Hinar lífseigu "virkjanahugmyndir".

Hugmyndir um virkjanir í efri hluta Þjórsár eru ekki nýjar af nálinni heldur margra áratuga gamlar. Svonefnd Bjallavirkjun var þegar komin fram fyrir meira en fjörtíu árum og þótti afar alitleg vegna þess hve hagkvæm hún væri og passaði vel í virkjanamynsstur Þjórsár-Tungnaársvæðisins, sem er annað af tveimur langstærstu virkjanasvæðis landsins. 

Bjallavirkjun myndi þó aðeins gefa af sér um þrjátíu megavött eða um 4 prósent af allri vatnsorku þessa virkjanasvæðis. 

Þegar ásóknin í stórvirkjanir á hálendinu og í friðlöndum jókst, varð það ljóst, að miðað við hinn hlutfallslega litla orkuframleiðsluávinning, yrðu neikvæð og óafturkvræf umhverfisáhrif Bjallavirkjunar svo mikil, að þessi virkjun gæti aldrei orðið réttlætanleg. 

Hugmyndin um Bjallavirkjun féll því í dá í bili en aðrar og stærri komu fram, svo sem risavirkjun fimm jökulfljóta á norðausturhálendinu. 

Aftur lifnaði yfir virkjanahugmyndum að Fjallabaki og þar bættist við virkjun Skaftár og Tungnaár sameiginlega með því að bæta svonefndri Skaftárveitu við með því að stífla Skaftá nálægt upptökum og veita henni í Langasjó, og veita vatninu áfram í gegnum jarðgöng yfir í Tungnaá. 

Þessi hugmynd var rædd í alvöru þótt fyrir liggi að hún muni fylla fegursta fjallavatn Norðurlanda upp af drullu á sjötíu árum og valda fleiri óheyrilegum umhverfsspjöllum. 

Með vinnunni í sambandi við Rammaáætlun 1 blöstu að vísu við hinar hrikalegu afleiðingar þessa "hagkvæmasta virkjanakosts Íslands", sem aðeins slógu á hugmyndirnar um Bjallavirkjun. 

En það stóð tiltölulega stutt, því að fyrir nokkrum árum dúkkaði hugmyndin um Bjallavirkjun enn einu sinni upp og hugmyndir um virkjun Skaftár eru enn á dagskrá! 

Þótt hugmyndin um Bjallavirkjun hafi farið í verndarflokk í Rammaáætlun sýnir forsagan og aukin sókn í virkjanir í Skaftárhreppi, að full þörf er á að standa vörð um efri hluta Tungnaár eins og nú er reynt að gera með friðun þessa hluta árinnar. 

Vökunni verður þó að halda. Fyrir liggja yfirlýsingar tveggja iðnaðarráðherra frá fyrsta áratug aldarinnar um að friðlýsingar hafi þann kost, að auðvelt er að afnema þær!

Það breytir ekki táknrænu og haldbæru gildi friðlýsinga, sem er þakkarvert.    


mbl.is Tungnaá friðlýst gegn orkuvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Allir flokkar tala nú um minnkun útblásturs með því að skipta yfir í rafmagn
Vindorkuver særa mjög augað hvar sem þau eru svo það er fátt til ráða nema virkja bæjarlækinn

Grímur Kjartansson, 31.8.2021 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband