Var 14 prósentum landsins skellt í lás 2008 og landsmenn reknir í burtu?

Það er skrýtið að á 21. öldinni, þegar búist hafði verið við því hún yrði öld upplýsingar í krafti byltingar í samskiptum, virðist upplýst umræða hafa beðið mikinn hnekki. 

Dæmi um það eru hin hrikalegu stóryrði sem kastað er fram sem staðreyndum í þeirri herferð gegn hálendisþjóðgarði, sem nú er í gangi. 

Þar er nú staðhæft að með stofnun slíks þjóðgarðs sé þriðjungi landsins skellt í lás af valdafíknum valdsmönnum í Reykjavík og landsmenn; útivistarfólk, bændur, hestamenn, jeppamenn reknir út og beitt til þess lokunum, sektum og ofbeldi. 

Nú er það svo að af þessum umrædda hálendisþjóðgarði hefur tæpur helmingur þegar verið þjóðgarður í tólf ár, frá árinu 2008. 

Enginn þessara háværu manna hinna miklu stóryrða virðist hirða neitt um reynsluna af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í júní 2008. 

Vatnajökulsþjóðgarður er rúmlega 14 þúsund ferkílómetrar og þar af er tæpur helmingur auð jörð á sumrin en jökullinn sjálfur um 8 þúsund ferkílómetrar. 

Og þá mætti ætla að eftir tólf ára rekstur þessa þjóðgarðs væri búið að koma því í verk að innleiða þar harðstjórn valdafíkinna manna í Reykjavík, skella öllu í lás, reka útivistarfólk, bændur og búalið, hestamenn, jeppamenn, já, og nánast landsmenn og alþýðu alla út af landi Vatnajökulsþjóðgarðs með valdbeitingu og sektum. 

En upphlaupið núna er að vísu ekki einsdæmi. 

Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir orðaði sem ferðamálaráðherra hugmynd um gjald fyrir aðgang að helstu náttúruverðmætum landsins, var hafinn svipaður söngur og nú um að með slíku væri verið að "niðurlægja og auðmýkja" landsmenn.  

Í allri herferðinni 2014 var ekki að sjá að þeir sem harðast gengu fram gegn þjóðgörðum hefðu haft fyrir því að kynna sér þjóðgarða og virkjanir erlendis hjá þjóðum sem hafa margra áratuga reynslu á því sviði. 

Má þar til dæmis nefna Bandaríkjamenn, sem hafa 136 ára gamla reynslu, og á aðgangskortinu þar í landi standa þessi orð: "Proud partner." "Stoltur styrktaraðili" - í landi frelsisins - ekki "auðmýktur og niðurlægður." 

Sagt er að frumvarpi um þjóðgarðinn sé "laumað inn" á sama tima og hann er fyrstur á dagskrá af stærstu málum ríkisstjórnarinnar og hefur verið í stanslausu ferli í þrjú ár.

Ef umræðan verður áfram á svona plani verða það vonbrigði miðað við þær glæstu vonir um upplýsta umræðu á 21. öldinni sem vöknuðu í aldarbyrjun. 

 

 

 


mbl.is Tekist á um hinn „grenjandi minnihluta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Því hefur verið haldið fram að tilgangurinn með þjóðgarðinum sé að koma í veg fyrir að virkjað sé. Það er nú svo að við stöndum það vel í orkumálum að við þurfum ekki gas, olíu  eða kjarnorku til rafmagnsframleiðslu og hitunar. En öfgaumhverfissinnar gera allt til að við getum lengur nýtt okkur þessa sérstöðu meðal þjóða.Þetta er náttúrulega óskiljanleg afstaða. Andstaða mín gegn þjóðgarðinum er einmitt vegna þessa. Umhverfissinnar hafa gegnum tíðina ekki virt nein mörk lýðræðisins heldur farið fram með yfirgangi, frekju og skemmdarverkastarfsemi. Ég og fleiri óttast og ekki af ástæðuleysu að verið sé færa völdin til þessa fólks.Því hefur verið haldið fram af þessu fólki að búið sé að virkja nóg fyrir komandi kynslóðir. Fjarstæða. Fólkinu í landinu er að fjölga. Þegar fjöldinn er kominn í 450000 þá segir það sig sjálft það þarf meiri orku fyrir þann fjölda en 350000 eins og er í dag. Ofan á þetta koma orkuskiptin og þá þarf meiri orku. Það er alveg sama þó þú hlaðir bílinn heima hjá þér á nóttunni. Það þarf alltaf meiri orku. Svo ef ekki má virkja meira í framtíðinni hvernig sérðu það þá fyrir þér við getum brugðist við meiri notkun? Ég satt að segja sé ekkert fyrir mér í því en að leita til annarra orkugjafa, olíu eða gass til að brúa bilið. Er ekki náttúruverndin komin í öndverðu sína?

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 19.12.2020 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband