Fordómar reyndust aðalhindrunin fyrir rafhjólabylgjunni.

Hér kemur framhald af frásögn af notkun á vélknúnum hjólum, sem hófst hér á síðunni í gærkvöldi. Náttfari í smáherbergi.

Þar var komið sögu, að reynslan af notkun rafreiðhjóls, sem skolaði á Akureyri fyrir tilviljun upp í hendurnar á reykvískum öldungi, var sú, að í þau 56 ár sem liðin voru frá daglegri reiðhjólsnotkun hans sem tánings, hafði hann smám saman byggt upp fordóma, sem hrundu eins og spilaborg þegar hann fór að nota hjólið, af því að það var óseljanlegt vegna bilunar í rafhlöðunni. 

Í fyrstu var skoðaður sá möguleiki að selja hjólið á hálfvirði. 

En aftur kom tilviljun í spilið, sem sé sú, að einhver maður auglýsti í blaði að hann byði nokkur ný  rafhjól til sölu á hálfvirði Náttfari í snjó.

Af því að rafhlaðan er helmingur af virði svona hjóls, var hjólið mitt orðið algerlega verðlaust og því eina vonin, að gefa því tækifæri og sjá til hvort hægt væri að hressa upp á rafhlöðuna. 

Í gær var sagt frá því hvernig rafeindavirkinn Gísli Sigurgeirsson fann út, að það var svo nauðalítið, sem var að rafhlöðunni, að einfalt reyndist að koma í hana fullu afli. 

Og reynslan af notkun hjólsins frá útmánuðum til miðsumars ruddi burt langri röð af fordómum. Náttfari við Engimýri

1. Veðrið er alger hindrun. Rangt. Nú var komin á reynsla af því að það var fært nær alla daga og ekki féll úr vika. Og nú rifjaðist upp að maður hjólaði sem unglingur í öllum veðrum, og samt var ekki hægt að setja negld vetrardekk undir gripinn.  

2. Hjólið er allt of hægfara.  Rangt: Fimm mínútum lengri tíma tók til að klæða sig í viðeigandi fatnað og hjálm en á bíl töpuðust þær við að leita að bílastæði. Tíminn frá Borgarholti í Grafarvogshverfi niður í gamla miðbæ eða Útvarphúsið var aðeins 10 mínútum lengri en á bíl, enda leiðin um Geirsnefið styttri og aldrei töf í umferðarteppum. 

3. Drægnin of lítil.  Rangt: Sett á auka rafhlaða og málið dautt. 

4. Ómögulegt að koma kófsveittur á áfangastað.  Rangt: Ferðin skipulögð þannig að rafaflið eitt var nýtt síðustu fimm mínúturnar með því að nota handgjöfina eina en ekki fæturnar. 

5. Alltof lítið rými fyrir farangur á hjólinu.  Rangt: Í farangursgeymslu á stýrinu og tveimur farangurstöskum á bögglaberanum auk bakpoka á bakin er farangursrýmið alls 130 lítrar eða álíka mikið og á litlum bíl. 

6. Leiðinlegur og vosbúðarmikill ferðamáti:  Rangt: Miklu skemmtilegri ferðamáti og vélhjólastígvél og regnheldar buxur og jakki halda manni þurrum. 

Með því að geta notað rafaflið beint með handgjöfinni var hægt að stilla áreynslu á slitin hné í hóf að vild. 

Ótalinn var sparnaðurinn, orkukostnaður aðeins tíu krónur á hverja 100 kílómetra þessa 430 kílómetra, og svona hjól án skyldugjöld né sérstök réttindi, bara gaman.   

Við blasti að hrinda í framkvæmd almennilegri kynningu í fjölmiðlum á þessum ferðamáta, eins og rakið var í pistlinum i gær og ná nokkrum áföngum: 

Að fara á svona hjóli frá Akureyri til Reykjavíkur algerlega hjálparlaust og með ótengda pedala og þar með ekkert fótaafl aðeins rafafl,-

vera í tölvu- og símasambandi að vild allan tímann,-

eyða innan við 100 krónum í raforku alls - 

vera innan við tvo sólarhringa á leiðinni þótt leiðin yrði að liggja fyrir Hvalfjörð af því að reiðhjól fá ekki að fara um göngin  -

og setja Íslandsmet í drægni -

á einni hleðslu - 

og á einum sólarhring.   

Þetta verður rakið í framhaldspistli. 

Að sjálfsögðu þyrfti að stunda nauðsynlegar prófanir og æfingar áður en lagt yrði í hann.  


mbl.is Rafhjólabylgjan rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband