26.8.2021 | 20:00
Hverjir kenna húsum, dýrum og fuglum að telja?
Nokkur orð um orðalag blaðamanns í viðtengdri frétt um byggingarleyfi fyrir hús í Reykjavík.
Svonefndar málvillur eru misjafnlega hvimleiðar eftir því hvort um hreina rökvillu og vitleysu er að ræða eða ekki, og í fréttinni er notað algerlega órökrétt orðalag.
Í fréttinni er sagt frá því að nýtt hús í Reykjavík sé 677,6 fermetrar og hefði legið beint við að orða þetta bara beint á mannamáli í fréttinni: Húsið er 677,6 fermetrar.
En í staðinn er sagt að húsið telji 677,6 fermetra. Orðalag sem þýðir samkvæmt orðanna hljóðan, að húsið hafi sjálft talið fermetrana innan sinna veggja.
Af einhverjum ástæðum hefur áratugum saman verið æ ofan í æ verið notað alveg óskiljanlegt orðalag um svona lagað í fjölmiðlum, til dæmis fjölda manna, dýra og fugla, og sagt að fuglarnir og dýrin telji svo eða svo marga fugla eða dýr.
Tökum dæmi:
Íslenski þorskstofninn er milljón tonn.
Auðskilið, einfalt og rökrétt.
En í samræmi við hina ágengu og langvarandi áráttu í íslenskum fjölmiðlum verður þetta svona:
Íslenski þorskstofninn telur milljón tonn.
Samkvæmt orðanna hljóðan þýðir þetta það, að íslenski þorskstofninn hafi tekið sig til og talið sig sjálfur.
Og þá vaknar spurningin: Hvernig lærðu þorskarnir að telja? Hver kenndi þorskunum að telja?
Leyfi fyrir mosku á Suðurlandsbraut 76 samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Alveg er ég sammála þér Ómar. Það eru ólíklegustu hlutir sem virðast geta gert eitt og annað. Nýlega sá ég í sjónvarpinu (RÚV) frétt um smíði útsýnispalls á Bolafjalli. Lauk fréttinni með því að upplýsa hvenær pallurinn opnaði. Það var reyndar ekki upplýst hvað pallurinn myndi opna.
Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.8.2021 kl. 07:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.