30.12.2020 | 13:52
Fáfræði, misskilningur og ranghugmyndir meðal andstæðinga þjóðgarða.
Á nýja árinu verður Vatnajökulsþjóðgarður þrettán ára og á bláu línunni á meðfylgjandi korti má sjá hvernig hann liggur á austanverðu hálendinu. Þúsundir ferkílómetrar af landi utan jökulsins eru þegar innan marka þessa þjoðgarðs.
Nú er í ráði að stækka þjóðgarðinn og þá bregður svo við að harðir andstæðingar þess tala um valdagírugir skriffinnar í Reykjavík muni ræna þriðjungi Íslands af þjóðinni, "skella þriðjungi landsins í lás", "reka bændur, útivistafólk og almenning burt af eigin landi".
Þessi gífuryrði eru ekki studd neinum rökum né gögnum um að þau lýsi eðli þjóðgarða.
Ekki eru nefnd dæmi um það hvernig því landi, sem er innan vébanda Vatnajökulsþjóðgarðs, sjöttungi Íslands hafi síðastliðin tólf ár verið "rænt af þjóðinni" með því að "skella í lás" og bændur, útivistarfólk og almenningur hafi verið rekin burt af eigin landi."
Þegar farið er í þjóðgarða og friðuð svæði í þeim löndum í okkar heimshluta, sem eru með líkastar aðstæður og hér eru; og málefni þeirra, aðdragandi að stofnun þeirra og reynsla af rekstri þeirra skoðaður, í Noregi, Finnlandi, Kanada, Bandaríkjunum í allt að 140 ár; sést vel hve fjarri öllu lagi sá málflutningur er, sem nú ríður húsum hér.
Þeir virðast hafa hæst gegn þjóðgarðinum sem minnst hafa kynnt sér þessi mál.
Öðruvísi verður ekki hægt að útskýra þá fordóma og fáfræði sem skína í gegn hjá þeim hörðustu í aðförinni gegn hálendisþjóðgarðinum.
400 milljónir til náttúruverndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það hefur samt gengið brösuglega að leiðrétta þessa fáfræði, misskilning og hugaróra. Til að að leiðrétta þessa fáfræði, misskilning og hugaróra ætti að vera nóg að vitna í stjórnarfrumvarpið um þessa nýju ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra. Fullyrðingar um hvernið lögin verði túlkuð og þeim beitt í framtíðinni virðast ekki sannfæra þennan hóp. Trúin, vonin og draumurinn um að þó samkvæmt laganna hljóman sé eiginlega verið að "skella þriðjungi landsins í lás" og ætla valdagírugum skriffinnum í Reykjavík, með alræðisvald og eignarnámsheimild langt útfyrir þjóðgarðinn, að ákveða framhaldið þá verði túlkunin og framkvæmdin önnur og alger draumur í dós hefur ekki róað marga. Menn hafa jafnvel ekki skipt um skoðun þegar bent er á útlönd og sagt að okkar skriffinnar hljóti að gera eins. Hvers vegna á sumt fólk svona erfitt með að trúa því að þó skriffinnarnir megi og geti þá muni þeir ekki?
Vagn (IP-tala skráð) 30.12.2020 kl. 21:09
"Okkar skriffinnar muni gera eins og þeir í útlöndum"? Nú væri gaman að heyra einhver dæmi um ofríki skriffinnanna í erlendum þjóðgörðum. Þótt ekki væri bara vegna þess að í ferðum mínum um 30 þjóðgarða og friðuð svæði mörgum löndum Evrópu og Norður-Ameríku sá ég ekki dæmi um þetta í þeim.
Ég varð til dæmis hvergi var við þau viðbrögð ferðafólks í þjóðgörðunum að það væri beitt ofríki eða að það þyrfti að "þola auðmýkingu og niðurlægingu" á þeim stöðum þar sem seldur var aðgangur að náttúruperlum.
En orðin "auðmýking og niðurlæging" var ofarlega í huga íslenskra andstæðinga þjóðgarða og aðgerðum í náttúruvernd fyrir sex árum þegar slíkt var á dagskrá.
Í öllum þjóðgörðunum erlendis veifaði ferðafólk hins vegar aðgangskortum, sem á voru rituð einkunnarorðin "Proud partner".
Ómar Ragnarsson, 30.12.2020 kl. 21:31
Prufaðu að lesa alla setninguna, "Menn hafa jafnvel ekki skipt um skoðun þegar bent er á útlönd og sagt að okkar skriffinnar hljóti að gera eins.". Semsagt að benda á góða erlenda skriffinna sannfærði menn ekki um að okkar skriffinnar væru góðir eða mundu gera eins.
En ef skriffinnar, innlendir eða erlendir, gerast sekir um yfirgang, valdníðslu og ofríki þá er það varla auglýst á plakötum fyrir túristana. Sama er að segja um alla andstöðu, hún fær ekki pláss í auglýsingapésum fyrir ferðamenn. Margir erlendir ferðamenn eru mjög hrifnir af því hvað Íslendingar eru samtaka og sammála í öllum málum.
Þó túristar hafi veifað aðgangskortum sem á voru rituð einkunnarorðin "Proud partner" þá efast ég um að afkomendur Indíánanna sem þaðan voru hraktir í burt hafi verið í þeim hópi. Og ég sé ekki fyrir mér að gleði andstæðinga hálendisþjóðgarðs verði mikil þó okkar ráðherra láti útbúa aðgangskort með slagorðum sem Kínverskir túristar geta brosandi veifað.
Heldur þú að okkar skriffinnar geri ætíð eins og skriffinnar í útlöndum? Ert þú þeirrar skoðunar að stjórnarfrumvarpið um þessa nýju ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra sé að öllu leiti eins og þau lög sem gilda um þjóðgarða erlendis? Getur þú lofað að það vald sem ráðherra er gefið til að stækka þjóðgarðinn, taka jarðir eignarnámi, ógilda ákvarðanir stjórna þjóðgarðarins og víkja mönnum úr stjórn verði ekki misnotað?
Eins gott mál og hálendisþjóðgarður gæti verið þá er frumvarpið algert klúður. Þar er rauði þráðurinn að allt vald sé á einni hendi. Kjörnir fulltrúar, Alþingi og sveitarstjórnir, ráða engu um það hver stjórnar og hvað er gert.
Athugaðu það að það er heldur ekkert sem heftir vald ráðherra til að leyfa byggingu risastíflu og virkjunar, vindmillugarða og háspennumastra. Og ráðherrar eru ekki kosnir. Þú hefur ekkert að segja um hver verður ráðherra. Hörður Arnarson gæti þess vegna orðið sá sem mestu ræður í hálendisþjóðgarðinum eftir næstu kosningar. Og eins og þú veist þá byggir öll andstaða á fáfræði, misskilningi og hugarórum.
Vagn (IP-tala skráð) 31.12.2020 kl. 01:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.