14.2.2021 | 23:03
Að sigla í góðu veðri um Færeysku sundin er alveg einstakt!
Norðurslóðir við Atlantshafið búa yfir stórum svæðum með alveg einstaklega tignarlegu og íðilfögru fjarðalandslagi. Þrjú lönd eru oftast nefnd varðandi þetta, Grænland með sína næstum óendalega lögu fjarðarstrandir bæði vesturströndinni og austurströndinni, Ísland með Vestfirði og Austfirði og siðan Noreg með þvílíkt fjarðalandslag, að það er í sérflokki í veröldinni.
Yfirleitt gleymist fjórða landið, Færeyjar. Háloftamynd Þráins Hafsteinssonar flugstjóra af eyjunum í tæru veðri sýnir vel þetta einstaka landslag með öllum sínum löngu og mjóu sundum á milli þverhníptra fjalla á báðar hendur.
Síðuhafi átti þess kost sumarið 1955 þegar það rigndi stanslaust heima allt sumarið, að vera aðeins fjórtán ára gamall farþegi á skipinu Dronning Alexandrine frá Reykjavík til Kaupmannahafnar og aftur til baka sex vikum síðar, og vera svo einstaklega heppinn að það var heiðskírt veður og logn í Færeyjum í bæði skiptin.
Siglt var á útleið til Klakksvíkur, sem er ljósum prýdd á myndinni, síðan þaðan til Þórshafnar um þessi stórkostlegu sund, og að lokum komið við í Trangisvogi á Suðurey.
Þetta var svo ógleymanleg og einstök upplifun og opinberun, og ekki síður að stíga færeyskan dans heila sumarnótt á heimleiðinni, að slikt gerist bara einu sinni á ævinni.
Fyrir bragðið er varla þorandi að reyna þetta aftur nema þá að fljúga í gegnum sundin á lítilli flugvél í svona veðri.
Á flugi yfir Færeyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.