12.2.2021 | 16:29
Rétt hjá Covell varðandi aðlögun að breytingum.
Með aðvörunarorðum Simons Cowells varðandi það að fara ekki of geyst í byrjun á rafmagnsfarartækjum snertir hann við því atriði að vanda vel til undirbúnings og gefa sér sem bestan tíma til að ná tökum á nýrri tækni og öðlast færni í henni.
Þetta á við í öllum möguleikum til notkunar samgöngutækja, allt frá rafhlaupahjólum upp í flugvélar.
Síðuhafi var reiðhjólafrík frá 9-19 ára aldurs og getað gert ótrúlegar kúnstir á reiðhjóli, gengið vel á stuttu reiðhjólatímabili 1968-1970 og virst geta gert gamlar listhjólakúnstir í stuttri keppni við slíkt á tíunda áratugnum.
Þegar síðan hófst nýr og samfelldur hjólaferill 2015, sem hefur staðið síðan, byrjuðu undarlegir og óútskýranlegir atburðir að eiga sér stað, raunar stórfurðulegir.
Fyrstu vikurnar datt ég alls sex sinnum á hjólinu án þess að geta útskýrt af hverju.
Það var ekki fyrr en eftir sjöttu byltuna sem ástæðan kom í ljós:
Ég var ómeðvitað í mjög lúmskum áhættuhópi þegar ég hóf að hjóla á rafreiðhjólinu Náttfara, sem er með rafhjálp í gegnum hægri hönd á stýrinu og pedala fyrir fæturna.
Flugmenn með langa og mikla reynslu eru fyrir löngu búnir að ávinna sér sjálfvirk viðbrögð á bensíngjöfinni ef eitthvað óvænt kemur upp á, og við það að athuga það nánar, kom í ljós að rétt viðbrögð á bensíngjöf flugvélar til að hægja á henni og minnka aflið, felst í því að kippa handarbakinu til baka, og er fyrir löngu orðin áunnin hreyfing.
Þetta viðbragð er hins vegar kolrangt á vélknúnu hjóli; það að snúa hnúunum og höndinni aftur á bak voru kolröng á aflgjöf rafhjólsins, því að við þessa hreyfingu er hjólinu gefið afl.
Í öllum byltunum hafði þetta gerst, til dæmis við að bregðast við of miklum hraða í beygju eða víkja sér undan hindrun, að í stað þess að slá af, var gefið hraustlega í!
Niðurstaðan varð að fara gætilegar og æfa sig á plani við að venja sig á réttu viðbrögðin.
Fljótlega hvarf þetta snarlega og engin bylta af þessu tagi hefur orðið á alls 20 þúsund kílómetrum á tvíhjólum síðan 2015.
Áhyggur af því að röng viðbrögð í stjórn flugvéla kynnu að þróast, reyndust óþarfar, enda hefur löng reynsla af flugi margra mjög ólíkra flugvéla með mismunandi stjórntæki sýnt, að ef nógu mikið og meðvitað er flogið, verða viðbrögðin rétt.
Við tilkomu rafbíls til einkanotkunar skapaðist síðar ekki síður athyglisvert fyrirbæri, sem þarfnast það mikils rýmis í frásögn, að best er að láta geyma það í bili og láta ofangreint atriði á bifhjólum nægja.
Simon Cowell óþekkjanlegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þörf ábending.
Þegar ég ræddi eitt sinn við vin minn sem átti þá alvöru mótorhjól!
um hræðslu mín við hversu berskjaldaðir bifhjólaökumenn væru gagnvart bílaökumönnunum þá benti hann mér á tölfræðina
Flest bilhjólaslysin eru einmenningsslys og meirihlutinn var talin vegna vanmats á hröðunarhæfni bifhjólsins en það gæti vel verið tengt úlliðishreyfingunni
Grímur Kjartansson, 12.2.2021 kl. 17:49
2016 gúglaði ég áhættuna af því að gerast bifhjólamaður og niðurstöðurnar voru sláandi.
1. Tvöfalt fleiri banaslys á bifhjólum en á bílum.
2. 50 prósent banaslysa á hjólunum var vegna ölvunar, þrefalt fleiri en á bílum.
3. Langflest banaslys þess utan á hjólunum var vegna skorts á hlífðarhjálmum.
4. Næst þar á eftir voru ökklabrot, ónóg kunnátta og réttindi og gleymska á aðalreglu bifhjólamannsins að gera ráð fyrir að vera ósýnilegur í augum annarra í umferðinni.
Að öllu athuguðu nægði lagfæring á þessum atriðum, svo sem vélhjólastígvél með ökklavörn, hnjáhlífar og vélhjólahanskar með vörn til þess að áhættan væri svipuð á bifhjólum og bílum.
Ómar Ragnarsson, 12.2.2021 kl. 19:50
Í hvora áttina togar maður throttluna ef maður vill ekki stolla Skymaster?
Halldór Jónsson, 12.2.2021 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.