27.6.2021 | 16:39
Gáfu "Bæjarins bestu" tóninn um gildi hugkvæmi varðandi ferðamannastaði?
Fyrir nokkrum misserum var spurt um það í kynningarbæklingi í íslenskum þotum, hver væri fjölsóttasti veitingastaðurinn í Reykjavík.
Ef rétt er munað var svarið: Pylsusöluskúrinn "Bæjarins bestu" við Tryggvagötu.
Upphafið að því ævintýri var að réttur maður á réttum stað, Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseti fékk sér þar pylsu í heimsókn til Íslands.
Fram að því vissu flestir Íslendingar af tilvist þessa litla skúrs en enginn sá möguleikana á þessu stóraukna gildi hans.
Fyrir nokkrum sumrum varð flak Douglas DC-3 á Sólheimasandi einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.
Mörgum árum fyrr hafði verið sýnd mynd af flakinu í sjónvarpi án þess að nokkur hreyfing yrði á ferðum fólks þangað.
Margsinnis og fyrir löngu var búið að sýna myndir af Reynisfjöru í sjónvarpi áður en hún varð að að eftirsóttum ferðamannastað.
Fjaðraárgljúfur var sýnt stuttlega í sjónvarpi fyrir rúmum aldarfjórðungi og aftur rækilega í sjónvarpsþætti fyrir átta árum.
Eitthvað glæddist áhuginn á gljúfrinu við þetta, en ekkert í líkingu við þá sprengingu sem Justin Bieber, réttur maður á réttum stað, olli tveimur árum síðar þegar varð að loka því á tímabili vegna ágangs.
Á mbl.is í dag er viðtengd frétt þar sem er yfirlit yfir fjölda góðra hugmynda varðandi áningar- og ferðamannastaði á Suðausturlandi.
Og í viðtengdri frétt um veitingastaðinn "Matarvagninn Hengifoss Food Truck" er greint frá skemmtilegum hugmyndum um matvörur á boðstólum á borð við sauðamjólkurís.
Hengifoss er einn af allra hæstu og flottustu fossum landsins með stórkostlegt gljúfur og hamramyndanir umhverfis sig, en hefur hingað til ekki fengið þá athygli, sem hann á skilið.
Nú er að skilja á fréttum að bæta eigi úr skorti á góðu aðgengi að fossinum og hefja gildi hans upp á hærra plan.
Það er vel, og sauðamjólkurís í veitingavagni ætti ekki síður að geta orðið aðdráttarafl og tekjulind en pylsur með öllu í litlum skúr við Tryggvagötu.
Selur sauðamjólkurís við Hengifoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.