3.10.2021 | 14:46
Tíu sinnum minna flatarmál í Vaðlareit en verður á Teigsskógsleið?
Það má áætla að fyrirhuguð Vestfjarðaleið um Teigsskóg mun kosta ruðning að minnsta kosti tíu sinnum meira flatarmáls af skógi og fögru skerjalandslagi, verðmætri landslagsheild, heldur en er ætlunin að gera hjá Skógræktarfélagi Eyjafjarðar í skóglendi austan Akureyrar, sem greint er frá í viðtengdri frétt á mbl.is.
Miðað við eðli máls væri hægt að leggja veg um Teigsskóg eftir svipuðum aðferðum og tíðkast víða í þjóðgörðum, svo sem á Bláskógaheiði við Þingvallavatn, með 50 eða 60 kílómetra hámarkshraða.
Það er gríðarlegur munur á slíkum hraða og 90 km trukkahraðanum, sem er keppikefli Vegagerðarinnar.
Bara hávaðinn einn af hinum stóru dekkjum á stórum bílum á slíkum hraða er margfaldur á við hávaðann af dekkjum á 50-60 km ferð.
Töfin í akstrinum á þessum vegarkafla yrði álíka mikil og í Hvalfjarðargöngunum, ca 2-3 mínútur, mog vegurinn þyrfti miklu minni brúttó breidd sem felst í ruðningi og uppfyllingu út af vegöxlunum.
Vegurinn norðan Þingvalla er gott dæmi um þann árangur sem hægt er að nú í þessum efnum þegar Vegagerðin tekur sig til, en því miður er ekki annað að heyra innan úr herbúðum hennar en að á Teigsskógsleið skuli valda sem allra mestum umhverfisspjöllum.
Myndin hér að ofan er tekin í utanverðum Teigsskógi þar sem Ólafur Arnalds stendur undir hluta af þein hluta skógarins þar sem eru reynitré.
Ólafur er eini Íslendingurinn sem hefur fengið Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Þau fékk hann fyrir tímamóta rannsóknir sínar á gróðurlendi Íslands.
En nú koma fram menn, sem telja sig hafa meira vit á málum en Ólaf á viðfangsefnum hans og fara mikinn.
Þeir hafna því að við nokkru sé hróflað í meðferð landsins, vegna skorts á gögnum!
Höggva tvo hektara af 85 ára gömlum skógi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Með sömu rökum ætti að fella umferðarhraða á veginum milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar gegnum Egilsstaðaskóg, sem kemst þó mun nær því að kallast skógur en kjarrið við utanverðan Þorskafjörð!
Og víða um land er að vaxa upp birkikjarr í kjölfar minni beitar eða beitarfriðunar. Ætti þá að fara eins að þar ?
Þórhallur Pálsson, 3.10.2021 kl. 16:32
Teigsskógarleiðin hefur algera sérstöðu sem landslagsheild á norðurströnd Breiðafjarðar, ekki aðeins sem stærsta skóglendið, heldur sem undur fjölbreytt fjörulandslag.
Vegstæðið um Egilsstaðaskóg er engan hátt sérstætt, hvorki á landsvísu né í samanburði við svipuð vegarstæði á Austurlandi.
Enn hefur ekki verið sýnd ein einasta mynd í íslenskum fjölmiðlum af Teigsskógi, heldur af ráðherrum og fjölmiðlafólki stöddu hinum megin við fjallshrygg norðan við Gröf, þar sem skógurinn sést ekki einu sinni.
Hvaðan hefur þú þá vitneskju að Teigsskógur sé bara kjarr eða jafnvel örfáar hríslur eins og haldið hefur verið fram?
Hefur þú gengið þessa leið eins og ég hef gert? Hefur þú flogið margsinnis yfir vegarstæðið?
Ómar Ragnarsson, 3.10.2021 kl. 18:10
sem sagt, flatarmálið í Vaðlareit einn tiundi af flatarmáli í Teigsskógi.
Björn S. Stefánsson (IP-tala skráð) 3.10.2021 kl. 18:17
Skil samt ekki alveg að þá þurfi að höggva 2 hektara fyrir 0,77 hektara hjólastig, auk þess er bùið að höggva úr þessum skógi fyrir þjoðveginum.
Hvað er vegurinn i gegnum Teigskóg langur, Vegagerðin helgar sér 2 hektara fyrir hvern km, 6m i öryggissvæði hvoru meginn og 8m vegur. Það mætti þvi gróðursetja i sárin utan við með birki
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 3.10.2021 kl. 18:34
Hinn nýi vegur verður alls um 13 km langur og flatarmálið því 26 hektarar, eða þrettán sinnum meira en í Vaðlareit. Hluti af þessari vegalengd, samt minnihluti, liggur um fjörur og uppfyllingar.
Ómar Ragnarsson, 3.10.2021 kl. 19:58
Nú ég hélt að nyji vegurinn færi eftir veginum út i Gröf og það væri svo um 6,5 km út a Grænatanga þar sem vegurinn færi yfir Djúpafjörðin, er nema um 4 km af þeirri leið skógur/ kjarr eða um 8 hektarar, Um 2,5 km eftir fjöruborðinu.
Vaðlaheiðareiturinn missir rúma 5 hektara ef við reiknum bæði stíg og þjóðveg 1
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 3.10.2021 kl. 23:36
Eftir að búið er að þvera marga firði vestar á Vestfjarðaleið hefur Teigsskógarleiðin verið sú eina og með fjölbreyttustu landslagsheildina og stærsta skóglendið á Vestfjörðum, sem eftir var.
Þetta er líka ekki bara málefni Vestfjarða, því þetta er hluti af Breiðafirði og hefur því áhrif á þá miklu og merku heild.
Ómar Ragnarsson, 4.10.2021 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.