22.7.2021 | 09:37
Þarf alltaf nógu fræga útlendinga til að meta íslenska náttúru?
Kirkjufell, Reynisfjara, Fjaðraárgljúfur, Hraundrangi, Herðubreið og Tröllakrókar hafa verið til í þúsundir ára, og þessi náttúrufyrirbæri verið sýnd og kynnt í bókum og kvikmyndum í meira en hálfa öld að minnsta kosti.
Þegar Emil Björnsson dagskrár- og fréttastjóri féllst á þá hugmynd upp úr 1970 að láta myndskreyta þjóðsönginn í lok dagskrár með loftmyndum af svona völdum fyrirbrigðum, vakti það athygli um hríð, en samt var eins og það þyrfti meira til, því að það virtist það vera niðurstaðan á ráðstefnu um þessi mál fyrir um tuttugu árum að ekkert af þessu vildu erlendir ferðamenn sjá, heldur væri það Hallormsstaðaskógur sem myndi heilla þá mest og draga þá til Íslands.
Þetta fullyrti einn íslenski ráðstefnugesturinn í lok ráðstefnunnar af þvílíkum sannfæringarkrafti, sem hann sagði byggða á meira en hálfrar aldar reynslu sinni, að eftir því var munað í lok ráðstefnunnar, enda hafði þessi öflugi "áhrifavaldur" þá strunsað út af ráðstefnunni með miklum látum og ókvæðisorðum um hina ömurlegu og fráhreindandi auðn og grjót sanda, fjöll og firnindi á hálendi lansdins, sem verra en einskis virði.
En á þessum tíma var enginn Justin Bieber eða samsvarandi erlendar rokkstjörnur til, sem gátu komið hinum atkvæðamikla útgöngumanni af ráðstefnunni og skoðanasystkinum hans til viðtals um, að íslenska orðið heimskur er upphaflega dregið af því að viðkomandi dæmi alla veröldina út frá sjónarhól sínum heima við.
Frægasta fjall Íslands? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.