afkastar hvergi nærri slíkri sóun til langframa.
Sem betur fór varð niðurstaðan 90 megavatta virkjun við Þeystareyki, og forstjóri Landsvirkjunar sagði í vígsluræðu, að þar væri óviturlegt að fara lengra ef menn ætluðu að viðhalda orkunni svo að hún gæti staðið undir því að vera skilgreind sem endurnýjanleg orkulind.
"Eyðist það sem af er tekið" er önnur hliðin á óseðjandi skammtímagræðgi jarðarbúa, en hin hliðin er ekki síður skuggalag, að "fyllist það sem fyllt er í."
Sú hugsun raunsæis að stöðva rányrkju og ósjálfbært neysluæði er andstæða við gamla máltækið "lengi tekur sjórinn við" sem hefur hingað til verið allsráðandi í flestu þegar kemur að hinum tröllaukna úrgangi sem verður til vegna óstöðvandi vaxtar neyslu nútímans.
Sívaxandi plasteyjar í úthöfununum og örplast, sem smýgur jafnvel inn í frumur líkama lífveranna í gervallri náttúru jarðar eru hrikaleg dæmi um afleiðingar þessarar helstefnu.
"Aðeins ein jörð.
Afglapasporin hræða.
Lögmálið grimma lemur og slær
og lætur ei að sér hæða:
Ef þú deyðir jörðina deyðir hún þig
og deyjandi mun þér blæða."
Æ skal þessu eftir tekið
sem ógnar lífi ef beitt er því,
að eyðist það sem af er tekið
og fyllist það, sem fyllt er í.
Þetta hefur heiminn skekið
er hrannast upp hin myrku ský.
En- aðeins ein jörð
samt alla mun fæða og klæða
ef um hana standa viljum vörð,
vernda´hana og líf hennar glæða;
elska þessa einu jörð;
það er ekki´um fleiri að ræða.
Aðeins ein jörð!"
S
![]() |
Vilja alþjóðasamning um plastmengun í hafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.