"Hundskastu aftast í röðina!"

"Notaðu helvítis hjólastíginn!" er ekki nýlunda í eyrum síðuhafa. Eftir að hann hóf að nota nett rafknúið léttbifhjól sem aðalfarartæki og getur vel fylgt umferð á götum með 50 - 60 km hámarkshraða hafa einstaka ökumenn bifreiða skipt skapi yfir veru hjólsins á götunni og sýnt það á áberandi hátt.  

Einn þeirra skrúfaði niður rúðuna hjá sér þar við biðum við umferðarljós og jós úr skálum reiði sinnar. Ekki dugði neitt að benda honum á að hjólið væri með skráningarnúmer sem sýndi, að það mætti alls ekki nota það á hjólastígum, heldur eingöngu á götum og vegum. 

Annar brást þannig við að snarauka hraðann þegar hann kom dólandi í humátt á eftir hjólinu og þeyta bílflautuna ákaflega þegar hann lét bílinn strjúkast fram úr hjólinu í stefnu þvert fyrir það.  

Hann varð að stoppa á næstu umferðarljósum, og varð enn reiðari þegar hjólið kom fram hjá honum á hárréttum tíma þegar græna ljósið kviknaði og hann var allt í einu orðinn á eftir hjólinu að nýju og fannst hann verða að spyrna allt í botn til að rífa sig af stað. 

Enn lék hann sama leik með flautunni og allt í botni við að fara fram úr, en á næstu ljósum endurtók sig sama sagan. 

Eftir fjórðu ljósin var niðurstaðan sú að hann hafði ekki grætt einn einasta metra í hamagangnum á þriggja kílómetra kafla á sama tíma og hjólið leið ljúflega áfram á löglegum hraða allan tímann og var komið lengra. 

Annar ökumaður öskraði "hundskastu aftast í röðina!" út um gluggann þegar hjól og bíll stóðu hlið við hlið við umferðarljós. "Þar átt þú að vera, helvítið þitt!" 

Það var eins og að skvetta vatni á gæs að reyna að útskýra fyrir honum að með því að nota hjólið væri verið að losa um eitt autt stæði í röðinni fyrir bíl. 

Setningin "ef ég væri á bílnum mínum, væri ég núna á honum þar sem þú ert. Hjólið býr til stæði fyrir einn bíl" reitti hann enn meira til reiði. 

Sem betur fer eru ofangreind dæmi undantekningar og svörin jafnvel: "Þú segir nokkuð, ég hafði ekki hugsað það frá þessum sjónarhóli." 

Enda verða Íslendingar vitni að því í þungri umferð erlendis hvernig notkun hjólanna er víða forsenda þess að umferðin, með blöndu af bílum og hjólum, fari ekki í endanlegan hnút. 

Í Brussel er til dæmis stór ferhyrndur reitur fremst við flest umferðarljós, sem er eingöngu ætlaður fyrir bifhjól.  


mbl.is „Notið helvítis hjólreiðastíginn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband