Áratugina sem virkjun Gullfoss var á dagskrá höfðu menn fordæmi Norðmanna í orkumálum í huga.
Þar í landi hafði fossinn Rjukan jafnan verið á dagskrá til að sýna erlendum gestum, svo sem Frakklandskeisara, svipað og gert var hér á landi, þegar Danakonungar komu í heimsókn.
Síðan var Rjukan virkjaður sem hluti af rafvæðingu Noregs og hefur ekki sést síðan.
Fróðlegt er að bera saman umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar og hugsanlegrar Gullfossvirkjunar.
Gullfossvirkjun myndi nota Hvítárvatn sem miðlunarlón, stöðuvatn, sem þegar er tilbúið til slíks. Stíflan þar yrði ekki sjáanleg nema handan við Bláfell og þessi framkvæmd afturkræf að mestu.
Kárahnjúkavirkjun þarf þrjú miðlunarlón og það stærsta mun fylla 25 kílómetra langan og 200 metra djúpan dal af aurframburði á algerlega óafturkræfan hátt, og gereyða fjölda einstæðra náttúruverðmæta.
Gullfossvirkjun yrði aðeins í einni á.
Kárahnjúkavirkjun tekur vatn úr þremur jökufljótum og þurrkar upp tugi fossa, þar sem þrir geta talist stórfossar líkt og Gullfoss.
Líka er fróðlegt að velta vöngum yfir rökstuðningi með Gullfossvirkjun: Ísland var enn nær vegalaust, án beislaðrar raforku að mestu og virkjunin myndi skapa atvinnuuppbyggingu og færa landsmönnum stórt stökk inn í nútímann.
Svipuð rök hafa verið uppi með stórvirkjunum á síðustu árum. En munurinn er sá, að nú notum við aðeins um 20 prósent af innlendri orku til íslenskra heimila og fyrirtækja en stóriðjufyrirtæki í erlendri eigu nota 80 prósent en skila nær helmingi minni virðisauka inn í efnahagslífið en sjávarútvegur og ferðaþjónusta.
Samt er náttúruverndarfólk sakað um að að vera á móti rafmagni, vera á móti atvinnuuppbyggingu og vilja að við förum aftur inn í torfkofana.
Athugasemdir
Sæll Ómar
Þessi 80% eru ekki að hverfa þótt Ísland hætti að framleiða rafmagn. S.Þ. hafa varað við að færa framleiðslu frá einu landi til annars til að bæta græna bókhaldið. Samt er það gert í miklum mæli. Annað hvort viljum við ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum eða græna bókhaldinu.
Ómar, er ekki hægt að fara 3ju leiðina? Hún er til ef samstarf næst milli þjóðanna. Um raunveruleg skref í mengunarmálum. En þá verða Kínverjar og Bandaríkjamenn að slást í hópinn.
EINAR S HALFDANARSON (IP-tala skráð) 27.8.2021 kl. 20:55
Eitt sinn heyrði ég mætan náttúrufræðing koma með þá hugmynd að leiða vatnið úr Gullfossi um göng til hliðar við hann og gera þar neðanjarðarvirkjun. Svo mætti hleypa vatninu í sinn eðlilega farveg eftir vild, t.d. um helgar og á ferðamannatímanum.
Þetta myndi vernda fossinn sem er sífellt að breytast og færast upp með ánni. Hann mun hafa færst um nokkra tugi metra síðan á landnámsöld.
Ekki skal ég fullyrða að mikil alvara hafi verið á bak við þessa hugmynd.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 27.8.2021 kl. 21:37
Ég er búinn að fara þvers og kruss mörgum sinnum um Noreg, Svíþjóð og Finnland og hef hvergi fundið neina svona lausn í framkvæmd.
Til dæmis er ekki neitt svona í gangi varðandi Rjukan.
Ómar Ragnarsson, 27.8.2021 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.