Vítaspyrnan í úrslitaleik Íslandsmótsins 1955.

"Hann hugðist þrykkja´onum beint í netið en þess í stað þá stefndi hann

upp í stúkuna og sleikti menntamálaráðherrann..."

 

Svona var ímyndaðri vítaspyrnu Jóa útherja á lokamínútu úrslitaleiks lýst í samnefndu lagi fyrir hálfri öld og miðað við aðstæður hefur þurft eitthvert kraftaverk til að taka hana á þennan hátt. 

En þó var það ekki fjarri lagi, því að í úrslitaleik Íslandsmótsins 1955 ef rétt er munað einhver fyndnasta og jafnframt ömurlegasta vítaspyrna íslenskrar knattspyrnusögu.  

Það var stíf norðanátt og Gunnar Guðmannsson, framherji í KR átti að taka vítaspyrnu á móti vindinum, en í markin stóð besti markvörður hér á landi á þeim tíma; landsliðsmarkvörðurinn Helgi Daníelsson.  

Nunni, eins og Gunnar var kallaður hljóp að boltanum og ætlaði að þruma honum í netið hægra megin við Helga, en þá vildi ekki betur til en svo, að hann sparkaði óvart í jörðina, svo að sandurinn (Melavöllurinn var malarvöllur) þyrlaðist upp og boltinn lak af stað í áttina að horninu vinstra megin við Helga.

En Helgi hafði reiknað dæmið rétt miðað við það sem Nunni ætlaði upphaflega að gera og kastaði sér glæsilega yfir í hornið hægra megin á meðan boltinn lak áfram í hitt hornið. 

Það versta var þó eftir, því að vindurinn á móti var það sterkur að þar sem Helgi lá í röngu horni, horfði hann á boltann rétt leka rólega yfir línuna og fjúka síðan til baka út úr markinu.   

Það var óskaplega fyndið að horfa á þessi mistök beggja, en þó var hinum snjalla markverði áreiðanlega ekki hlátur í huga. 


mbl.is Mörkin: Ein versta vítaspyrna sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband