29.9.2021 | 18:16
Bann við handgjöf á rafreiðhjólum er fráleitt.
Þegar reglugerð um rafknúin reiðhjól var sett hér á landi, var einfaldasta útgáfan frá Brussel látin gilda óbreytt; 25 km/klst hámarkshraði, 250 vatta hámarksafl og bann við að hafa handstýrða aflgjöf.
Síðarnefnar tvær kröfurnar, 250 vöttin og bann við handgjöf eru fráleitar kröfur, þegar þess er gætt, að í sama flokki hjóla, sem hvorki þurfa tryggingar né skoðunar- og skráningarskyldu, eru bensínknúin hjól, sem eru með handgjöf og 50 cc mótora sem skila meira en 1000 vatta afli.
Og hvers vegna er þess gríðarlegi munur á kröfum? Jú, bensínknúnu vespuhjólin eru þrisvar sinnum þyngri og þess vegna er ekki hægt að aka þeim með fótaafli eingöngu!
Sem sagt; vægari kröfur á þrefalt þyngri og meira en fjórum sinnum aflmeiri hjólum!
Þegar síðuhafi innleiddi hjóla- og rafbílabyltingu hjá sér fyrir sex árum hafði það dregist vegna slæmrar reynslu af notkun venjulegra reiðhjóla fimmtán árum fyrr.
Vegna samfalls í baki, þoldu afltauganar út í fæturna ekki álagið við að hjóla nema mjög takmarkað.
Þá vildi svo vel til, að þegar tekið var ónotað rafhjól upp illseljanlegan gamlan bíl, og ætlunin að selja hjólið, kom í ljós að það var með sérstakri handgjöf sem opnaði möguleikann á að spara það að nota fæturna.
Í ofanálag hafði hjólið staðið ónotað of lengi og rafhlaðan orðin ónothæf.
Þar með var setið uppi með óseljanlegt hjól, sem hafði fengist í skiptum við óseljanlegan bíl.
Á móti kom handgjöfin góða eins og himnasending.
Þetta hjól opnaði alveg nýja vídd og hefur reynst afar vel.
Með því að gúgla allt um reglugerðir í öðrum löndum kom í ljós að auðvitað höfðu einstaka lönd fengið undanþágur til breytinga og má nefna þrjár:
1. 30 eða 32ja kílómetra hámarkshraða, svo sem í Danmörku. Hentar vel í þröngum hverfum þar sem er 30 km hámarkshraði.
2. 350 til 500 vatta vélarafl.
3. Handgjöf leyfileg.
Hér á landi heyrast oft gagnrýnisraddir á "reglugerðirnar frá Brussel." Ofangreint er hins vegar dæmi um það, að vanræktur hefur verið á heimavelli sá möguleiki að fá samþykki fyrir hentugum breytingum.
Með rafmagnið í stellinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Reglur eru ekki settar þér til öryggis eða þæginda.
Reglur eru settar til þess að að séu reglur. Hverjar reglurnar eru, það er auka-atriði.
Þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf vera.
Ásgrímur Hartmannsson, 29.9.2021 kl. 19:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.