11.12.2020 | 09:11
Búið að fórna mörgum stórfossum og fleiri eru á aftökulista.
Búið er að fórna mörgum stórfossum Íslands vegna virkjana og margir eru á lista yfir þá, sem virkja þyrfti.
Meðal þeirra er Töfrafoss í Kringilsá, sem var stærsti fossinn á hálendinu norðan Vatnajökluls.
Þótt það kæmi fram í mati á umhverfisáhrifum að þessi vatnsmikli 30 metra hái foss í Kringilsá færi undir Hálslón og að gljúfrið við hann myndi þar að auki fyllast upp af auri á öldinni, var því haldið að ferðafólki á þessum slóðum að fossinum yrði ekki sökkt.
Hið sanna kom í ljós við tilkomu Hálslóns, sem nær nokkra kílómetra upp fyrir fossinn.
Og strax á öðru ári eftir myndun lónsins var hið 150 metra djúpa gljúfur Kringilsár orðið hálffullt af auri og tveir kraftmiklir fossar fyrir neðan Töfrafoss þegar sokknir í aur um alla framtíð.
Fossinn sést í nokkrar vikur í sumarbyrjun þegar þarna er ólíft vegna aurfoks á mestu góðviðrisdögunum á þeim tíma og land, sem áður var gróið með þykkumm jarðvegi er sandi orpið sem endurnýjar sig á hverju sumri, alls um 15 milljjónir tonna af nýju seti á hverju sumri.
Í Jökulsá á Fljótsdal voru tveir stórfossar á hæð við Gullfoss virkjaðir, Kirkjufoss og Faxi, auk tuga annarra fagurra fossa í þeirri á og Kelduá.
Á teikniborðinu eru sjálfur Dettifoss ásamt Selfossi og fleiri fossum í Jökulsá á Fjöllum, en sú virkjun er ekki kennd við fossana, heldur nefnist hún Helmingsvirkjun eftir litlu vatni með því nafni, sem myndi verða stækkað með nokkurra kílómetra langri stíflu.
Þess ber að geta, að enda þótt sumum af þessum virkjanaáformum hafi verið frestað, dúkka mörg þeirra, eins og Bjallavirkjun og Norðlingaölduveita aftur og aftur upp.
Nafni Norðliingaölduveitu var breytt í Kjalölduveitu, en í raun er með henni verið að taka vatn af þremur af stórfossum íslands, tveir þeirra á stærð við Gullfoss, Gljúfurleitarfoss og Dynkur.
Við gerð sjónvarpsþátta um þessi áform var uppgefið að svonefnd Kvíslaveita fyrir ofan þessa fossa myndi aðeins skerða þá um 15 prósent.
Þegar veitan var komin í núverandi stærð, varð sú tala hins vegar 40 prósent, og sú mikla skerðing bitnar sérstaklega á flottasta stórfossi Íslands, Dynk, sem er mestallt sumarið eins og svipur hjá sjón, líkt og Samson hinn sterki í Biblíunnni eftir að hann var sviptur hárinu.
Í varnarbaráttu fyrir íslenska fossa er nú reynt að friða þá helstu, en á sínum tíma lýstu tveir virkjanaráðherrar yfir því að friðanir hefðu ekkert gildi; þeim yrði aflétt eftir þörfum.
Það var gert með Kárahnjúkavirkjun. Friðun Kringilsárrana var einfaldlega aflétt.
Fossar á tólf svæðum fái aukna vernd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.