18.1.2022 | 19:33
Margir gætu lært af íbúum Venhorst í Hollandi.
Brothættar byggðir og draugabæi er að finna um alla Evrópu og er draugabærinn Doel í Belgíu aðeins einn af mörgum þúsundum slíkra bæja.
Í nokkrum bæja hafa íbúarnir þó afrekað það að snúa vörn í sókn með athyglisverðum árangri, sem hefur verið kynntur og ræddur á fjölmennum þingum og ráðstefnum sem haldin voru á tveggja ára fresti áður en covid farsóttin skók heimsbyggðina.
Samtök, sem nefna sig Dreifbýlisþing Evrópu, ERP, European Rural Parliament, og meira en 40 þjóðir eiga aðild að, hafa staðið að þessu áhugaverða starfi.
Þingin hafa verið haldin í Brussel, Scharding í Austurríki, Venhorst í Hollandi og Candás á norðurströnd Spanar.
Afraksturinn hefur meðal annars verið sérstök stefnuyfirlýsing, sem send hefur verið helstu valdastofnunum Evrópu.
Einna athyglisverðastur hefur árangur framtaks íbúa bæjarins Venhorst í Hollandi verið, en þar bjuggu á sínum tíma hátt í tvö þúsund íbúar í líflegum bæ með líflegu menningarlífi og starfsemi.
En á síðustu árum varð þetta hálfgerður draugabær fyrir nokkrum árum, öll verslun dauð, og flutt til stórverslana í borgum í landshlutanum, félags-og menningarlíf svipur hjá sjón og skólahaldið í vandræðum.
Þá varð til sjálfsprottið fjöldaframtak bæjarbúa, þar sem fólkið ákvað að ráðast sjálft til atlögu við doðann og dauðann, úr því að einhliða bænakvak til stjórnvalda bar engan árangur.
Í samtökunum voru meðal annars eftirlaunafólk og lífeyrisþegar, sem bjuggu enn að nægu þreki, sem fékk fram að þessu litla eða enga útrás.
Íbúasamtökin söfnuðu einfaldlega fé til að kaupa og reka grunnverslunina í bænum og endurreisa verslun og þjónustu, og einnig var farið í að endurvekja menningarstarfsemi og stofna til nýrrar.
Meðan á þinginu stóð var efnt til glæsilegra og fjölbreytilegra fjöldasýninga, sem nutu sín til dæmis vel á aðaltorgi bæjarins.
Af þessu er ljóst að dreifðar og brothættar byggðir Evrópu eiga mun fjölbreyttari og fleiri möguleika til að bregðast við hinum hefðbundnu vandamálum dreifbýlis en margir hafa haldið hingað til.
Íbúar Doel og fleiri þorpa og bæja geta kannski lært eitthvað af íbúum Venhorst.
Draugabær í Belgíu berst fyrir lífi sínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar. Gönguhópar eldra fólks ættu að ganga niður Laugaveginn núna frá Hlemmi og sjá hvernig umhorfs er, annað hvert hús tómt á jarðhæðinni. Ég fæ ekki séð hvernig eldri manneskja á bíl getur skotist í verslun þar, eða yfirleitt á svæðið, hvað þá núna þegar fækka skal um 3000 bílastæði á nokkrum árum.
Það væri óskandi að lausn kæmi á vanda miðbæjarins, en hún verður að miða við að eldra fólk geti komist á bílum sínum á svæðið.
Ívar Pálsson, 18.1.2022 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.