30.1.2021 | 14:05
Krapaflóð geta orðið mannskæð.
Hugtakið krapaflóð nær yfir afar fjölbreyttar gerðir af flóðum bæði í ám og á snjóþungu landi.
Snjóflóðið mannskæða á Patreksfirði 1983 kom í stórrigningu eftir gríðarlega snjósöfnun efst í byggðinni og ofan við hana.
Þar myndaði vatnssöfnunin í bland við snjófargið mikla krapastíflu sem brast og þrumaði fram í sjó fram og þreif með sér hvað sem fyrir varð, meðal annars hús og fólk.
Önnur tegund af krapaflóðum verða til á björtum og hlýjum morgnun síðsumars eftir að bráðnun íss og snævar á jöklum hefur stöðvast yfir bjarta nótt, svo að yfirborð jökulsins hefur harðnað við það að lofthitinn féll niður fyrir frostmark vegna hæðar yfir sjó á þeim tíma þegar sólar naut ekki.
Í ágúst 1985 horfði síðuhafi úr flugvél, sem lent hafði verið á freranum skömmu áður uppi á Bárðarbungu áður en hann breyttist í krapasvelg eftir sólaruppkomu, hvernig bylgja af bráðnandi krapa óð niður Rjúpnabrekkukvísl alla leið niður í Skjálfandafljót.
Svipað fyrirbæri grandaði þremur mönnum á leið yfir Rjúpnabrekkukvísl tveimur árum fyrr þegar þeir óku út i hana án þess að átta sig á því að hún var að breytast á augabragði úr sakleysilegri sprænu í skaðræðisfljót.
Í myrkri og snjókomu febrúarmorgun einn 1993 lenti sá sem þetta skrifar í viðsjárverðum og ófyrirséðum aðstæðum af völdum krapaflóðs kvöldið á undan við einbreiða brú á Fjarðarhornsá.
Falskur ís brast undan öðru framhjólinu í spóli þannig að bíllinn valt rólega á hvolf og hálffylltist af ísköldu vatni.
Það varð til lífsbjargar að fjórir ljóskastarar á grind uppi á þakinu lýstu í árvatninu fyrir algera tilviljun og hægt var að finna leið út um aðrar dyrnar.
Krapaflóð hafa alla tíð og munu áfram valda því á ísa köldu landi að fólk lendir í hremmingum og lífsháska.
Og banvænt eðli þeirra er mest af svipuðum toga og við aurflóð, skriðuföll og snjóflóð, að fjölbreytileiki aðstæðna og eðlis fyrirbærisins er oft stórlega blekkjandi.
Á myndinni má sjá þessa vinalegu, litlu og meinleysislegu á að haustlagi. En harðsvíraðir umhleypingar að vetri til breyttu henni í skaðræðisfyrirbæri febrúarnóttina 1993.
Frá því og slysinu í Rjúpnabrekkukvísl er nánar sagt í bókinni "Ljósið yfir landinu".
Vatnshæðin fór yfir þröskuldinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.