Búið að liggja fyrir í 60 ár: Glötuð hugmynd, kennd við Hvassahraun.

1. Fyrir 64 árum lýsti þáverandi flugmálastjóri, Agnar Koefoe-Hansen, því í viðtali í Morgunblaðinu hvernig tiltölulega lítil breyting á Reykjavíkurflugvelli gæti gert hann að fullkomnum og miklu betri velli á alla lund með því að lengja austur-vesturbrautina til vesturs. 

Þar með ykist fjölhæfni vallarins mjög en þó væri mest um vert, að megin flugumferðin myndi færast yfir á þessa braut, þannig að flug yfir Kvosina og Kársnesi myndi minnka um meira en helming. 

2.  Á þeim tíma var sama hugmyndin viðruð og núna að gera flugvöll í Kapelluhrauni, á sama hraunflákanum og núna er talað um að Hvassahraunsflugvöllur eigi að koma.   

Flugmálastjóri gerði eina tilraun til að kanna aðflug og fráflug frá þessu flugvallarstæði, þegar þar væri algengasta vindáttin, aust-suðaustan og algengustu hvassviðrisáttirnar.  

Hann bauð flugráði með í stuttan flugtúr, flugtak á Reykjavíkurflugvelli, aðflug að hrauninu og fráflug frá því og lendingu í Reykjavík. 

Eftir flug í gegnum alla ókyrrðina í þessari algengustu vindátt á hraunflákanum góða, þegar vindur stendur ofan af 6-800 metra háum fjallgarði skammt frá, kláruðu flugráðsmenn ælupoka vélarinnar og ekki var minnst meira á flugvöll suður af Straumsvík fyrr en flestir þeirra voru látnir og annað fólk komið í staðinn við að skoða og taka ákvarðanir um Hvassahraunsflugvöll. 

3.  Við þetta bætist að Hvassahraunsflugvöllur myndi verða á sama veðursvæði og Keflavíkurflugvöllur, en Reykjavíkurflugvöllur er á öðru og miklu skaplegra veðursvæði í sunnan- og austanáttum, sem nýtur góðs af því að Reykjanesfjallgarðurinn hreinsar þoku og úrkomu og býr til skaplegt flugveður í verstu vindáttunum úr suðaustri og austri.   

4.  Við þetta bætist þar á ofan, sem vitað hefur verið allan tímann, að flugvallarstæðið á Almenningum er aðeins nokkra kílómetra frá eldstöðvum og jarðskjálftasvæði og stendur raunar á svæði sem er markað af hraunflæmum frá eldgosahrinum allt fram til 1240, sem hafa sent hraun í sjó fram allt frá Grindavík norður til Elliðavogs í Reykjavík. 

Eldstöðin Stapafell er einnig aðeins fáa kilómetra frá Keflavíkurflugvelli. 

5.  Eftir um 800 ára hlé er orðið rétt að vera viðbúinn eldgosum á Reykjanesskaga, sem gætu staðið í nokkrar aldir. 

Að öllu framansögðu er jafn morgunljóst og það hefur alltaf verið, að það er jafn fráleitt og fyrir meira en 60 árum að ætla sér að leggja niður þann flugvöll landsins sem er á besta stað og eyða hundruðum milljarða í glataða framkvæmd.  


mbl.is Tilefni til að endurskoða Hvassahraunsflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held að það sé einnig tilefni til að endurskoða Egilsstaði og Akureyri sem varaflugvelli fyrir KEF og skoða betur aðstæður við Húsavíkurflugvöll.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.10.2020 kl. 23:09

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sumir jarðfræðingar hafa meiri áhyggjur og telja meiri líkur á því að risastór skjálfti upp á meira en sjö stig geti riðið yfir nokkra kílómetra frá Húsavíkurflugvelli heldur en að svo stór skjálfti sé jafn líklegur hér fyrir sunnan.   

Ómar Ragnarsson, 24.10.2020 kl. 00:40

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þarna eru komin alveg næg rök til að hafna flugvelli í Hvassahrauni.

------------------------------------------------------------------------

Hefur þú kynnt þér kosti flugvallar-stæðisins á Lönguskerjum?

Gæti hérn verið komin lausn sem að allir deilu-aðilar gætu sameinast um?

