Magnað atvik í Grafarvogskirkju.

Fyrir um tuttugu árum gerðist það, að góður æskuvinur minn, Davíð Helgason, hné niður við morgunverðarborðið í hjartaáfalli og lést. 

Davíð hafði verið í fremstu röð í körfubolta á yngri árum og fyrir marga kom þetta áfall mjög á óvart. 

Útför Davíðs í Grafarvogskirkju var því mörkuð sárum söknuði, vönduð athöfn og virðuleg.

Þegar kom að því að presturinn stigi fram til að fara með moldunartextann, gerðist það hins vegar, öllum á óvörum, að einn kirkjugesta, sem sat fremst í kirkjunni, féll fram fyrir sig í hjartaáfalli. 

Mínúturnar, sem á eftir fóru, voru ekki aðeins eins og þögn eftir þrumu úr heiðskíru lofti, heldur fann hver kirkjugestur óþyrmilega fyrir smæð sinni og vanmætti, líkt og skilaboð að ofan:  Þú, litli maður, hélst kannski, að þú værir sjálfur óhultur fyrir örlögunum, og að svona gerðist ekki við jarðafararathöfn, en enginn má sköpum renna, mundu það. 

Gamalt orðtak, sem faðir minn heitinn notaði stundum við svipuð tilefni, kom í hugann á meðan athöfnin var stöðvuð, hinn sjúki fékk aðhlynningu og beðið var eftir sjúkrabíl. 

Magnaðri útför var vart hægt að hugsa sér, og á meðan á stöðvun útfararinnar stóð, varð til lítil vísa: 

 

"Feigðin grimm um fjörið krefur. 

Fátt er oft um svör. 

Enginn veit, hver annan grefur; 

örlög ráða för."

 

Vísan sú arna átti eftir að draga dilk á eftir sér, því að smám saman bættist við hana þegar fleiri vinir kvöddu á næstu árum, svo sem Bessi Bjarnason, Flosi Ólafsson, Hermann Gunnarsson og Carl Möller. 

Nú er þetta eins konar sálmur:  

 

SORG OG lÍKN. 

 

"Aaa...söknuðurinn sár. 

Aaa...sorgarkvöl og tár. 

 

Ljúfur Drottinn lífið gefur; 

líka misjöfn kjör

og í sinni hendi hefur 

happ á tæpri skör. 

Feigðin grimm um fjörið krefur; 

fátt er oft um svör. 

Enginn veit, hver annan grefur; 

Örlög ráða för. 

 

Aaa...söknuðurinn sár.

Aaa...sorgarkvöl og tár. 

 

Líkna höfug hryggðartárin; 

hörfar myrkrið svart. 

Látum tímann lækna sárin, 

þótt lögmálið sé hart. 

Valt er lán og vegir hálir; 

víst þó huggun er

það, sem góðar gengnar sálir 

gáfu okkur hér. 

 

Aaa...söknuðurinn sár. 

Aaa...sorgarkvöl og tár. 

 

En ég veit að orðstír lifir, 

ást og kærleiksþel. 

Sá, sem vakir öllu yfir 

æ mun stjórna vel. 

Vítt um geim um lífsins lendur

lofuð séu´hans verk. 

Felum okkur í hans hendur

æðrulaus og sterk.  

 

Aaa...myrkrið dökka dvín. 

Aaa...aftur ljósið skín."

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hjartað sló ekki í 78 mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband