25.6.2021 | 10:50
Afvegaleiddar umræður um vísindalegar staðreyndir.
Upplýsingar Sigurðar Steinþórssonar prófessors emeritus um eðli eldgossins í Geldingadölum er gott dæmi um það, hve við Íslendingar eigum vel mannaða sveit góðra vísindamanna á þessu sviði sem standa í fararbroddi á heimsvísu í rannsóknum í eldfjallafræði og jarðfræði.
Þess dapurlegra er að sjá stanslausa afvegaleidda umræðu andstæðinga orkuskipta þar sem rökræðan er stórlega afvegaleidd í því skyni að gera Íslendinga eina allra þjóða stikkfrí í því að leggja sitt af mörkum í þessu efni.
Málflutningur þessi felst í því, að vegna þess hve útblástur af völdum notkunar jarðefnaeldsneytis Íslendinga sé lítill hluti af útblástri jarðarbúa, og einnig vegna þess að útblástur íslenskra eldfjalla sé stórfelldur, eigum við kröfu á að skerast úr leik á þeim forsendum að það muni ekkert um okkur á heimsvísu.
Þetta er ömurlegur málflutningur því að svo að dæmi sé tekið, er útblástur hvers meðalstórs íslensks bíls sem brennir jarðefnaeldsneyti álíka mikill og útblástur hvers svipaðs bíls annars staðar á jörðinni.
Ef röksemdir Páls Vilhjálmssonar í dag um þetta mál væru gildar, ættu þær líka að gilda um allar þær þúsundir borga og byggða um allan heim, sem eru álíka fjölmennar og Ísland.
Síðan er þessi málflutningur kórónaður með því að fella íslensk eldfjöll inn í útblásturstölur jarðarbúa og Íslendinga.
Það er einstaklega ósanngjörn þröngsýni að færa óviðráðanlega þætti í náttúru jarðar til bókar hjá einstökum þjóðum eins og Íslendingum og blása það út hvað þessar tölur séu háar í samanburði við útblástur, sem þjóðin veldur sannanlega sjálf og getur minnkað, ef vilji er fyrir hendi.
Raunar er leitun að þjóð sem hefur eins mikla og nærtæka möguleika í því efni og við Íslendingar.
Eldgamalt vatn veldur sprengingunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.