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1033918/

Jón Þórhallsson, 24.10.2020 kl. 10:17

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rögnunefndin sló réttilega af bæði flugvöll á Lönguskerjum og á Hólmsheiði. 

Ef menn telja það svona ofboðslega brýnt að reisa íbúðabyggðir á lægstu slóðum í borgarlandi Reykjavíkur mætti alveg eins reisa slíka byggð á Lönguskerjum. 

Sú framkvæmd hefur þann kost, að... 1.  aðeins er framkvæmt eitt atriði, að reisa nýja íbúðabyggð...

...í stað þess að framkvæma þrjú atriði: 

1. að rífa flugvöll og mannvirki hans

2. að reisa íbúðabyggð á svæðinu og..  3. reisa flugvöll á Lönguskerjum. 

Fjögur sveitarfélög eiga land að Skerjafirði og Lönguskerjaflugvöllur snertir þau öll. 

Sjávarstaða fer hækkandi og land sígur á öllu þessu svæði. Í hvössum vestlægum áttum á háflóði skellur óskert úthafsaldan á skerjunum með tilheyrandi saltroki, sem er eitur fyrir flugvélar. Ég hafði flugvélar í gegnum tíðina bæði í skýli 3 og 1 á vellinum, og saltmengun var mun meiri í því skýli sem var nær sjónum.   

Ómar Ragnarsson, 24.10.2020 kl. 12:26

5 identicon

En Ragna sagði..

GB (IP-tala skráð) 24.10.2020 kl. 12:26

6 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hvað heldur þú að það sé langt í að flugvélar fari að nota vistvænt eldsneyti eins og rafmagn eða vetni og að þær geti tekið á loft beint upp eins og þyrlur og síðan flogið eins og flugvélar; þó að það væri ekki nema bara innanlands;

eins og Ari Trausti var að tala um nú nýlega inni á þingi?

Jón Þórhallsson, 24.10.2020 kl. 14:09

7 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Frábær samantekt hjá þér og svo sönn.

Því miður virðist Dags-klíkan ekki skilja þetta.

Sigurður Kristján Hjaltested, 24.10.2020 kl. 15:31

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrir viku var endursýnt í sjónvarpi viðtal mitt frá árinu 1986 við þáverandi borgarstjóra í Reykjavík, en á þeim tíma var rætt um að það væri stutt í að loftför, sem tækju sig lóðrétt á loft og lentu, væru að koma til skjalanna. 

Einnig um vélar, sem þyrftu miklu styttri brautir en þá var. 

1995 sýndi ég stórar þyrlur á flugsýningunni í París sem hófu sig á loft með risastórum spöðum, sem síðan var smám saman snúið þannig að þeir knúðu þessi loftför sem fengu að hluta til lyftikraft frá vængstubbum. 

Þá héldu margir því fram að þessi tækni væri að taka við. Síðan eru 25 ár og ekkert bólar á þessari byltingu.  Síðan 1986 eru liðin 34 ár og enda þótt skrúfuþotur eins og Dash 7 virtust lofa góðu, voru þær einfaldlegar of dýrar í rekstri vegna þess að enn hefur ekki funnist neitt hagkvæmara til að skila fólki sem ódýrast og hraðast á milli staða en flugvélar sem eyða lágmarksorku til þess, og enn hefur ekki fundist neitt sem gefur af sér þá orku en fastur vængur sem er knúinn af sem sparneytnustum hreyfli. 

Eins og er er hugsanlegt að hægt sé að fljúga rafknúnum níu sæta flugvélum allt að 160 kílómetra vegalengd, en þrátt fyrir afar mikla rekstrarhagkvæmni rafhreyfla, er það helsta hindrunin að eldsneytisgeymir er 8 til 10 sinnum léttari heldur en rafgeymir með sömu orku. 

Til þess að komast sem þægilegast og hraðast á lengri vegalengdum þar að komast hátt upp. Það mikla klifur kostar svo mikla orku, að það þyrfti að tífalda afköst rafgeyma til þess. 

Sú tækni er ekki í augsýn. Í stað styttri brauta eins og talað hefur verið um í hálfa öld, nota nýjustu og hagkvæmustu flugvélarnar þvert á móti lengri brautir en áður. 

Ómar Ragnarsson, 24.10.2020 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband