Þá má sú væðing frestast fyrir mér.

Á fyrsta sunnudegi sæla ársins, 

sem er að hefjast nú með pomp og pragt 

er ég að bölva vanda´og böli fársins

sem bannsett tæknin hefur á mig lagt. 

 

Minn nýi sími sem ég fékk í hendur

og átti´að sinna mínum þörfum hér. 

er alveg vonlaus, eins og versta blæðing; 

vandræði alger hefur leyst úr læðing, 

og ef að þetta kallast tæknivæðing, 

þá má sú væðing frestast fyrir mér. 

 

Eitthvað þessu hrýtur af vörun ratans, sem var svo mikill einfeldningur að halda, þegar hann keypti minnsta, einfaldasta og ódýrasta farsímann af ákveðnu merki hér um árið væri þar komin lausn fyrir milljónir almúgamanna. 

Þessi sími hafði þrjá afar stóra kosti.

1. Hann var ódýr.

2. Hann var einfaldur, bæði í notkun og að allri gerð og allt gert til að spara rafmagnið. 

3. Og af því að hann var svona einfaldur og án alls svonefnds aukabúnaðar eins og stórum og flóknum skjá þá entist rafhlaðan hans margfalt lengur en á öðrum svonefndum "þróuðum" símum. 

Þegar lífdagar þessa dásamlega síma voru á enda, var auðvitað keypt ný gerð sem leysti hann af hólmi og hafði sömu kosti og örfáar einfaldar umbætur. 

En þegar að því kom að þessi frábæra rafhlaða gekk sér til húðar, var auðvitað keypt nýjasta gerð þessa minnsta síma framleiðandans, því að svo asnalega sem það hljómar, þá kostaði ný rafhlaða eins og sér meira en rafhlaða og síma til samans og var því framleiðslu hennar hætt.

Fyrirbrigðið er alþekkt í framleiðslu á rafeindavörum; búið að reikna það út fyrirfram, að aðalatriðið sé að bjóða vöruna á sem lægsta verði, en græða það margfalt til baka í sölu varahluta! 

Slíkt er auðvitað óskiljanlegt einfeldningi eins og eigandanum, svo að hann var í raun neyddur til að kaupa "uppfærðan" síma með breyttu útliti og ýmsum "endurbótum" og "nauðsynlegum nýjungum" eins og myndatökuvél. 

En nú hafði heldur betur slegið í bakseglin. Í stuttu máli sagt, hefur allri uppsetningu og fyrirkomulagi á þessum síma, sem á að vera sá ódýrasti og einfaldasti hjá viðkomandi framleiðanda, verið umbylt svo gersamlega og gert svo óendanlega flókið og ófyrirséð, að síminn hefur verið að mestu ónotaður síðan hann var keyptur fyrir jólin. 

Tvær sérstakar ferðir í búðina þar sem hann var keyptur þurfti til þess að hægt væri að kveikja á honum, að sjálfsögðu á allt öðrum stað en á gömlu símunum. 

Í kvöld gerði ég enn eina missheppnuðu tilraunina til að senda smáskilaboð á honum. 

Það er ekki eitt heldur allt. Ekkert tákn á skjánum litla, sem kominn er, er eins og var áður. Sum óskiljanleg, svo gerbreytt.   

Eitt smá dæmi:  Í ákveðinni stillingu stendur stórum stöfum meðst á skjánum: SVARA. 

Og maður heldur í einfeldni sinni að þarna eigi maður að ýta á þegar maður ætlar að svara. 

En þá gerist ekkert. 

Búðarferð leiddi í ljós, að SVARA var ekki nafnháttur af sögninni og skipuninni að svara, heldur stóð með örlitlum stöfum neðst og úti í horni "svarið."  

Þetta hálffalda orð°, "svarið", getur ekki þýtt annað en þrennt: 

1. Svarið við hringingunni, númerið sem hringt er úr, birtist á skjánum. 

2. Reiknað er með að tveir eða fleiri svari í einu; þ.e. svarið þið allir. 

3. Svarið táknar, að sá sem svarar sé þéraður. En þéringar voru lagðar af á Íslandi fyrir næstum hálfri öld!   

Nýlega hafa verið rakin dæmi um það hér á siðunni hvernig framleiðendum á tæknivörum virðist oft gleymast, að stærsti hluti kaupenda sé venjulegt fólk en ekki eihverjir sérfræðingar sem þróa vörurnar smám saman nær eingöngu til þess að gera þær sem tæknilega flóknastar og að því leyti við hæfi þeirra sjálfra. 

 


mbl.is Fresta ekki 5G-væðingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Það væri ekki verra að myndskreyta frásögnina með skjámyndum

Grímur Kjartansson, 4.1.2022 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband