3.8.2021 | 23:35
Stökk Beamons 1968 enn langstærst?
Afrek Karstens Warholm er líkast til stærsta afrekið á Ólympíuleikunum í Tokyo sem hægt er að mæla. Bæting heimsmetsins um 0,7 sekúndur er 2 prósent bæting og samsvarar því hlutfallslega að metið í 200 metrum væri bætt um 0,35 sek og metið í 100 metrunum um 0,18 sekúndur.
Í umræðum um þetta lygilega met Norðmannsins í Olympíukvöldinu kom fram það mat að þetta væri mesta bæting sögunnar og jafnvel meiri bæting en 55 sentimetra bæting Bob Beamons í langstökki á Ólympíuleikunum 1968, úr 8,35 upp í 8,90.
Það met Beamons var nú samt rúmlega 6 prósenta bæting eða þrisvar sinnum meiri bæting heimsmets en met Warholms var í nótt; bæting sem var tæp 2 prósent, þannig að það er að minnsta kosti umdeilanlegt að setja met Warhols framar. .
Stökk Beamons fékk alls kyns nöfn eins og "stökkið inn í næstu öld" og aðeins einu sinni síðan, í heil 53 ár hefur verið stökkið svona langt, í "langstökkseinvígi allra tíma" tuttugu árum síðar þegar þeir Mike Powell og Carl Lewis stukku 8,95 og 8,91.
Það afrek þeirra félaga sem var stokkið á láglendi, sýndi, að ekki var nema að mjög litlu leyti hægt að þakka þunna loftinu i Mexíkó afrek Beams nema að örlitlu leyti.
Hliðstæðar bætingar í öðrum greinum voru það litlar í Mexíkó, að laaangstökk Beamons stóð alveg fyrir sínu.
Stökkið var svo miklu lengra en menn töldu gerlegt, að keppnin tafðist um 20 mínútur vegna þess að hinn "fullkomni" mælibúnaður á staðnum réði ekki við svona geimskot.
Fara varð í byggingarvöruverslun til þess að fá málband til þess verks.
Ekki var hægt að útskýra stökkið með því að ný tækni hefði hjálpað til eins og stefndi í í stangarstökki eða hástökki.
Stökkið mikla var hvorki með einhverri nýrri tækni varðandi það að hjóla í loftinu með fótunum eða lenda á einhvern nýjan hátt, Beamon flaug eins og kúla hjá kúluvarpara, og þegar hann lenti eftir tæpra níu metra flug, átti hann svo mikið inni að hann tók tvö stutt aukastökk í sandgryfjunni í beinu framhaldi af risastökkinu!
Lygileg bæting Norðmannsins á eigin heimsmeti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.