Ótrúleg yfirsjón Íslendinga í flóðavörnum.

"Skriðuföll og snjóflóð" hét bók ein sem kom út fyrir rúmlega hálfri öld. Afar fróðleg bók og stundum gluggað í hana til þess að sjá hvar væri hætta á þessu fyrirbæri og hvar ekki.  

Einhvern tíma komst sá kvittur á kreik að bókin hefði af þessum sökum verið auglýst svona: "Skriðuföll og snjóflóð inn á hvert heimili!"  

Þá óraði engan fyrir því hve óviðeigandi þessi húmor var og áratugum saman var það viðkvæði þegar spurt var um skriðuhættu á hinum ýmsu svæðum að enga sögur færu af slíku. 

Á Patreksfirði féll aurskriða á hús í kringum 1950 og voru viðbrögðin  einföld og æðrulaus. 

Íbúar hússins og nánustu vinir og vandamenn mokuðu einfaldlaga aur og grjót út úr kjallaranum og af lóðinni.  

Þegar snjóflóðumm og skriðuföllum fór að fjölga eftir 1970 var einfaldast að fletta upp í bókinni um fyrirbærið og kannski einhverjum annálum, og yfirleitt kom í ljós að ekki væri hætta á ferðum, því að ekki væru heimildir um flóð á viðkomandi slóðum.  

Síðan komu stóru flóðin á Seljalandsdal 1994, Súðavík og Flateyri 1995 og flóð í Bolungarvík þar á eftir og loks tók þjóðin almennilega við sér. 

Og þá komu mistökin í mati á þessari hættu í ljós:  Á þessum stöðum, sem flóðin féllu, voru ekki dæmi um mannskaða fyrr á tíð einfaldlega vegna þess að á þeim var ekki komin byggð. 

Það hafði enginn farist á fyrri tíð, af þvi að það var yfirleitt enginn á þessum nýju hættusvæðum þá.  

Þegar lesin var lýsing í jarðabók Árna Magnússonar kom að vísu í ljós að hætta væri á því fé færist í flóðum á jðrðinni Súðavík. En sauðfé er ekki fólk og því hringdi þetta engum bjöllum. 

Þegar litið var um öxl í lok síðustu aldar blasti við sú ótrúlega yfirsjón okkar Íslendinga að hafa ekki áttað sig fyrr á þessum grundvallaratriðum. 

"Það er oft erfitt að verða vitur eftir á" segir máltækið.  

Sem dæmi mætti nefna, að ef Ingólfur Arnarson hefði einhvern tíman gengið á Úlfarsfell og síðar gengið á Esjuna í góðu veðri með afbragðs skyggni hefði hann séð það greinilega, að við sjávarmál sá hann aðeins efri hluta Snæfellsjökuls, á Úlfarsfelli jökulinn næstum allan og á Esju allan jökulinn, frá strönd upp á topp. 

Eina skýringin á þessu hlaut að vera sú að það væri bunga á Faxaflóanum. En í huga fólks þá var það svo óhugsandi að jörðin væri hnöttótt og því bunga á hefinu, að enginn leiddi að því hugann, sem þó blasti við. 

Eftir nýtt snjóflóð á Flateyri í fyrravetur hrukku menn við og í ljós kom að áætlun um varnir víða um land hafði verið stórlega vanrækt. 

Nú er enn dauðans alvara á ferð, í þetta sinn á Seyðisfirði. 

Þá er hollt að hafa í huga, að snjóflóðið mannskæða á Patreksfirði 1983 var hvorki hreint snjóflóð né aurflóð, heldur blanda af þessu tvennu,, krapaflóð.   

Síðuhafi man vel eftir skriðuföllunum miklu á Norðurlandi sumarið 1954. 

Þá stíflaðist á í gili fyrir ofan bæinn af skriðu, sem féll ofan í gilið og stíflaði farveg árinnar. 

Að lokum brast stíflan og mikið aurflóð ruddist yfir hluta af gróðurlendinu fyrir neðan og olli tjóni.  Sama hafði gerst í enn meiri mæli 1933 og eyðilagt stöðvarhús fyrir litla virkjun. 

Norskur snjóflóðafræðingur svaraði spurningu um snjóflóð svona árið 1994: 

"Þar sem getur snjóað og landi hallar, þar getur orðið snjóflóð." 

Árið eftir féll snjóflóð á Blönduósi. Ég endurtek: Blönduósi. 

Við þetta mætti bæta: Þar sem á fellur um hallandi land, þar getur myndast stífla og komið flóð þegar hún brestur.  


mbl.is Neyðarstig – Seyðisfjörður rýmdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Við hefðum ekki efni á neinum vörnum ef við hefðum ekki fullveldi, virkjanir, stóriðju og sjávarútveg Ómar minn.

Það er ekki hægt að hafa mjöl í munni og blása samtímis.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 18.12.2020 kl. 19:36

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Eitthvað til í því.

En við búum í landi þar sem í dag er hugur hjá þeim sem sjá á eftir byggð sinni í aur og drullu stórrigningarinnar, og það eru að falla hús sem eiga sér yfir hundrað ára sögu.

Í Víkinni minni fallegu féll skriða rétt fyrir utan Ímastaði rétt fyrir áramótin 2014, nokkrum vikum seinna féll stærri skriða niður Vaðlahjallann sem er í utanverðum Reyðarfirði, milli Krossanes og Karlsskála, frægur fyrir brotlendingu þýsku sprengiflugvélarinnar 1941.

Þessar skriður hefðu eytt öllu lífi fyrir neðan sig, og báðar áttu það sammerkt að falla efst út tindum, þar sem engin ummerki voru um skriðuföll af þessari stærðargræðu, og þá er átt við ummerki frá síðustu ísöld.

Sem gefur að skilja nafni þá er ekki til skráðar heimildir um skriðuföll frá því fyrir ísöld, eða yfir höfuð skriður sem hafa fallið fyrir landnám.  Hins vegar geymir jarðsagan vitnisburð sem vert er að hafa í huga.

Það falla skriður úr fjöllum, vissulega, en það gýs líka á brotabelti Atlantshafshryggsins, sérstaklega núna þegar jöklar hörfa og land rís. 

Svo er það jarðskjálftarnir, vindar og stormar. 

Náttúran mætti á Seyðisfjörð og lét vita af sér, hún mætti líka í fyrir sunnan þegar það gaus í Eyjafjallajökli, núbúin að minna á sig með öðru gos, sem og enn öðru gosi þegar brýrnar á Skeiðarársandi hurfu í beljandann.  Við vitum af Kötlu, við vitum af Öræfajökli.

Skýrslur, skýrslur hefta ekki hennar gang.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.12.2020 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband