4.12.2020 | 09:57
Svo hillir líka undir miklu minni rafbíla.
Víða um lönd eru álíka umræður og skoðanaskipti um fararmáta í borgum og er hér á landi.
Þar er nú verið að brydda betur upp á millistigi á milli almenningssamgöngutækja eins og Borgarlínu og strætisvagna og hinna fullstóru einkabíls, sem áfram er eftirspurn eftir en taka mikið rými í gatnakerfinu.
Þetta millistig er fólgið í litlum tveggja sæta rafbílum, sem einkum eru ætlaðir til nota í þrengslum borga og eru flestir það litlir, að hægt er að leggja tveimur til þremur þversum í núverandi bílastæði.
Sumir þeirra eru því innan við 2,5 metrar á lengd og allt niður í 1,25 m breiðir.
Sá nýjasti er Citroen Ami, sem er 2,4 x 1,4 m og þannig byggður að hann er alveg eins á báðum hliðum og með alveg eins framenda og afturenda að frátöldum lit á ljósum, sem eru rauð að aftan en hvít að framan.
Þetta er gert til þess að hægt sé að bjóða þennan bíl á verði allt niður í 6000 evrur, sem samsvarar um milljón krónum hér á landi. Samt verði full þægindi og hiti í þessum örbílum.
Sams konar hurðir eru báðum megin á bílnum, og því opnast dyrnar farþegamegin á hefðbundinn hátt, en dyrnar bílstjóramegin "öfugt" eins og tíðkaðist á tímabili á fjórða áratug síðustu aldar.
Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd.
Hámarkshraðinn er 45 km á klst og í Frakklandi mega 14 unglingar aka slíkum bílum, en 16 ára í flestum öðrum Evrópulöndum. Beygjuhringurinn er sá knappasti í flotanum, 7,2 m í þvermál og þyngd bílsins aðeins um 500 kíló, enda eru rafhlöðurnar aðeins 6 kwst, sem gefur um 50 km drægni. Rafaflið er um 9 hestöfl sem skilar bílnum þó á 5 sek upp í 45 km hraða.
Drægnin ætti að vera næg, því að meðalvegalengd sem einkabílum er ekið í borgarumferð er rúmlega 30 km á dag.
Aðeins tekur 3,5 stundir að fullhlaða bílinn á venjulegu heimilisrafmagni, en því miður sýnist ekki vera gert ráð fyrir útskiptanlegum rafhlöðum, sem hins vegar verða aðalsmerki hins nýja SEAT Minimo, sem Volkswagenverksmiðjurnar hafa verið með á prjónunum og er kannski snjallasta lausnin.
Í þeim bíl situr farþeginn þétt aftan við bílstjórann, en sú tilhögun fær fram bestu rýmisnýtinguna og minnstu loftmótstöðuna.
En á móti kemur að það tekur tíma að fá fólk til að sættast við þessa tilhögun og því eru Ami og Tazzari eins konar millistig sem tryggir það, að þeir tveir sem eru um borð verði varla varir við það hve bíllinn er smár af því að það fer nákvæmlega eins um þá og ef þeir sætu frammi í í fernra dyra bíl.
Nægt rými er fyrir tvo og farangur í Citroen Ami og bæði fram- og afturendi bjóða upp á hönnun með ágætri árekstravörn, sem alveg vantar á hinn annars stórskemmtilega Microlino, af því að tærnar á fótum þeirra tveggja sem sitja í framenda Microlino, eru þétt upp við þröskuld dyranna, sem eru að framan og tryggja hámarknýtingu stæðis, sem bílnum væri lagt þversum í upp við gangstéttarbrún.
Frést hefur að Kia verksmmiðjurnar séu að huga að svipuðum bíl og Citroen Ami, sjá mynd, sem verður sett hér neðst á síðuna.
Fyrir á markaðnum hafa verið Renault Twizy og Tazzari Zero sem eru með 80 og 90 km hámarkshraða og Tazzari Zero með 100 km drægni, og hér á síðunnni hefur áður verið sagt frá Microlino sem stutt gæti verið í að fari í framleiðslu.
Tveir Tazzari Zero bílar, sem hér sjást saman, eru hér á landi.
Verð á bílum hefur þegar lækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.