Slæm lýsing líklega verst. Líka oddhvöss handföng eða innstungur niðri við gólf.

Í barnæsku brenndi ég mig illa á fingri við að fikta í innstungu, sem var niðri við gólf. 

Á eldri árum er óþægilegt að bogra niður undir gólf við að stinga í samband. Notagildi á að hafa forgang yfir útlit á nytjahlutum, sem notaðir eru á hverjum degi. 

Á baðherbergjum er skortur á réttu ljósi til þæginda við rakstur, hárgreiðslu og fleira einn helsti ókosturinn. 

Þegar staðið er í skugganum af ljósi, sést illa til, og ef maður færir sig nógu langt frá speglinum til að ljósið nýtist, er það orðið daufara og vegalengdin hamlar því að nóg vel sjáist til. 

Neyðarlegast þegar þannig er gengið frá hönnun í íbúðablokkum að þegar paufast hefur verið við að reyna að raka sig sæmilega við vaskinn, hrekkur maður við þegar komið er inn í lyftuna, þar sem góð lýsing og stór spegill koma óþyrmilega upp um "helgidaga" í rakstrinum og misheppnaðan verknað með rakvélina. DSC00897

Áður hefur verið fjallað hér á síðunni um handföngin á skúffum og skápahurðum sem eru þannig hönnuð, að það er eins og þau hafi verið sérstaklega gerð til að rífa föt á fólki og beinbrjóta það.

Í stað þess að hafa handföngin eins og hálfa sporöskju í laginu, líkt og sýnt er á neðri myndinni, eru þau höfð þráðbein þannig að endar þeirra eru líkir hvössum oddum (efri myndin). 

Þetta er einhver bannsett tíska sem snýst um útlitið en gerir notadrjúgan hlut að skaðræðisfyrirbæri. DSC00896

Í hverri íbúð geta verið allt að 30 svona handföng, sem bíða eftir því að skemma föt og meiða og beinbrjóta fólk. 

Svona handföng skipta líklega milljónum hér á landi og milljörðum á heimsvísu. 

Dæmi er atvik fyrir nokkrum árum þegar kona handarbrotnaði við að klæða sig úr kjól og reka hönd í hankann, svo að handarbein brotnaði. 

Síðan er það alveg saga sér á parti hvernig miskunnarlaust tískufyrirbrigði gerir venjulegu fólki ókleyft að sitja þægilega, en það er hvernig hönnun stóla og sófa er þannig, að á setunni er alltof langt frá frambrún inn að lóðrétta bakinu. 

Þetta má ekki vera meira en 50 sm, því annars er engin leið að fá réttan stuðning frá baki stólsins eða sófans við mjóhrygg þess, sem situr. 

Ömurlegast er að sjá hve víða eru illa hannaðir og óþægilegir stólar á heilsugæslustofnunum.  


mbl.is Verstu hönnunarmistökin á baðherberginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir þetta atvik hjá þér í den var fundin upp óvitalæsing eða svokölluð barnalæsing á allar innstungur.wink

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 9.11.2020 kl. 14:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki vissi ég það og hef hvergi séð slíkt. 

Ómar Ragnarsson, 9.11.2020 kl. 17:38

3 identicon

Barnalæsingar á innstungur eru normið í dag og felast í því að engu er hægt að stinga í innstunguna nema stungið sé í bæði götin í senn og með sama þrýstingi. Athugaðu bara hvort þú getur stungið skrúfjárni í tenglana heima hjá þér núna.

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 10.11.2020 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband