10.3.2021 | 23:43
Gosinu verður helst að ljúka áður en því verður gefið nafn.
Nafngiftir gosa hafa yfirleitt verið látnar bíða þar til séð var fyrir endann á því.
Gosið í Holuhrauni 2014-2015 var nokkurn veginn í sögu gígaröð og gaus í rétt fyrir 1800 og fékk þá heitið Holuhraun. Það var jafn eðlilegt að nefna það sama nafni og eldgíganna sem það gaus í að nýju, rétt eins og Heklugosin 2000, 1991, 1980, 1970, 1947 og 1845 voru öll nefnd eftir fjallinu, sem þau brutust út í.
Í gosinu 1970 gaus í gígum í neðst í norðvesturhliðum fjallsins, sem hétu Skjólkvíar en það gos var ævinlega skoðað sem hluta af Heklugosinu.
Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi 2010 mátti líta á það sem upphaf og aðdraganda að gosinu í Eyjafjallajökli, en enda þótt gígunum tveimur á hálsinum væru gefin nöfn er heiti gossins Fimmvörðuhalsgos eða einfaldlega gosið á Fimmvörðuhálsi.
Ný eldstöð milli Bárðarbungu og Grímsvatna 1996 vafðist ekki lengi fyrir mönnum, Bryndís Brandsdóttir jarðfræðingur kom með hið stórgóða nafn Gjálp með tilvísun í sögunni af för Þórs til Geirröðargarða og þetta snjallasta eldfjallaörnefni landsins var gulltryggt vegna hamfaraflóðsins sem gosið olli.
Nokkrar tillögur komu fram um nafnið á neðansjávargósinu suðvestur af Vestmannaeyjum 1963, en höggvið var á þann hnút með heitinu Surtsey, sem hefur vanist vel.
Eyjan er sú syðsta í Vestmannaeyjaklasanum, og tilvitnunin í fornbókmenntunum; "Surtur kom sunnan" hæfði ágætlega.
Hvað mun eldgosið heita? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ein smá fyrirspurn: Hvernig er minnst á Gjálp í sambandi við Útgarða-Loka? Ég man ekkert eftir því að þau tengist í minni útgáfu af Eddu.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.3.2021 kl. 09:24
Hindranir urðu á leið Þórs. Hann kom að á sem var í foráttuvexti svo að hann átti enga möguleika að komast yfir. Varð honum litið upp eftir ánni og sá að skessan Gjálp stóð yfir ánni með fæturna sitt hvorum megin "og gerði hún árvöxtinn. "A skal að ósi stemma" mælti Þór, tók upp bjarg mikið og kastaði því að skessunni. Og eigi missti hann þar er hann kastaði til."
Ómar Ragnarsson, 11.3.2021 kl. 11:53
Verður ekki að skýra þetta frekar en að skíra? Því ekki er hægt að nota það orð um verk þess gamla í neðra.
El lado positivo (IP-tala skráð) 11.3.2021 kl. 12:39
En sú ferð var alls ekki til Útgarða-Loka. Þegar Þór hitti Gjálp var hann á leiðinni til Geirröðargarða að finna Geirröð jötun. Vel kann að vera að Geirröður og Útgarða-Loki hafi verið frændur en þeirra er aldrei getið í sömu sögunni.
Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 11.3.2021 kl. 22:15
Kær þökk fyrir þetta, Þorvaldur. Kippi þessu í liðinn. Ég las þetta fyrir 64 árum, svo að það hefur skolast til.
Ómar Ragnarsson, 11.3.2021 kl. 22:33
Ég nota aldrei orðið að skíra nema vígður kristinn maður skíri mann til kristni.
Og orðið ferming er þýðing á erlenda orðinu confirmation sem þýðir staðfesting á skírninni, því að teljas kristinn.
Ómar Ragnarsson, 11.3.2021 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.