25.1.2021 | 01:30
Búbbi og Ásgeir, snilldartilþrif sem aldrei gleymast.
Nú er hann fallinn frá, blessaður, knattspyrnusnillingurinn Jóhannes Eðvaldsson, sem skóp svo mörg ógleymanleg augnablik á ferli sínum sem ber að þakka og lúta höfði í virðingu.
Austur-Þjóðverjar voru eina þjóðin sem vann heimsmeistarana Vestur-Þjóðverja á HM í knattspyrnu 1974 og enginn átti von á því að íslenska landsliðið byði upp á þá veislu, sem var á boðstólum á Laugardalsvellinum árið eftir og það í Evrópukeppni.
Hjólhestaspyrna Jóhannesar var bara eitt af mörgum snilldartilþrifunum sem hann sýndi í landsleikjum.
Í landsleik við Norðmmenn, ef rétt er munað, bjuggu hann og Ásgeir Sigurvinsson til ógleymanlegt mark, þegar Ásgeir sendi eina af sínum heimsfrægu þrumusendingum af eigin vallarhelmingi á ská yfir í teig andstæðinganna, þar sem Jóhannes stökk rétt enn einu sinni höfði hærra en allir aðrir og skallaði boltann í netið.
Í myndbandinu sem fylgir tengdri frétt á mbl.is er hægt að mæla sérstaklega með marki Ásgeirs Sigurvinssonar sem sýnir muninn á frábærum knattspyrnumanni og algerum snillingi.
Afar löng og há sending berst fram völlinn og Ásgeir tekur langan og ofurhraðan sprett til að ná til boltans og skjóta honum þegar hann kemur niður úr fluginu.
Ef hægt er á myndinni eða atvikið skoðað aftur sést, að þegar boltinn er enn á fluginu aftan að Ásgeiri, styttir hann örlitið tvö skref í bruninu án þess að hægja á sér og stillir þannig atrennuna á fullri ferð að boltanum, að hann smellhittir hann og skorar óverjandi mark.
Síðar í leiknum gerist svipað hjá öðrum frábærum Íslendingi, Elmari Geirssyni, en þótt íðilsnjall og afar sprettharður sé, tekst honum ekki að stilla skreflengdina á sama hátt og afburðasnillingurinn á undan honum og missir boltann frá sér.
Nú eru þeir báðir horfnir af velli, bræðurnir Atli og Jóhannes. Enn er í minni þegar Atli kom fyrst inn á í leik í Íslandsmótinu, aðeins 17 ára gamall og skoraði í fyrstu snertingu glæsilegt mark af löngu færi.
Takk, bræður, takk.
Hjólhestaspyrna Jóhannesar gegn Austur-Þjóðverjum (myndskeið) | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 01:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.