Kárahnjúkar: Þar sem veðrið er verst þegar það ætti að vera best.

Undanfarnar vikur hafa ríkt alveg einstök hlýindi, hægviðri og bjart veður á norðaustanverðu landininu, ekki síst á hálendinu, þar sem hitinn hefur komist í 24 og 25 stig. DSC09620

Fyrir daga Kárahnjúkavirkjunar gat þetta fært svæðinu besta veður ársins, bjart og hlýtt. 

En í undanförnum hlýindum þar sem hitinn á veðurstöðvunum Kárahnjúkum og Brúaröræfum hefur verið um tuttugu stig dag eftir dag í þrjár vikur og veðurspáin hefur verið "hæg breytileg átt og léttskýjað" hefur brugðið svo við að vegna hitauppstreymis hefur komið sunnangola eða kaldi sem veldur því að hinn auði lónbotn Hálslóns, sem er þakinn mjög smágerðum og fínum leirsandi sem barst í lónið sumarið á undan, hefur rokið upp fært þetta umrædda svæði á kaf í svo í svo þykkt rykkóf, að skyggnið hefur fallið svo mjög, að á einstökum stöðum í kófinu hefur vart séð handa skil.DSC09623

Efsta myndin er tekin við vesturhluta lónsins eða öllu heldur lónstæðisins, því að þetta gráa svæði, með Fremri-Kárahnjúk enn sjáanlegan, verður allt þakið lóninu síðsumars þótt það sé marautt núna. 

Rétt er að benda áð með því að smella sérstaklega á hverja mynd er hægt að skoða hana betur. 

Alla leið úti á Egilsstöðum í 80 kílómetra fjarlægð féll skyggnið svo mjög að sögn þeirra, sem ræddu við síðuhafa á ferð þarna sl. mánudag, að vart sá á milli húsa fyrir um hálfum mánuði. 

Ofangreindu fyrirbrigði var spáð af vísindamönnum fyrir gerð virkjunarinnar, og fyrstu árin eftir gerð virkjunarinnar töldu margir svona fyrirbrigði vera sandfok frá flæðum Jökulsár á Fjöllum. DSC09637

En eftir að hraun rann í Holuhraunsgosinu yfir Jökulsárflæður gengur þessi skýring ekki upp enda sést ferill hins nýja og mikla leirkófs mjög vel, hvernig það þyrlast upp í þurrum og leiri þöktum botni Hálslóns fyrri part sumars áður en lónið hefur fyllst. 

Á miðmyndinni er horft eftir bakka Hálslóns eins og hann verður í september, ósnortinn 2ja til fjögurra metra þykkur jarðvegur vinstra megin, en fyrir virkjun þakti hann allt svæðið hægra megin, sem lónið hefur nú eytt og skilið eftir eyðimörkina, sem þekst um tíu milljónum tonna af leir á hverju sumri. leirfok_karahnjukar_1311992

En jarðvegs- og gróðureyðingin af völdum virkjunarinnar nemur 40 ferkílómetrum og tugum milljóna tonna af jarðvegi. Er í því fólgin mesta gróðureyðing í einu vetfangi í sögu landsins. 

Á neðstu myndinni er staðið á Kárahnjúkastífu og horft niður eftir henni niður á Hálslón, sem er svo mengað af leiri, að skyggnið í vatninu er aðens 7 sentimetrar. 

Fjær sést glytta í Sandftell í um tveggja kílómetra fjarlægð, og skyggnið er ekki meira í hina áttina í átt til Ytri-Kárahnjúks. 

Þegar lónið kemur undan ísi á vorin eru um 35 ferkílómetrar af 57 í því útliti sem hér sést en eftir því sem það fyllist minnkar þurru leirurnar og leirkóf verður sjaldgæfara og minna. 

