26.6.2021 | 20:24
"Skulu í gegn stefnan" hefur fyrir löngu beðið skipbrot.
Of lengi hefur sú tilhneiging verið í gangi hér á landi að þar sem þéttbýli myndaðist á sínum tíma við brýr eða krossgötur með verslunarkjörnum í miðjunni, skyldi framvegis forðast það að umferðin fengi fljótfarinn farveg framhjá miðju byggðarinnar þegar leiðin um miðjuna fór að líða fyrir umferðarteppur sem þar mynduðust.
Þetta svona ástand varð til á sínum tíma við brúna yfir Ytri-Rangá og til stóð að gera nýja brú á nýjum stað, þar sem leiðin lægi stystu leið framhjá byggðinni fyrir sunnan hana, hófst mikil andspyrna gegn því og þess var krafist að leiðin lægi í gegnum miðju þorpsins, þar sem ný brú risi við hliðina á þeirri gömlu með þeim afleiðingu að afar seinfarið og þröngt yrði að fara þar um.
En hörðustu andstæðingar nýrrar brúar og leiðar fyrir sunnan þorpið töldu í fúlli alvöru, að ef það yrði gert, myndi það þýða endalok þorpsins.
Þess vegna snerist það um líf eða dauða að þvinga umferðina í gegnum gömlu miðjuna.
Sem betur fer varð þessi stefna, sem kalla má "skulu í gegn stefnan", ekki ofaná, heldur hin nýja stefna bestu hagræðingar í skipulagi.
Þær þúsundir, sem nú aka um nýju brúna, myndu undrast, ef þeir sæu, hvernig þetta hefði orðið ef hún hefði ekki verið tekin upp.
Sú verslun og þjónusta, sem er á Hellu, hefur einfaldlega flutt sig nær nýjú brúnni.
Lengi vel var uppi andstaða á Selfossi og víðar við það að færa Þjóðveg 1 norður fyrir Selfoss og yfir nýja brú.
Andstæðingar þess töldu það höfuðnauðsyn, að allir þeir, sem ættu leið yfir Ölfusá, ættu ekki um neitt annað að velja en að fara krókaleiðina í gegnum miðbæinn með tilheyrandi umferðartöfum.
Nú virðast menn hins vegar sem betur fer hafa séð, hve arfa óhagkvæm slík stefna er, enda er forsenda hennar kolröng, að allir vegfarendur á leið yfir Ölfusá eigi eða hafi átt erindi um hinn gamla miðbæjarkjarna.
Hugsanleg hefur andóf gegn nýja brúarstæðinu og stæðinu fyrir Þjóðveg eitt tafið fyrir því að hafist hafi verið handa fyrr við þá þjóðþrifaframkvæmd.
Sé svo, er það bagalegt, en þess meiri þörf á að sækja þetta mál þeim mun betur.
Umferðaröngþveiti á Selfossi: Nýja brú strax! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.