26.5.2021 | 00:22
Vonandi svipað og þegar önnur Boeing 727 þota bættist í flotann.
Boeing 727 þotur voru fyrstu þoturnar í notkun hjá Íslendingum. Þær reyndust einstaklega vel þótt ferill þeirra erlendis væri stráður mannskæðum slysum fyrstu tvö árin.
Brugðist var rösklega og markvisst við þessum slysum, sem byggðust að hluta til á svipuðu atriði varðandi Boeing 737 MAX hálfri öld síðar, það er, að flugmennirnir þurftu mikla og markvissa þjálfun í aðflugi og lendingu, vegna þess hve öflugur og nýstárlegur hægflugsbúinn vængurinn var.
Nú er svo að sjá að fáar flugvélar geti verið jafn þrautreyndar og vel endurbættar og Boeing 737 MAX og er ástæða til að óska Icelandair velfarnaðar með þær á þessum tímamótum.
Síðuhafi flaug fyrir tilviljun með MAX í síðasta flugi hennar fyrir kyrrsetningu og dáðist að þvi hve vel Boeing hefði tekist með úthugsaðri hönnun á innréttingu að láta vélina sýnast breiðari en hún raunverulega er. Einni einkar hljóðlát og þægileg.
Sumar af helstu tímamótaflugvélum fortíðarinnar þurftu á gagngerum endurbótum að halda eftir óhöpp í upphafi ferils síns, svo sem fyrsta farþegaþótan, De Havilland Comet, sem eftir tímamótarannsókn og eftirfylgni varð öruggur farkostur í meira lagi.
Stærðir, fyrirferð, þyngd og eyðsla flugvélahreyfla, ráða mestu um samsetningu flugflota heimsins hverju sinni. Á tímum 727 voru takmarkanir á flugi á tveggja hreyfla þotum yfir úthöf, sem ekki giltu um þriggja hreyfla vélar, auk þess sem þriggja hreyfla vélar hafa þann einfalda kost fram yfir tveggja hreyfla, að bili einn hreyfill í flugtaki, heldur vélin eftir 67 prósentum af vélaraflinu, en aðeins 50 prósentum ef annar af tveimur dettur út.
Nú er það þumalputtaregla að lágmarksvélarafl til að flugvél geti haldið hæð með hreyfil óvirkan er í kringum 45 prósent af samtals afli, þannig að svigrúmið er miklu meira á þriggja hreyfla vél en tveggja hreyfla vél.
Á tímum 727 var geta vélarinnar á stuttum brautum stór kostur og einnig hagkvæmni í eldsneytiseyðslu.
Það var vel til fundið um daginn að lenda MAX á Reykjavíkurflugvelli og setja hana í eitt stykki innanlandsflug, en þar að auki er lang stærsti kostur hennar minnsta mögulega eldsneytiseyðsla í þessum stærðarflokki.
Nýjar MAX-vélar miklar gleðifréttir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.