Eitt verst útleikna svæði landsins.

Reykjanesskagi og þar með Reykjanesfólkvangur er hugsanleg verst útleikna svæði landsins hvað varðar umhverfis- og náttúruspjöll, ekki síst vegna þess að á þessu svæði er að finna einhver fjölbreyttustu spjöllin, - það er nánast allur pakkinn, ekki bara utanvegaakstur eins og sá, sem sést á ljósmynd Styrmis Sigurðssonar. Utanvega akstur

Lúmskust eru langtímaspjöllinn af völdum aldalagrar rányrkju í formi beitar og hrístekju.  

Þegar ekin er Reykjanesbraut og horft yfir auðnina halda flestir að svona hafi þetta alltaf verið. 

En það er nú öðru nær. Á Strandarheiði, sem er nú samt ekki nema 40-50 metrar yfir sjávarmáli var stundað miskunnarlaus hrístekja allt þar til síðustu hríslurnar voru höggnar 1935. 

Jafnvel á hinu forna Seltjarnarnesi milli Skerjafjarðar og Kollafjarðar voru örnefni sem sýndu, að það hafði verið viði vaxið í öndverðu.  Um það bera vitni heitin Skólavörðuholt, Rauðarárholt, Kleppsholt, Borgarholt og Breiðholt, því að orðið holt þýddi upphaflega skógur, samanber orðið holz í þýsku. 

Landið var sem sagt viði vaxið en beitt og hoggið svo miskunnarlaust að urðin stóð loks ein eftir. Rofabarð

Á Krýsuvíkursvæðinu stóðu tugir smábýla allt fram á sextándu öld, þegar skefjalaus sauðfjárbeit og viðarhögg byrjuðu að valda uppblæstri svo að landið varð að lokum að mestu gróðurvana, líkt þvi sem sést á ljósmynd Ólafs Arnalds. 

Besti hluti myndarinnar er aldeilis ótrúlega hringlaga gat vinstra megin á torfunni, en þar hefur hringmyndaður lofthvirfill sagað þetta kringlótta gat í gegnum þykka gróðurtorfuna. 

Það versta við meðferðina á landinu frá Grindavík og austur og norður eftir skaganum var, að þarna hefur verið stunduð stórfelld sauðfjárbeit allt fram á okkar öld á landi sem var fyrir löngu orðið óbeitarhæft. 

Ævinlega hefur eldgosum með öskufalli og kólnandi veðri verið kennt um, en ekkert gos eða öskufall hefur verið þarna í bráðum 800 ár. Raunverulegum orsökum hefur verið snúið á hvolf, því að þetta land sem að mestu liggur fyrir neðan 200 metra hæðarlínu, hefði alveg þolað kaldara veður ef ekki hefði verið vegna aðalorsakarinnar, að gróðrinum var gert ómögulegt að þola hinar minnstu veðursveiflur. 

Á okkar tímum hefur síðan stórfelldur utanvegaakstur og torfæruhjólaakstur bæst við, að ekki sé nú talað um risa gufuaflsvirkjanir með tilheyrandi háspennulínum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum, gufuleiðslsum og virkjana- og línuvegum í svo ágengri orkuöflun, að virkjanirnar fela i sér rányrkju sem endar að lokum með orkuþurrð.  

 


mbl.is Fann djúp för eftir utanvegaakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband