14.4.2021 | 18:28
Miklu fleiri "spennandi Kínverjar" en menn órar fyrir.
Rísandi þjóðir hafa löngum verið stórlega vanmetnar af öðrum þjóðum, sem hafa verið bundnar af of mikilli vanþekkingu og jafnvel fordómum til þess að leggja raunsætt mat á getu þeirra og framlegð.
Fordómarnir felast helst í því að halda áfram að sjá heiminn með sömu augum og áður en þessir nýju þátttakendur í framlegð til efnahagslífs, menntunar, menningar, tækni og framleiðslu.
Kína og Indland hafa risið úr öskustó á undanförnum áratugum sem efnahagsleg stórveldi og raunar má bæta Tævan og Suður-Kóreu við auk Japans, sem hóf sitt "efnahagsundur" fyrir hálfri öld.
Þá var í fyrstu hlegið að bandaríska bílaframmleiðandanum Preston Tucker, sem hinur "þrír stóru", GM, Ford og Chrysler beittu pólitísku afli til að knésetja af því að bíll hans þótti hugsanleg ógn við staðnaða bíla risanna.
Þegar Tucker vann sigur að lokum í málaferlunum, sem var beint gegn honum, sagði hann sem lokaorð, að ef landar hans ætluðu að halda áfram á þessari braut, myndu þeir eiga eftir að vakna upp við vondan draum þegar hinar nýsigruðu þjóðir Þýskaland og Japan myndu fara fram úr þeim í bílaframleiðslu. Það var eftir þessi orð hans sem viðstaddir í réttarsalnum brustu í skellihlátur, svo mikil fjarstæða þótti þetta.
Tucker var ekki nógu framsýnn til þess að bæta Kína við sem væntanlegu risaveldi, en um það efni hafði verið sagt löngu fyrr, að þar væri um að ræða sofandi risa og það mætti biðja guð að hjálpa sér ef hann rumskaði við sér.
Það er talsvert umliðið síðan Kína fór upp í fyrsta sætið í bílaframleiðslu þjóða heims, og þeir og Tævanir flest og best bifhjól.
Mörg forn vígi hafa fallið, svo sem að það land heims sem framleiðir flesta Buick bíla er Kína, og að Indverjar eiga bílaverksmiðjurnar sem framleiða lúxusbílana sem áður voru stolt Bretlands svo sem Rolls-Royce og Landrover með sinn eðal Range Rover.
Síðuhafi stóð í þeirri trú að Honda PCX léttbifhjólið hans væri japanskt en þegar það fór í fyrstu ökutækjaskoðunina kom í ljós að það er framleitt á Tævan og rafreiðhjólið Náttfari er af Dyun gerð, kínverskt!
Og Suzuki bíll eiginkonunnar er ekki japanskur, heldur indverskur! Næsta stærð fyrir ofan hann í Suzukibilum hér á landi, Suzuki Swift, er rúmenskur!
Fyrir löngu orðið úrelt að tala um rúmenska bíla á borð við Dacia sem "austantjaldsdrasl".
Spennandi Kínverji | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.