Neðsta myndin er loftmynd af ysta hluta lónsins tekin fyrir nokkrum árum í ágústbyrjun, en þrátt fyrir miklu minni leirur er leirfokið það mikið að stíflurnar sjást ekki og Ytri-Kárahnjúkur varla. 


mbl.is Hiti í kringum 25 gráður á Austurlandi um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Það er gaman og fróðlegt að lesa pistlana þína en stundum finnst mér þú fara dálítið frjálslega með sannleikann.

Fyrir nokkrum árum skrifaðir þú mjög svipaðan pistil um sandfok frá bökkum Hálslóns. Sandfokið á þeim tíma var svo mikið að strókurinn stóð út allt Hérað. Það vildi svo til að ég var á sama tíma upp við Kárahnjúkavirkjun og sá hvaðan rauk. Það sagði ég þér í svari við færslunni þinni að fokið kom ekki frá bökkum Hálslóns heldur frá vestan ár þar sem landið er að mestu ógrónir melar, sandar og úfin hraun. Ekki má hreyfa vind að sunnan eða vestan svo rjúki frá þessum svæðum.  Faðir minn, sem er fæddur á mið Héraði nokkuð fyrir miðja síðustu öld, sagði mér að hann hefði brutt sand sumar eftir sumar þegar hann var að alast upp og rykmistrið hafi verið slíkt að dregið hefði fyrir sólu. Ég man sjálfur eftir miklum sandstormum á Héraði þannig að ekki sást frá Egilsstöðum yfir í Fell. 

Aftur heggur þú í sama knérunn. Mikið sandfok hefur verið á Héraði undanfarið. Í vikunni fór ég í góðu veðri upp að Snæfelli, framhjá lóninu og niður að Sænautaseli og þaðan í Egilsstaði. Lítið rauk úr bökkum Hálslóns, en eitthvað þó, en ekki er hægt að kenna virkjunarframkvæmdum einum um þegar ástandið er eins og það er annars staðar á hálendinu í grenndinni.

Þú segir í færslunni að vegna virkjunarinnar sé fólgin mesta gróðureyðing i sögu landsins. Haft var eftir Sveini Runólfssyni fyrir nokkrum árum að álíka sandfok, jarðvegs- og gróðureyðing hafi verið í Skaftárhreppi.

Ég er ekki að draga úr áhrifum sandroks frá bökkum Hálslóns, en eins og myndir þínar sýna að ansi mikið getur rokið í stífri sunnanátt eins og verið hefur undanfarið. Eg vil bara benda þér á þá staðreynd að sandrok frá þessu svæði er ekki eingöngu bundið við bakka Hálslóns, heldur rýkur á feikna stóru svæði og ekki byrjaði það eftir að framkvæmdir hófust við Kárahnjúka heldur hefur rokið öldum saman.

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 10.7.2021 kl. 13:31

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Þú segir". "Farið frjálslega með sannleikann."  Þannig orðar þú þá staðreynd sem birtist í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar fyrir virkjun og allir, þeirra á meðal þú, hefðir átt að kynna þér, að með henni yrði eytt í einni framkvæmd meira en 40 ferkílómetum af gróðurlendi. Þetta eru ekki bara einhver örfá strá, heldur var jarðvegur á Hálsinum og beggja vegna Hálslóns margra metra þykkur. 

Talan 10 milljón tonn af NYJUM aurframburði á hverju ári sem leggjast eins og hveiti yfir þurran lónbotninn fóru áður með ánni út í Héraðsflóa. 

Leirflæmmin sem liggja á hverju vori opin fyrir áhrifum vinds á heitustu og björtustu dögunum eru öll NÝTT FYRIRBRIGÐI.  

Ómar Ragnarsson, 10.7.2021 kl. 19:19

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í mati þáverandi umhverfis á umhverfisáhrifum virkjunarinnar var gert ráð fyrir að leirfokið mætti hefta með því að dreifa rykbindi úr flugvélum yfir svæðið. 

Verkfræðistofa var í örvæntingu fengin til þess að útfæra tillögu um þetta.  

