9.1.2021 | 14:55
Hvernig væri að nefna dæmi, sem styðja gífuryrðin gegn þjóðgörðum?
Gífuryrðum um þjóðgarða almennt linnir ekki um þessar mundir, þegar rætt er um að stækka Vatnajökulsþjóðgarð og læra af öðrum þjóðumm varðandi fyrirkomulag þjóðgarðamála.
Erlendar þjóðir hafa allt að 140 ára reynslu af þjóðgörðum og í landi einkaframtaksins, Bandaríkjunum, hefur myndast ákveðin samræming á skilgreiningum fyrirkomulags þeirra mála undir kjörorðinu "For the benefit and joy of the people".
En hér á landi, nú síðast í dag, er fullyrt að í þjóðgörðunum felist ofbeldisaðför að fólki og að þeir, sem vinna að þessum málum hér á landi hati fólk en elski valdníðslu og kúgun.
Þótt komin séu tólf ár síðan Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður er fullyrt að með stækkun hans verði farið í herför gegn þjóðinni á vegum valdaþyrsta alræðisseggja í Reykjavík og útivistarfólk á borð við göngufólk, jeppamenn, hestamenn, bændur og almenning allan verði hrakið burt og úthýst af eigin landi; það verði "skellt í lás."
Síðuhafi hóf fyrir 22 árum að kynna sér þessi mál að fara um og skoða 30 þjóðgarða í Kanada, Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi, Portúgal og Spáni auk skoðunar 18 virkjanasvæða í þessum löndum.
Í Bandaríkjunum er hægt að kaupa sér aðgang að öllum þjóðgörðum innan vébanda Þjóðgarðastofnunar þess ríkis með aðgangskorti gegn afar hóflegu gjaldi, þar sem á stendur: "Proud Partner."
Í þessum ferðum hefur verið rætt við hundruð fólks án þess að hægt hafi verið að merkja neitt annað en ánægju og stolt yfir því að fá að vera þátttakandi í starfrækslu þjóðgarðanna og varðveislu sameiginlegra náttúruverðmæta Bandaríkjamanna.
Einkar ánægjulegt var að kynnast norsku þjóðgörðunum Jóstedalsjökulsþjóðgarði, Harðangursheiðarþjóðgarði og Rondane þjóðgarði, en þar má sjá mjög athyglisverðar hliðstæður við íslenskar aðstæður og ekki síður að kynnast áhugaverðum og almennum sjónarmið varðandi mat á aðstæðum og fyrirkomulagi og gildi þessara náttúruverðmæta.
Hér á landi er hins vegar fjasað um "auðmýkingu og niðurlægingu" sem fólk verði fyrir í þjóðgörðum hér og erlendis og fimbulfambað um það hve mikið ofríkið sé og valdníðslan í erlendum þjóðgörðum.
Hvernig væri að nefna eitthvert dæmi um eitthvað sem styðji þessi gífuryrði?
Ákvörðun um verndun náttúrunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég held að það sé nóg til af ríkisstofnunum hérlendis og rúmlega það.
Vatnajökulsþjóðgarður við Klapparstíg, 101 Reykjavík er ósýnilegasti þjóðgarður landsins, nema í Skaftafelli, en þangað er ég hættur að koma. Ástæðan er sú að þar eru ekki lengur tjaldstæði, heldur bílastæði á grasi og staðurinn er yfirfullur af allskyns fyrirtækjum sem selja fólki hitt og þetta.
Sagt var að Kristur hafi rekið víxlarana úr musterinu og velt borðum þeirra, en víxlararnir lifa góðu lífi í gamla Skaftafellsþjóðgarði.
Þórhallur Pálsson, 9.1.2021 kl. 15:15
Er ekki nærtækast að líta til núverandi vatnajökulsþjóðgarðs í stað erlendra fyrirmynda, Ómar. Fyrir stofnun þess þjóðgarðs var talað um það að reynslan utanlands frá væri að þjóðgarðar skiluðu því margfalt til baka sem sett væri í þá peningalega. Nú er ríkið ennþá að dæla pening í þennan þjóðgarð og enginn ávinningur sjáanlegur. Kannski kemur hann fram eftir 100 ár, hver veit. Og verið er að hamla atvinnuuppbyggingu samkvæmt nýlegri grein. Þegar litið er síðan til Rammaáætlunar sem samþykkt var 2015 er einungis einn virkjunarkostur í stöðunni varðandi fallvatnsvirkjanir eftir að Hvalárvirkjun hefur verið hafnað( Stækkun blönduvirkunar). Svolítið athyglisvert að búið var að samþykkja Hvalárvirkjun sem síðan var snúið við.Allir aðrir kostir sem hugsanlega væru í stöðunni hafa verið settir í friðun.Það væri að sjálfsögðu kjörið að fara í virkjanir í vor vegna atvinnuástandsins en það er að sjálfsögðu borin von. Þetta eru nú afrek " náttúruverndarsinna" Eins og Guðni Jóhannesson fráfarandi orkumálastjóri benti á í grein nýverið horfir þetta til stórra vandræða og vill hann endurskoðun á þessari rammaáætlun. Ef fer fram sem horfir verður orkuskortur á landinu . Það eru að vísu virkjunarkostir með jarðvarma en Það er sótt hatrammlega að þeim virkjunarkostum. Eins er sótt að hugmyndum um vindmyllugörðum sem ég reyndar tel versta kostinn þar sem vindorkan skilar mjög litlu. Ég er ekki bjartsýnn með orkuskiptin sem menn eru að tala um. Frekari fjölgun þjóðarinnar er í raun útilokuð við þessar aðstæður og ég spái því að unga fólkið muni flykkjast úr landi næstu áratugi í leit að betra lífi. Við lifum það kannski ekki, Ómar , ég kominn á sjötugsaldurinn og þú helmingi eldri en eftir einhver 50-60 ár lita erlendir ríkisborgarar eflaust til íslands sem ósnertar náttúruperlu þar sem einu sinni bjó fólk
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 9.1.2021 kl. 18:16
Þetta er ekki stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þetta er nýr þjóðgarður með nýjum lögum. Lögum sem eru ekki eins og lögin um Vatnajökulsþjóðgarð og sennilega ekki eins og lög um þjóðgarða erlendis.
