15.1.2021 | 18:54
Íslensk fjölmiðlun hefur ekki náð sér eftir hrunárin.
Neikvæð áhrif bankabólunnar 2002-2008 og Hrunsins í framhaldinu voru mikil á íslenska fjölmiðlun sem hefur aldrei náð sér síðan.
Frá 2002 til 2008 var í gangi ákveðin atgervisflótti vegna þess að öflugustu viðskiptafyrirtækin sem í eindæma tilbúinni uppsveiflu lokkuðu til sín álitlegasta fjölmiðlafólkið, og oft á tíðum það fólk, sem hafði sérhæft sig eitthvað í viðskiptamálum.
Í Hruninu tók ekki betra við vegna miskunnarlausra uppsagna af völdum fjármálakreppunnar.
Þá var freistingin oft sú að segja þeim upp, sem öflugastir voru og komnir á gott kaup og ráða í staðinn ungt og tiltölulega óreynt fólk, sem sætti sig við mun lægri laun.
Dæmi voru um að þetta væri misráðið í þá veru að nýju starfskraftarnir gátu hvorki afkastað sama magni né heldur jafn vönduðu og þeir sem reknir voru, þannig að jafnvel tveir fyrir einn dugði ekki. Dæmi eru um að jafnvel þrír dugðu ekki fyrir einn.
Í kófinu og allri sprengingunni í því yfirgengiega magni af rusli, sem mokað er út á svonefndum samfélagsmiðlum hefur aldrei verið eins mikil þörf á vandaðri blaðamennsku og nú, og sjaldan jafn erfitt að viðhalda gæðum.
Áfall fyrir íslenska samfélagsumræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú skrifar af reynslu eftir að hafa starfað við fjölmiðlun lengi og ég held að þetta sé alveg rétt hjá þér. En hnignun í blaðamennsku og fjölmiðlagæðum á sér sennilega fleiri orsakir en Hrunið og aðdraganda þess. Ég vil tengja þetta við breytingu á menningunni almennt. Yngra fólk hlustar á gamla tónlist, og popp frá Bítlatímanum er orðið eiginlega sígilt, meðan ungir tónlistarmenn eins og Bríet skara framúr, því hún er melódísk meðan fæstir ungir tónlistarmenn eru það aðrir. Hvað veldur? Björgvin Halldórsson sagði um sér yngra fólk að það væri miklu betur menntað en fólk var á hans aldri, en mér finnst það ekki segja alla söguna. Það er vissulega rétt að menntun er ekkert vandamál hjá tvítugu fólki hvort sem það er á fjölmiðlum eða í öðrum geirum, en lífsreynsla, þroski, persónulegur stíll og að fara eftir grunnreglum eins og að láta eigin viðhorf ekki lita fréttirnar, það er vandamálið.
Lífsreynsluheimurinn er svo allt öðruvísi hjá þessu fólk um tvítugt og þar undir. Ég átti afabróðir sem kenndi mér sjálfsaga og sjálfsgagnrýni. Flestir af ungu kynslóðinni fara á mis við þannig uppeldisaðferðir, býst ég við. Börnin eru kostuð í allskonar nám, en þau spyrja sig ekki spurninga, þau reka sig ekki á þversagnirnar í veruleikanum. Þá kemur þroskinn ekki.
Algengt er nú til dags að fréttir séu soðnar saman úr erlendum fréttum. Samfélagsmiðlarnir eru notaðir sem viðmið, það sem fær athygli þar ratar oft inní fréttatímana eða dagblöðin. Þetta skekkir auðvitað myndina. Persónulegar skoðanir eru taldar gildar, slíkt átti að forðast áður.
Það er margt gott og vont við samfélagsmiðlana. Við erum eins og í villta vestrinu, offramboðið veldur því að neytandinn verður daufur gagnvart upplýsingum og skoðunum, þreyta gerir vart við sig. Staðreyndir eru dregnar í efa, um allt er efazt eiginlega.
Tímarnir eru bara svo rosalega breyttir. Ég ólst upp við að hlusta á Rás 1 heima hjá ömmu og afa. Þar heyrði maður fagmennskuna á hverjum degi. Ekkert fór út í loftið nema það væri frekar hlutlaust og vandað. Nútíminn er ein stór óreiða.
Það var fróðlegt að horfa á endursýnt viðtal við Jón Múla Árnason í RÚV fyrir nokkrum dögum, hann lýsti hvernig andinn var þegar hann byrjaði að vinna hjá útvarpinu. Honum var treyst 100% og hann reis undir traustinu með því að vanda sig, og öðlaðist reynslu með tímanum, en lærði einnig af samstarfsfólki sínu.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir þetta unga fólk að vaxa, dafna og þroskast í starfi, skapa persónulegan stíl og fá reynslu, því hver og einn einstaklingur fær minna vægi.
Ég er ekki viss um að vönduð fréttamennska eigi afturkvæmt, nema menningin breytist öll, að í staðinn fyrir að taka á móti magninu af upplýsingum verði farið að einblína á gæðin.
Vandræðin hjá Stöð 2 stafa ekki bara af RÚV á auglýsingamarkaði heldur hvernig innlendir aðilar auglýsa á erlendu samfélagsmiðlunum.
Ég held að menntamálaráðherra núverandi verði að gera eitthvað í þeim málum. Þá vaknar ákveðið vandamál. Ef löndin fara að búa til hamlandi reglugerðir um auglýsingar sínar á vefmiðlunum fara að heyrast raddir um að þau líkist Kína, en þannig er nú þetta, eins og að vernda íslenzka landbúnaðinn, það kallar á gagnrýni líka.
Nei, í raun og veru er þetta líka lífsspursmál fyrir íslenzkuna og okkar þjóðmenningu. Ef við ýkjum þessa þróun gætu öll dagblöð lagzt af, sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar, og Íslendingar gætu farið að nota enskuna eina og sækja allar upplýsingar af netinu. Nei, það gengur ekki.
Þessvegna þarf í alvöru að hefja umræður um reglur um auglýsingar á erlendu vefmiðlunum, sem taka tekjur frá okkar fjölmiðlum.
Ingólfur Sigurðsson, 15.1.2021 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.