Landgræðslustjóri sagði slíkar hugmyndir gersamlega gagnslausar. 

Sendir eru vinnuflokkar frá Landgræðslunni á hverju sumri til þess að berjast við sandburðinn með notkun sandgildra á verstu stöðunum. 

Ekkert af þessu kom til umræðu fyrr en með tilkomu virkjunarinnar og hinna MÝJU og stórfelldu óafturkræfu umhverfisspjalla. 

Landsvirkjun birti fyrir virkjun glæsimynd af stærstu hálendismiðstöð hálendisins sem myndi rísa við Kárahnjúkastíflu með aðstöðu til siglinga af öllu tagi og veiði í blátæru lóni þar sem sæist til botns á 200 metra dýpi. 

Fjallaklifrarar á stíflunni. Raunin er hins vegar sú, að ekkert kvikt getur lifað í þessum ískalda risavaxna drullupolli, sem er með aðeins 7 sentimetra skyggni neðan vatnsbotns og hefur drepið allt líf í Lagarfljóti og eyðilagt hinn fagra bláma þess.   

Ómar Ragnarsson, 10.7.2021 kl. 19:51

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið innsláttarvillu: "...neðan vatnsbotns..." á auðvitað að vera "...neðan vatnsborðs....". 

Við  ritun þessa pistils hafði ég ekki aðeins heimildir úr opinberum gögnum um virkjunina heldur líka reynsluna af mörgum árlegum ferðum um þetta svæði í aldarfjórðung.  

Einnig frásagnir Völundar Jóhannessonar, sem hefur dvalið langdvölum á hverju sumri í bústað sínum í Grágæsadal, sem er 15 kílómetra akstursfjarlægð frá mínu aðsetri á hverju sumri á Sauðárflugvelli. 

Ómar Ragnarsson, 10.7.2021 kl. 20:02

5 identicon

Sæll Ómar.

Ég er ekki að gera lítið úr áhrifum sandfoks úr bökkum Hálslóns, eins og ég sagði í færslunni minni. Þegar ég segi að þú farir frjálslega með sannleikann þá meina ég, að þú hefur fullyrt í færslum að sandfok ákveðna daga sé frá bökkum Hálslóns. Ég sá það með augunum mínum að þessi fullyrðing þín var röng. Það rýkur nefilega duglega frá öðrum svæðum og hefur gert um aldir. Að hamra á því aftur og aftur að fjúk frá öræfunum komi bara frá bökkum Hálslóns, eins og þú hefur gert lengi, er hreinlega rangt.

Eitthvað hafa skýrsluhöfundar Landsvirkjunar verið annars hugar hafi þeir fullyrt að lónið yrði blátært með einhverju lífi. Það þarf ekki að leggjast í miklar rannsóknir til að átta sig á því að það er algjör heimska að láta sér dettta það í hug. Það þarf ekki annað en að muna eftir litnum á Jöklu hér á árum áður, en hvað er hún nú? Blátær laxveiðiá.

Ég get aldrei, eftir að hafa lifað á bökkum Lagarfljóts í áratugi, samþykkt að þar hafi verið líf sem talandi er um og vatnið fagurlega blátt. Bölvuð vitleysa. Ég man eftir því að sem krakki þá veiddi ég í kílunum við Egilsstaðabúið, Finnstaðnes og Mýnes. Nýgenginn fiskur úr fljótinu var glær og óætur því þar var ekkert æti, heldur bara í hliðarám. 

Ómar. Fagur blámi Lagarfljóts. Ekki vera að slá ryki í augu fólks sem er ekki staðkunnugt og veit ekki betur.

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 10.7.2021 kl. 20:27

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég segi hvergi að allt leirfok á hálendinu komi frá Hálslóni, heldur aðeins að hið mikla fok sem kemur úr lónstæðinu nú er fyrirbrigði, sem er alveg NÝTT nú við ákveðin skilyrði. 