En ef skriffinnar, innlendir eða erlendir, gerast sekir um yfirgang, valdníðslu og ofríki þá er það varla auglýst á plakötum og í auglýsingabæklingum fyrir túristana. Þó túristar hafi veifað aðgangskortum sem á voru rituð einkunnarorðin "Proud partner" þá efast ég um að afkomendur Indíánanna sem þaðan voru hraktir í burt hafi verið í þeim hópi. Og ég sé ekki fyrir mér að gleði andstæðinga hálendisþjóðgarðs verði mikil þó okkar ráðherra láti útbúa aðgangskort með slagorðum sem Kínverskir túristar geta brosandi veifað.
Heldur þú að okkar skriffinnar geri ætíð eins og skriffinnar í útlöndum? Ert þú þeirrar skoðunar að stjórnarfrumvarpið um þessa nýju ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra sé að öllu leiti eins og þau lög sem gilda um þjóðgarða erlendis? Getur þú lofað að það vald sem ráðherra er gefið til að stækka þjóðgarðinn, taka jarðir eignarnámi, ógilda ákvarðanir stjórna þjóðgarðarins og víkja mönnum úr stjórn verði ekki misnotað?
Eins gott mál og hálendisþjóðgarður gæti verið þá er frumvarpið algert klúður. Þar er rauði þráðurinn að allt vald sé á einni hendi. Kjörnir fulltrúar, Alþingi og sveitarstjórnir, ráða engu um það hver stjórnar og hvað er gert. Endanlegt og algert vald liggur hjá ráðherra.
Athugaðu það að það er heldur ekkert sem heftir vald ráðherra til að leyfa byggingu risastíflu og virkjunar, vindmillugarða og háspennumastra. Og ráðherrar eru ekki kosnir. Þú hefur ekkert að segja um hver verður ráðherra. Hörður Arnarson gæti þess vegna orðið sá sem mestu ræður í hálendisþjóðgarðinum eftir næstu kosningar. Þá gagnast lítið að andmæla. Því eins og þú segir á öðrum stað þá byggir öll andstaða á fáfræði, misskilningi og hugarórum.
Vagn (IP-tala skráð) 9.1.2021 kl. 20:20
Sífellt er talað um "orkuskort" sem vofi yfir vegna virkjanaleysis og að það þurfi að "bjarga" íslenskum heimilum og fyrirtækjum frá skortinum. Em íslensk fyrirtæki og heimili fá innan við 20 prósent af orkunni og meira en 80 prósent er eyrnamerkt stóriðjufyrirtækjum í erlendri eigu.
Alcoa er með orkusamning sem tryggir því að það muni aldrei þurfa að borga krónu í tekjuskatt, sama hver gróðinn er.
Síðan er þrástagast á því að rafvæðing bílaflotans muni þurfa 600 megavött eða sem svarar Kárahnjúkavirkjun þegar hið rétta er að tala er nærri 100 megavöttum.
Ómar Ragnarsson, 9.1.2021 kl. 22:02
Það er einnig sífellt talað um skort á fiskinum okkar í sjónum þó við borðum ekki nema eitthvað prósentubrot af veiddum fiski en hitt fari í einhverja útlendinga. Útlendinga sem borga ekki krónu í skatta hér á landi.
Menntun þúsund barna, laun hundrað lækna, hærri ellilífeyrir fyrir aldraða og heimili fyrir heimilislausa eru falin í hverju fljóti sem rennur óvirkjað til sjávar.
Og rafvæðing bílaflotans getur tafist ef miða á við að bannað verði að hlaða nema á vissum tímum og vissa daga þannig að ekki komi til orkuskorts þegar of margir stinga í samband. Hafnarfjörður má ekki verða rafmagnslaus alla virka daga milli 17 og 20 vegna þess að allir Breiðhyltingar eru að koma heim og stinga í samband.
Noti ein lítil heimahleðslustöð 3kw á klst í hleðslu þurfa 200.000 að stinga í hleðslu á sama tíma til að álagið verði 600 megavött eins og Kárahnjúkavirkjun er að framleiða. En algeng stærð heimahleðslustöðva er frá 7,5kw til 22kw og þá þurfa 80.000 eða 27.000 að stinga í hleðslu á sama tíma til að álagið verði 600 megavött. Í lok árs 2019 voru fólksbílar á Íslandi um 270.000. En nóg rafnagn fyrir þann fjölda rafbíla ef notkun er jafn mikil sumar og vetur, dag og nótt. Vandræði ef margt fólk stingur í hleðslu seinnipart sunnudags eftir ferðir helgarinnar.
Vagn (IP-tala skráð) 10.1.2021 kl. 00:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.