30.7.2021 | 17:51
Heldur betur rangsnúið náttúruverðmætamat á íslensku árnar birtist.
Gosið við Fagradalsfjall innleiddi fyrir fullt og allt öld drónanna sem afburða tækja til myndatöku. Björn Steinbeck var meðal fremstu manna í því efni frá byrjun og heldur áfram að gera stórgóða hluti.
En í því mati sem hann leggur á snilldarverk íslenskra jökufljóta felst sérkennileg sýn og sumt sem fullyrt er, er beinlínis rangt.
Sigöldugljúfur varð til dæmis til við það að áin notaði jökulleir til að svarfa fallegt gljúfur á leið sinni.
Síðan var áin tekin úr farvegi sínum og var svipt möguleikanum til frekari gljúfursmíðar.
Mat Björns á þessu bendir til þess að hann viti ekki hvernig gljúfrið leit út, áður en áin var tekin úr því.
Síðuhafi er nógu gamall til þess að hafa skoðað bæði gljúfrið og Hrauneyjafoss áður en þessi fyrirbæri voru svipt vatninu, sem skóp það og man eftir hvorutveggja ósnortnu í eðlilegum náttúrulegum kringumstæðum með tignarlegum afurðum sköpunarmáttar íslenskrar náttúru.
Hvort tveggja varð til og naut sín fyrir virkjun, af því að áin var þá óvirkjuð og fékk tíma til afreka sinna.
Björn gefur sér hins vegar það að gljúfrið birtist nú fyrst, en hafi ekki sést fyrir virkjun og hann hafi því með dróna sínum fundið glötuð verðmæti.
Af þessu og fleiri hliðstæðum gefur hann sér að það sé hvarvetna til mikilla bóta að ár séu virkjaðar og nefnir Jöklu, Jökulsá á Brú/dal sem gott dæmi.
En þar er beinlínis um grófan misskilning og fáfræði að ræða.
Fullyrt er að það sé eingöngu vegna þess að Jökla var tekin úr Hafrahvammagljúfri að nú sé opinn möguleiki til að fara inn í gljúfrið gangandi. Fyrir virkjun hafi gljúfrin verið með öllu óaðgengilegt.
Þetta er alrangt. Áður en áin var rifin í burtu við smíð þessara stórkostlegustu gljúfra Norðurlanda, var hægt að ganga ofan frá eystri gljúfurbarminum við miðju gljúfursins, þar sem það er stórbrotnast, niður svonefnt Niðurgöngugil. Þess vegna heitir gilið þessu nafni og ber það áfram með rentu.
Fyrir virkjun var í eitt sinn siglt niður ána í flúðasiglingu í gegnum gljúfrin og gerð um það heimldarmynd, en það verður aldrei hægt aftur.
Nú, þegar Jökla hefur verið tekin um eilífð frá einstæðu sköpunarstarfi sínu, er hún hætt að sverfa botn gljúfursins og hann er þegar byrjaður að fyllast af hruni úr gljúfurveggjum og verða alveg ófær til gönguferða.
Eftir sem áður stendur Niðurgöngugil að vísu óhaggað, en niður og heljarafl árinnar hefur verið svipt í burtu, listamaðurinn mikli og samspil árinnar við listaverk sitt tekin úr vinnustofu sinni
Stuðlagil er að vísu aðgengilegra hálft sumarið en áður var en var samt jafn aðgengilegt snemmsumars fyrir virkjun, svipað og nú er áfram fram í ágúst.
Eftir stendur lang hrikalegustu óafturkræfu umhverfisspjöll Íslandssögunnar með því að drekkja í drullu 57 ferkílómetrum lands með gríðarlegum náttúruundrum í 25 kílómetra löngum dal sunnan við Kárahnjúkavirkjun.
Það er hraustlega mælt þegar sagt er, að mikluð dýrð virkjanaframkvæmda á borð við það sé nú að birtast í árlegum leirstormum með nýjan leir á hverju ári vegna mestu gróðureyðingar í einni aðgðerð af mannavöldum í sögu landsins.
Athugasemdir
Á heraði eru og voru,öskumistur stundum með ofankomu algeng i þurrum sumrum, í réttri vindatt,löngu fyrir Kárahnjúkavirkjun, liklega frá Öskjugosi 1875.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 30.7.2021 kl. 18:40
Það er alveg rétt, og það rauk oft úr Jökulsárflæðum norðan Dyngjujökuls.
Nú rýkur minna þaðan vegna þess að Holhraun hið nýja lagðist yfir hluta af þeim.
En leirfokið úr leirunum á allt að 35 ferkílómetrum lónstæðis Hálslóns, þegar þessi meirihluti lónsins er þurr, er NÝTT FYRIRBÆRI, sem ekki var áður en lónið var myndað.
Á hverju sumri bera Jökla og Kringilsá um TÍU MILLJÓN TONN af fingerðum leir í lónið þegar rennslið getur verið allt að 500 rúmmetrar á sekúndu.
Síðan tæmist lónið að mestu yfir veturna af því að þá minnkar rennslið í það niður í allt að 5 rúmmetra á sekúndu.
Á hverju ári bætast ný og ný tíu milljón tonn af drullu við og dalurinn allur er talinn verða fullur af leir á einni öld með nýju og nýju efni í leirstormum.
Mesta rennslið á sumrið getur verið hundrað sinnum meira en í febrúar.
Vatnsyfirborð Hálslóns getur sveiflast allt að 50 metra upp og niður, hið mesta og hraðasta, sem þekkt er í heiminum.
Ómar Ragnarsson, 30.7.2021 kl. 19:12
Ég græt með þér Ómar!
Eyjólfur Jónsson, 30.7.2021 kl. 19:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.