Það er langt seilst að saka mann um lygar varðandi uppruna leirfoksins sem ég sé með eigin augum hvaðan kemur, bara vegna þess að þú hafi séð leir fjúka annars staðar. Og ekki síst hraustlega talað þegar loftmyndin sýnir glögglega upprunann þegar sú mynd er tekin. 

Ómar Ragnarsson, 10.7.2021 kl. 23:04

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég segi hvergi að allt leirfok á hálendinu komi frá Hálslóni, heldur aðeins að hið mikla fok sem kemur úr lónstæðinu nú er fyrirbrigði, sem er alveg NÝTT nú við ákveðin skilyrði. 

Það er langt seilst að saka mann um lygar varðandi uppruna leirfoksins sem ég sé með eigin augum hvaðan kemur, bara vegna þess að þú hafi séð leir fjúka annars staðar á öðrum degi. Og ekki síst hraustlega talað þegar loftmyndin sýnir glögglega upprunann þegar sú mynd er tekin. 

Ómar Ragnarsson, 10.7.2021 kl. 23:09

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Merkilegt er að sjá "staðkunnugan mann" halda því fram að hinn sérkennilegi blámi, sem ekki var tær blámi, heldur með fjólubláum blæ á sinni tíð, hafi ekki verið "fagur" áður en hann varð drullubrúnn. 

1999 sá ég vatn í Klettafjöllum Ameríku, Lake Louise, sem var rómað fyrir sérkennilega blámafegurð og talið einstakt fyrir þær sakir, og í ljós kom að þetta var bara svipuð blámafegurð og Lagarfljotið bjó yfir. 

Nú er ég sakaður um að reyna að "slá ryki í augun á staðkunnugu fólki" með því að minnast á hina miklu litar- og hitabreytingu sem varð við það að vatnið úr Jökulsá á Dal var leitt yfir í Lagarfljót. 

Í einum af níu sjónvarpsþáttum sem Landsvirkjun gerði um virkjunina fékk einn "staðkunnugur" heimamaður að tala fyrir hönd Austfirðinga um breytinguna á Lagarfljóti, og hældi hann þessari miklu litarbreytingu mjög og rómaði hve mikill munur væri að sjá Lagarfljótið hafa breyst í ígildi sólbrúnnar stúlku á erlendri sólarströnd!

Ómar Ragnarsson, 10.7.2021 kl. 23:54

9 identicon

Til að vera viss um lit Lagarfljótsins fyrir virkjun, þá setti ég upp spurninga á Facebook og gaf fólki tækifæri til að svara.

Alls svöruðu 167 og skiptust litirnir svona:

Grænt 127

Grátt 27

Eins og það er núna 5

Fagurlega blátt 2

Aspassúpugrænt 2

Blágrænt eða grænblátt 1

Allskonar litbrigði eftir árstíðum 1

Brúnt 1

Grágrænt 1

Grátúrkís grænt 1

Ekki eru margir sammála þér að Lagarfljótið hafi verið fagurlega blátt eða 1.1%

Einnig spurði ég Héraðsbúa um sandfok fyrr og nú.

Hvort er sandfok af öræfum meira eða minna en það var fyrir virkjun

Alls tóku 43 þátt og skiptast svörin á þessa leið:

Það var mikið sandfok, en samt minna en núna. 20

Það er meira sandfok núna 18

Það var ekkert dandfok 2

Það er svipað fok og var fyrir virkjun 2

Einn segir m.a.: Sandfokið er að mestu leiti komið af Flæðunum við Dyngjujökul, Til viðbótar er líka sandfok úr Hálslóni þegar vatnsstaða er lág. Sandfok inná gróðurlendið í Kringilsárrana er umtalsvert og reynir Landsvirkjun þar mótvægisaðgerðir. Hreinsað hefur verið uppúr sandgildrunum að norðanverðu þar sem þær voru sumstaðar ornar fullar af sandi og sandfok farið að spilla gróðri næst bakkanum að norðan.

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 12.7.2021 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband